Kvensjúkdómalæknir eða ljósmóðir? – Þjóðarsálin

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

————————

24 vikur & 4 dagar
Það er ekkert sældarlíf þetta óléttulíf. Margt hefur gengið á síðustu vikur og þá meina ég virkilega gengið á. Eftir að ég kom heim frá „þriðja heims landi“ eftir 6 vikna dvöl og komin þá rúmar 9 vikur hélt ég að hér í „1 heims landi“ yrði tekið vel á móti mér og ég fengi allar þá upplýsingar sem týnd stelpa, ólétt af fyrsta barni þyrfti, en svo var ekki.

Samkvæmt henni þá hefði ég átt að drífa mig strax í fóstureyðingu

Eftir 3 vikna bið fékk ég loksins tíma hjá heimilislækni, þá byrjuðu vandræðin. Samkvæmt henni þá hefði ég átt að drífa mig strax í fóstureyðingu þar sem allar líkur væru á að ég væri búin að gera vaxandi fóstrið að vanskapningi, ég var jú búin að vera að þvælast á hættulegum slóðum þar sem fólk pissaði í holur og borðaði með hægri hendi! Við værum líklegast bæði á leið til helvítis og á þessum fyrsta fundi okkar var ég stimpluð sem óhæf verðandi móðir búin að gangast undir bólusetningar og þvælast utan Evrópu, það er synd!
Eftir 40 mín af heimsókn til helvítis staulaðist ég út og urraði á kærastann að fara á netið og finna einkalækni svo við gætum komist í sónar helst í dag og reynt að komast að því hvaða hryllingur biði okkar, en hér í landi er ekki boðið að fara í sónar nema á 20 viku nema þú farir til einkalæknis sem kostar um það bil öll námslánin.

Eftir mikla leit fundum við stofu niðrí bæ sem var tilbúinn að taka á móti okkur daginn eftir, á laugardegi. Við mættum tímalega á stofuna, með hjartað í buxunum og full af kvíða. Við vorum kölluð inn eftir svolítinn tíma og kona frá Austur-Evrópu með bjagaða tungumálakunáttu tók á móti okkur, ósköp elskuleg og mikið viðkunnalegri en heimilislæknatruntan.

Ég horfði á kærastann og á bekkinn til skiptis, ekki pantaði ég tíma hjá kvensjúkdómalækni?

Þarna var ég alveg að pissa á mig eins og gerist svo oft á meðgöngunni, svo ég spurði um leyfi til að skreppa á klósettið fyrir skoðun. Þegar ég kom til baka sagðist konan þurfa að skreppa fram og ég ætti bara að klæða mig úr að neðan og setjast á bekkinn. Ha? Klæða mig úr? Ég horfði á kærastann og á bekkinn til skiptis, ekki pantaði ég tíma hjá kvensjúkdómalækni? Æj nei hugsaði ég, var ég svona galinn í gær að komast í tíma hjá einhverjum lækni að ég athugaði ekki einu sinni hverskonar tíma ég væri að fá?

Orðin rauð í framan byrjaði ég að hneppa úr buxunum og bað kærastann vinsamlegast um að halda kjafti og ekki fara að hlæja, enda handviss um að við værum á röngum stað. Ég klöngrast uppá bekkinn með fætur í sundur og býst við að vera skoðuð og greind með klamidýju í staðinn fyrir að rannsaka barnið. Vandræðaleg stund, og þá sérstaklega með kærastann glottandi við hliðiná. Jæja, inn kemur læknirinn og setur á sig plasthanskana og fer eitthvað að bjástra og sækir tól og tæki, svo stingur hún einhverju upp í leggöngin og ég hugsa fjandans, hverskonar kvensjúkdómalæknir er þetta?

En svo allt í einu, „boomboomboom“ og ég lít til hliðar, nei þarna var lítil geimvera á skjánum með ægilega sterkan hjartslátt. Ég veit ekki hvort ég var meira þakklát þegar hún sagði okkur að barnið væri líklegast al-heilbrigt eða þegar ég áttaði mig á því að ég hafði pantað réttan tíma…

SHARE