Kynferðisleg viðbrögð karla – stinning

Kynferðislegar tilfinningar eru eðlislægar og eru hluti tilverunnar. Hvorki bænir, formælingar né kaldir bakstrar geta fjarlægt kynferðislegar kenndir, né hindrað að þær komi fram á einhvern máta. Kynlíf er jafn eðlilegur og nauðsynlegur þáttur í tilverunni og hungur og þorsti og telst til grunnþarfa mannsins. Kynlíf er einskonar samheiti yfir þörf okkar fyrir nálægð við aðra einstaklinga, samskipti, langanir, þarfir, tilfinningar og viðhorf.

Hvað er kynferðisleg örvun?

  • Kynferðisleg örvun verður fyrir áhrif frá umhverfinu. Hún getur orsakast af einhverju sem maður sér, heyrir, les eða finnur fyrir með líkamlegri snertingu. Tilhugsunin ein getur dugað til. Karlmönnum getur staðið án þess að þeir noti hendur eða önnur hjálpartæki, með því einu að loka augunum og hugsa um eitthvað kynferðislega örvandi.

Hver eru kynferðisleg viðbrögð karla?

  • Kynferðislegum viðbrögðum karla má skipta í þrennt. Fyrst verður örvunarstigið með vaxandi kynferðislegri örvun. Síðan kemur stig fullnægingar og slökunarstigið að lokum.
  • Þetta byrjar með vellíðan og húðin hitnar, jafnframt þægilegri vöðvaspennu. Blóð streymir út í kynfærin og holdið rís. Pungurinn þrútnar og hrukkast en eistun dragast upp mót nára.
  • Dropi af glæru smyrjandi slími birtist ef til vill í þvagrásaropinu, og forhúðin rennur aftur. Ef til vill þrútna geirvörturnar og stinnast.
  • Samtímis eykst púls og blóðþrýstingur. Ef til vill má finna fyrir æðaslætti. Að minnsta kosti sést það á limnum sem stækkar, hreyfist til og slær lítillega til í takt við púlsinn.
  • Kóngur limsins þrútnar enn meira, verður dekkri og nánast purpurarauður.
  • Andardráttur verður hraðari, húðin á líkamanum og andlitinu verður litríkari og heitari. Ef til vill ferð þú að svitna. Vöðvaspennan eykst, frá andliti og niður eftir líkamanum.
  • Smám saman verður kynferðislega spennan svo mikil að fullnægingin er skammt undan. Ekki er lengur hægt að halda aftur af henni og sáðlát byrjar. Sæðið spýtist út í 3-5-8 eða fleiri gusum með um það bil einnar sekúndu millibili.  Það gerist vegna þess að vöðvarnir í botni mjaðmagrindarhols og kringum endaþarmsop herpast ósjálfrátt saman á taktfastan hátt.
  • Áður en þetta verður hefur sæðið safnast saman í efsta hluta þvagrásarinnar, og er þar til taks þegar það þarf að þrýstast út er að sáðláti kemur. Sæðið, samanstendur af sæðisfrumum sem koma frá eistunum og sæðisvökva sem aðallega er upprunninn úr blöðruhálskirtlinum og tveimur litlum sáðblöðrum, sem liggja undir og bak við þvagblöðruna, hátt uppi í mjaðmagrindarholinu. Frá blöðruhálskirtlinum er samgangur við efsta hluta þvagrásarinnar, svo að sæðið kemst þar inní þvagrásina. Sæðið á því ekkert skylt við þvag, þó að hvort tveggja komi út um þvagrásaropið.
  • Eftir fullnæginguna finnur maðurinn fljótt fyrir innilegri ánægju og ró. Stinningin minnkar fljótt og limurinn linast, eistun síga aftur niður á sinn vanalega stað, líkaminn og vöðvar hans slaka á, púlsinn, blóðþrýstingurinn og andardrátturinn róast.
  • Þreyta gerir vart við sig og ef dagur er að kveldi kominn, sofna margir karlar mjög fljótlega.

Getur maður notið margra samfara í röð?

  • Fyrir kemur að fólk endurtekur kynferðisleg atlot eftir smá hvíld og einkanlega eru það ungir menn sem geta verið nokkuð fljótir að fá fulla reisn og sáðlát á nýjan leik.
  • Andstætt konum sem geta fengið hverja fullnæginguna á eftir annarri, er það sjaldgæft hjá körlum.

 

 

 

 

doktor.is logo

SHARE