Verkið Sköpunarverk I eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur myndlistarkonu var afhjúpað með viðhöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur á Menningarnótt. Það er unnið úr lopa og er 4.20 x 3.70 á stærð. Þegar Listasafn Reykjavíkur fékk verkið að gjöf var ákveðið að velja því stað þar sem það væri aðgengilegt almenningi og var Ráðhúsið fyrir valinu.
Í þakkarræðu sinni á menningarnótt minntist Kristín sérstaklega á hvað hún væri stolt að tilheyra samfélagi þar sem borgarstjórn þorir að opna á umræðu um viðkvæmt málefni, nefninlega píkuna. En í gegnum árin hefur þetta litla líffæri kvenna mætt mýtum og fordómum og því miður tengst bæði ofbeldi og klámi.
Kristín sagði verkið aftur á móti fjalla um afl móður jarðar. Frumkraftinn sem býr í náttúrunni en líka innra með hverri manneskju. Aflið að þora að standa með sjálfum sér, segja satt, njóta og leyfa sér að vera til. Jafnframt sagði hún verkið vera tilvísun í þann hreina eld sem býr innra með okkur öllum þ.e. drifkraftinn, tæra hugsun og aflið sem nýtist til góðra verka.
Því er ekki úr vegi að verkinu hefur verið komið fyrir í húsakynnum ákvarðanatöku og valds.
Þóra er keramikhönnuður og starfar sem slíkur á vinnustofu sinni í Hafnarfirði ásamt pistlaskrifum og kennslu. Þóra reynir að tileinka sér umhverfisvæna mannasiði á sem flestum sviðum og notar t.d. sem náttúrulegust hráefni í hönnun sína. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og ytra ásamt því að hafa komið að rekstri tengdum heilsu og hönnun.