Lá inn á spítala með næringu í æð og missti 15 kíló – Sólarhringsógleði á meðgöngu er ekkert grín!

Sigurlaug Arna Sævarsdóttir var ekki búin að fá jákvætt þungunarpróf þegar hún fór að finna fyrir mikilli ógleði. Þegar hún var komin 5 vikur á leið byrjaði hún að verða mjög veik. Hún sagði okkur sögu sína og vill vekja athygli á því að það er ekkert grín að þjást af sólarhringsógleði. Það er oft talað um morgunógleði en morgunógleðin getur varað allan sólarhringinn og sumar konur eru svo illa haldnar að þær þurfa að leggjast inn á spítala.

Ældi á 20 mínútna fresti.

Ég man að ég var rosalega slöpp allan daginn í vinnuni og þegar ég kom heim. Ég ákvað að leggja mig um kl 20 og þegar ég vaknaði aftur byrjaði ég að æla. Ég ældi á 20.mínútna fresti fyrsta sólahringinn og varð því strax mjög slöpp. Næstu daga hélt ég svo áfram að æla svo mikið að við ákváðum að hringja uppá fæðingardeild og athuga hvað við gætum gert í málinu.

Sigurlaug missti 4 kg á tveimur vikum. Hún var farin að hafa áhyggjur af því að barnið væri ekki að fá þá næringu sem það þyrfti og hringdi upp á fæðingardeild í leit að ráðum.

Okkur var tjáð það að þetta væri allt í lagi þar sem að ég var bara búin að missa 4.kíló á tveimur vikum en yfirleitt þarf maður ekki að fara í vöggvagjöf fyrr en maður er búin að missa 5-7kg. Þær báðu mig samt um að reyna að borða og drekka vel af vökva, vera með saltkex við rúmið og öll þessi góðu ráð sem að við þekkjum með morguógleðina/sólahringsógleðina.  Ég reyndi allt, sjóða engifer, borða ís , ALLT.  Allir skápar voru fullir af mat sem ég ældi um leið og ég setti upp í mig. Við reyndum allt en ekkert virkaði.

 Mætti annan hvern dag upp á spítala til að fá næringu í æð. Fékk yfirleitt tvo lítra í einu.

Fljótlega var ég búin að ná þeirri kílóatölu sem þurfti, ég hafði lést um mörg kíló á nokkrum vikum og ég var beðin um að mæta upp á spítala í blóðprufu og þvagprufu. Ljósmæðurnar á spítalanum í Keflavík eru alveg yndislegar og vildu allt fyrir mig gera og helst aðeins meira en það.

Ástandið var orðið svo slæmt að ég mætti til þeira annan hvern dag til þess að fá vökva í æð.  Ég fékk yfirleitt 2.lítra í einu.  Ég var orðin svo þurr og þess vegna frekar erfitt að setja upp legg hjá mér en það hófst alltaf. Þeim hætti nú samt að lítast á  blikuna og ákváðu að leggja mig inn í sólarhring og gefa mér næringu í æð. Þennan sólarhring fékk ég um 5.lítra og leið aðeins betur í hálfan dag og byrjaði svo að æla aftur. Ég ákvað að herða upp hugan og prufa nálastungur en ég er logandi hrædd við sprautur og nálar.  Þarna var maður bara komin á það stig að þú þurftir hvort sem er að láta stinga þig til þess að fá vökva, af hverju ekki þá að prufa þetta?  Nálastungurnar hjálpuðu mér því miður ekki neitt.

 Ælufatan fékk að fylgja með hvert sem hún fór og fékk hún nafnið Fati!

Saga mín heldur í raun svona áfram fram að 13 viku meðgöngu en ég hafði þá ekkert unnið í 2 mánuði.  Ég reyndi að fara einn og einn dag í vinnuna en endaði alltaf á því að hanga inni á klósetti megnið af tímanum og knúsa postulínið.  Ég  svaf með ælufötuna uppí rúmi og andlitið ofan í. Ég fór ekkert nema að hafa fata (ælufatan fékk það nafn) með.

Alltaf þegar ég fór í vökvagjöf var Fati með okkur í bílnum svo hélt ég á ælupoka inn, ógleðin var það mikil að ég gat ekki án fötu eða ælupoka verið.  Þegar maður er svona mikið veikur þá fer manni að finnast maður vera aumingi og ég hugsaði alltaf með mér, það eru margar konur búnar að ganga í gegnum morgunógleði/sólahringsógleði og geta samt unnið, það hlyti bara eitthvað að vera að mér, ég væri bara með aumingjaskap og ég gæti sko alveg unnið eins og allar aðrar konur.

Ógleðin var ekkert venjuleg – Ef ég sneri mér í rúminu ældi ég

Ég áttaði mig bara ekki á því að ég var mjög illa haldin af sólarhringsógleði og það er ekkert grín. Ljósmæðurnar héldu jafnvel að ég gengi með tvíburra vegna þess að þá getur ógleðin oft orðið svona mikil.

Ég var í raun svo slæm að ef að ég sneri mér í rúminu þá ældi ég, einn lítill sopi af vatni og ég ældi og hvað þá ef ég borðaði mat.  Ég var að æla frá 6 skiptum á dag þegar ég var sem best og allt að 15 sinnum á dag þegar ég var sem verst. Ljósmæðurnar sögðu mér að það væru nokkur ár síðan þær höfðu sinnt konu með svona slæma sólarhringsógleði. Fjölskyldan fékk að vita um veikindin og þunguninna þegar ég var komin rúmar 8 vikur. Þá  var ég búin að æla stanslaust í 3.vikur.

Fjölskyldan varð strax mjög áhyggjufull þegar þau sáu mig og heyrðu hvað var búið að ganga á. Ég var mjóg máttlaus og gat í raun ekki verið ein heima einu sinni.  Mínar áhyggjur voru samt mest þær að litla ljósið sem var að vaxa og dafna inn í mér myndi hljóta skaða af öllum þessum uppköstum.  En það er víst ekki svo, börnin taka alltaf þá næringu sem þau þurfa, og ljósmæðurnar pössuðu svo vel uppá mig og róuðu þessa hugsun.

Ætla ekki að láta stinga mig meira!

Þegar ég fór, komin rúmar 11.vikur upp á spítala til þess að skila þvagprufu til að athuga stöðuna á ketónum i blóðinu, sem voru orðin mjög slæm hjá mér, sagði ég við mannin minn: “Ég ætla sko ekki að láta stinga mig meira, ég skal pissa í þetta glas og svo er ég farin heim!”

Ég var alveg komin með nóg af nálum. Ljósmóðirinn sem tók á móti mér var mjög róleg og skoðaði prufuna og lét mig ekki vita strax hvað hafði komið út úr henni heldur bauð mér bara að leggjast upp í rúm og slaka aðeins á. Ég vissi sko alveg að hún ætlaði að reyna að setja upp legg hjá mér enda alveg farin að þekkja inn á þetta, þannig að ég fór bara í rúmið mitt á spítalanum. Það var orðið svo erfitt að setja legg upp hjá mér að hún þurfti að fá aðstoð. Loksins tókst að finna æð sem vildi taka við nálinni en ég var komin með ungbarnanálar því allar aðra voru of stórar.

Lá inni á spítala í nokkra daga með lyf og næringu í æð.

Þetta var á föstudagskvöldi  og ljósmóðirin sagði mér að núna væri staðan á ketónum í blóðinu orðin það slæm að hún vildi að ég myndi liggja inni alla helgina og jafnvel lengur. Ég sagði bara já við því enda leið manni ekki vel að vera heima svona slöpp. Hún gaf mér ógleðislyf og ég reyndi að hvíla mig. Á þessum tímapunkti var ég búin að prufa sjóveikistöflur og lyf sem heitir phenergan til þess að reyna að rétta mig við en ekkert virkaði. Ég ældi alla nóttina og ljósmóðirin kom alltaf hlaupandi þegar hún heyrði að ég væri að kasta upp.

Laugardagurinn rann upp og reyndi ég að borða en ég skilaði öllu jafn óðum. Ég ældi rosalega mikið þennan dag og endaði það með því að þær sögðu við mig að ég færi ekki heim fyrr en þær væru búnar að hjálpa mér að ná tökum á þessu.  Sunnudagurinn kom og læknir kom til þess að meta ástand mitt og skipta um æðalegg.  Æðaleggurinn vildi ekki fara inn og var læknirinn ekkert að pína mig meira og sagðist bara ætla láta þennan sem væri í mér núna duga í nokkra klukkutíma í viðbót og leyfa mér að jafna mig.  -Hann tók undir það að ég væri ekki á leiðinni heim í þessu ástandi.  Æðaleggurinn sem  ég var með var svo lítill að það var ekki hægt að gefa mér lyf í gegnum hann heldur varð að sprauta þvi í mig sem var gert alla helgina  þegar ég þurfti lyf ásamt því að ég gat tekið stíla.

Öllum töflum ældi ég jafnóðum. Mér leið ótrúlega illa og var alltaf við það að æla þar til loksins þeir náðu að setja upp æðalegg sem hægt var að gefa mér lyf í gegnum og allir rosalega ánægðir. Ég fékk lyf og fann strax að mér leið betur.

Fékk matarlystina aftur

Ég finn allt í einu að ég var orðin svöng en það hafði ég ekki verið í margar vikur, þegar maður kastar svona mikið upp þá hættir þú að finna fyrir hungri og verður frekar hrædd við að borða. Ég borðaði hálft rúnstykki og beið svo í smá stund. Ég hélt því niðri  og drakk smá ávaxtasafa og hélt honum líka niðri! Þvílík undur og stórmerki. Þetta var æðislegt!

Ég fékk mannin minn til þess að kaupa kringlu og smurost því mig langaði allt í einu rosalega mikið i svoleiðis. Þarna borðaði ég og hélt öllu niðri,  gat farið framúr og gengið án þess að æla. Þetta var æði. Læknirinn kom aftur til þess að sjá hvernig ég hefði það og sagði við mig að ef ég væri svona hress þá mætti ég fara heim á morgun.  Þarna hætti ég að æla og þennan dag var ég nákvæmlega komin 12.vikur á leið. Ég var orðin ,,hress“ og komin með matarlyst þetta var alveg hreint yndisleg tilfinning.

Missti um 15 kg á þessum 7 vikum vegna uppkasta. Berst ennþá við sólarhrings ógleði á 27 viku meðgöngu.

Ég var svo útskrifuð á mánudagsmorguninn og fékk að fara heim.  Á þessum 7. Vikum missti ég 12-15kg. Í dag er ég komin 27.vikur hef lítið kastað upp frá því á spítalanum en ég berst ennþá við ógleði allan sólahringinn og þarf stundum að taka ógleðislyf inn til þess að halda mér sæmilegri og til þess að getað borðað.  Matarlystin er ekkert rosalega mikil en ég er bara ánægð að geta borðað eitthvað.  Ég byrjaði aftur að vinna á 13.viku en bara 50%. Ég get ekki unnið meira því að ógleði er ennþá rosalega mikil þó ég kasti eiginlega aldrei upp lengur. Ég lá föst í rúmin þessar 7 vikur og er því slæm í bakinu. Líðan mín í dag er samt góð þó að þessi blessaða ógleði ætli að fylgja mér út meðgönguna. Ég tek þessu bara eins og það er vegna þess að ég veit að í nóvember þá fæ ég lítin gullmola í staðinn. Þetta er bara vinna sem ég þarf að hafa fyrir á meðan og er sko allveg þess virði.

 Ljósmæðurnar hjálpuðu okkur bæði andlega og líkamlega og fyrir það erum við þakklát

Ég vil nota tækifærði og þakka öllum þeim ljósmæðrum sem vinna á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þær sinntu mér eflaust allar með tölu á þessum 7 vikum og þær voru alltaf tilbúnar að gera allt til þess að láta mér líða vel. Þær voru jákvæðar og gerðu allt til að herða upp huga okkar þegar við höfðum áhyggjur af litla ljósinu okkar. Þið hjálpuðuð okkur bæði andlega og líkamlega og því mun ég aldrei gleyma. Þið eruð yndislegir englar.

Ég vil líka þakka lækninum og hjúkrunafræðingunum sem voru með mig þessa helgi sem ég lá inni, þið eruð líka æðisleg. Svo vil ég auðvitað þakka manninum mínum sem stóð eins og klettur við hlið mér allan þennan tíma meðan fatan svaf á milli okkar og gerði allt sem hann gat til þess að láta konunni sinni líða betur. Seinustu þakkirnar fær svo fjölskyldan sem passaði voða vel uppá okkur öll 3.

 

Ég vona að þessi grein hjálpi einhverjum að sjá að þetta er til og er ekkert grín en allt er hægt ef viljinb er fyrir hendi og það er mikilvægt að líta alltaf á björtu hliðarnar!

 

Takk fyrir að lesa! Sigurlaug Arna

SHARE