Það er ævinlega áfall að fá þá fregn að vera með krabbamein eða annan alvarlegan sjúkdóm. Á þessu tímabili rannsókna og meðferðar beinist öll athyglin að sjúkdómnum. Það getur verið erfitt að hafa eitthvað aflögu fyrir tilburði á sviði kynlífsins. Löngun í slíkt er oft af skornum skammti. En þegar að því kemur að þú hefur náð þér nægilega vel til að geta horft fram á veginn, með trú á heilbrigt og eðlilegt líf, kemur þörfin fyrir kynlífið aftur. Það gildir hvort sem krabbameinið hefur valdið greinilegri fötlun eða þú hefur náð þér að fullu líkamlega. Það getur verið erfitt að komast í gang aftur. Sjúkdómurinn hefur verið sem þrúgandi skuggi og óttinn við að missa heilsuna hefur hugsanlega valdið því að allt annað hefur mátt sitja á hakanum, kynlífið meðtalið. Það er alveg eðlilegt og skiljanlegt að bregðast þannig við.
Getur kynlíf verið skaðlegt fyrir krabbameinssjúklinga?
- Varðandi það hvort óhætt sé að stunda kynlíf, er ráðlegt að ræða við lækninn þegar sjúkdómurinn greinist, áður en að aðgerð og hugsanlega erfiðri lyfja- eða geislameðferð kemur.
- Það er óhemju mikilvægt, ekki aðeins hvað kynlífið varðar, heldur lífið í heild sinni að vera vel upplýstur um sjúkdóminn og afleiðingar hans til lengri og skemmri tíma. Þar með talið er að sjálfsögðu vitneskja um hvort sjúkdómurinn eða læknismeðferðin geti valdið breytingum á starfsemi kynfæranna.
Hér er of mikið mál að telja einstaka sjúkdóma og meðhöndlun þeirra. Ef þú vilt fræðast um ákveðinn sjúkdóm er hægt að leita að honum í kaflanum um krabbamein.
- Eru aðrar ástæður en krabbameinið að baki kynlífsvandamálunum?
Ef þú átt erfitt með að byrja aftur kynlíf eftir erfiðan sjúkdóm er reynandi að spyrja sig ýmissa spurninga
- Ertu viss um að kynlífsvandamálin séu af völdum nýafstaðinna veikinda eða eru það önnur atriði í samlífi ykkar sem trufla? Ef sjúkdómurinn er ekki ástæðan má ekki nota hann sem afsökun fyrir það að samlífið gengur ekki sem skyldi.
- Hefurðu efasemdir um kynferðislega hæfni þína? Reyndu að fróa þér og kannaðu hvort þú getur fengið fullnægingu. Ef það reynist vandkvæðum bundið gæti hjálpað að eiga um það orð við lækninn.
- Hvað telurðu sjálfur að sé orsök þeirra vandræða sem þú átt við að etja? Og hvað hefur þú eða aðrir gert til að leysa þau? Hvað álítur þú að hægt sé að gera í málinu? Hvað truflar framgang mála? Og síðast en ekki síst, hvaða væntingar hefur þú um kynlíf þitt í framtíðinni?
Hvernig hefjið þið samlífið á nýjan leik?
- Flestir, sem hafa tekist á við alvarlegan sjúkdóm og meðfylgjandi ótta og óöryggi, hræðast tilhugsunina um að stundun kynlífs geti valdið líkamlegum skaða eða þaðan af verra; að kynlífið geti valdið því að sjúkdómurinn taki sig upp aftur. Ennfremur að sjúkdómurinn hafi hugsanlega verið smitandi og sé það enn og smiti hugsanlega við stundun kynlífs.
- Slíkur þankagangur og meðfylgjandi misskilin tillitssemi getur stöðvað kynlíf. Enn og aftur: Þið verðið að ræða saman og við lækninn til að losna við þessa óvissu.
Hvað er til ráða ef sjúkdómurinn hefur valdið líkamlegri fötlun?
Vonandi hefur sjúkdómurinn ekki valdið neinni verulegri líkamlegri röskun á kynlífi ykkar. En ef líkamleg fötlun hefur hlotist af veikindunum þarf einnig að takast á við hana.
- Munið að skert snertiskyn þarf alls ekki að þýða að tilfinningarnar hverfi. Munið að stinningarvandræði jafngilda ekki því að ekki sé hægt að njóta kynferðislegra atlota og veita maka sínum, og sjálfum sér, unað og fullnægingu. Munið að jafnvel þótt kynfæri hafi verið fjarlægð útilokar það ekki kynferðislegt samlíf.
- Það sem máli skiptir er að sjúkdómurinn er að baki, þið skuluð horfa fram á veginn og nýta tímann, sem þið eigið saman, eins vel og vera má – líka hvað varðar kynlífið.