Hjálmar Forni er að læra snyrtifræði í Beauty Academy og er eini karlmaðurinn sem er að læra snyrtifræði í dag: „Ég vissi voða lítið út í hvað ég var að fara en ég var búinn að læra förðun og fannst skólinn svo æðislegur að ég hreinlega gat ekki hætt, ég varð að vera lengur með þessu frábæra fólki svo ég ákvað að skrá mig á snyrtifræðibrautina. Hver veit nema ég taki stílistann og ljósmyndun líka að þessu námi loknu.“
Hjálmar segir að nám eigi að vera skemmtilegt og að mann eigi að langa að læra eitthvað. Hann reyndi sjálfur við menntaskólann en fannst það eiginlega ekkert spes.
Lærði köfun, tók pungapróf og fór í flugnám
„Ég ákvað því, þar sem pabbi minn er köfunarkennari, að skella mér í köfunarnám og útvegaði mér græjur og henti mér í sjóinn. Mér finnst magnað að geta bara hengt á mig allskonar búnað og farið svo að leika mér með fiskunum og andað undir yfirborðinu, en kuldi og svoleiðis er ekki alveg að höfða til mín þannig ég læt mér það nægja að kafa bara í útlöndum í heitum sjó,“ segir Hjálmar.
Sjórinn hélt samt áfram að heilla Hjálmar svo hann ákvað að taka þetta svokallaða „pungapróf“ svo hann gæti setið inni í hlýjunni með kaffibolla, en samt verið á sjónum en bara í þetta skipti á bát. „Svo fór að hausta og brælan varð meiri og ég ákvað að halda mig í landi og hætta hnipra mig saman niðri í lúkar og æla í gamalt vaskafat,“ segir þessi hressi strákur.
Hjálmar fór að þjóna um veturinn og gerði það alveg fram á vor en þá fór hann að langa í meira nám og skráði sig því í einkaflugmannsnám hjá Keili. „Ég kláraði bóklega námið og tók rándýra flugtíma og mikið þótti mér það nú gaman, eða allavega á meðan ég flaug bara frekar beint. Þegar líða fór á námið átti ég að æfa mig að gera allskonar slaufur og hringi og koma út úr þessu öllu saman í sömu hæð og í sömu stefnu og þegar ég byrjaði hringavitleysuna. Í Hvalfirði fékk ég hviðu undir annan vænginn og mátti þakka Guði fyrir að enda ekki á hvolfi, ég hélt heim á leið, liggur við með ekka, lenti á Reykjavíkur flugvelli, tékkaði mig út af svæðinu og hef ekki komið þangað síðan,“ segir Hjálmar
Amma Hjálmars kynnti hann fyrir Beauty Academy
Þarna var Hjálmar farinn að heyra svolítið oft „Jæja Hjálmar minn hvenær ætlarðu að finna þér eitthvað við þitt hæfi?“ og hann reyndi að þagga þetta bara niður og láta lítið fyrir sér fara. Einn daginn hringdi amma í mig og sagðist vera fyrir utan og ég ætti að klæða mig og koma á fund. Amma var búin að bóka mig í förðunarnám og átti ég að byrja strax í næstu viku.
„Núna er ég að klára síðustu önnina í snyrtifræði og er ekkert smá ánægður. Engin bræla og enginn vindur til ógna öryggi mínu,“ segir Hjálmar. „Snyrtifræðin er rosalega vanmetið nám að mínu mati. Þetta nám er mjög krefjandi og erfitt á köflum og fólk gerir sér ekki alveg grein fyrir því hvað þetta er mikið. Ég er oft spurður hvort ég sé ekki alltaf að pússa neglur og svona en ég er svo langt frá því að vera bara að því,“ segir Hjálmar en í snyrtifræðinni lærir fólk um húðina, hárið, beinin og vöðana og fleira á latínu. „Það er voða gaman að geta slegið um sig á latínu og segjast til dæmis vera svo illt í „Musculus Sternocleidomastoideus“ sem er vöðvi í hálsinum. Í Beauty Academy er gríðarlega flott vinnuumhverfi og aðstaðan er alveg meiri háttar. Mórallinn, segir Hjálmar, að sé ekkert smá góður og kennslan sé frábær. „Ég er ótrúlega ánægður með ömmu að hafa kynnt mig fyrir þessum skóla því hann er alveg meiri háttar. Ég hef alltaf litið upp til Páls Óskars og elska hann í ræmur og þökk sé snyrtifræðinni þá veit ég núna hvernig hann fer að því að vera ennþá svona gordjöss!“
Hvetur stráka til að fara í snyrtifræðina
„Þegar ég byrjaði, heyrði ég að ég væri eini strákurinn að læra þetta á landinu og ég varð ekkert hissa svo sem, en það sem vakti meiri athygli hjá mér var að það er heldur enginn karlmaður að vinna við þetta. Það er auðvitað svolítið gaman að vera eini á landinu en ég hvet samt stráka til að tékka á þessu því þetta er bara svo gefandi og skemmtilegt,“ segir Hjálmar. Hann bætir við að það væri gaman að safna saman nokkrum flottum karlkyns snyrtifræðingum og opna heilsulind fyrir karlmenn en slíkt þekkist alveg hjá konum. „En ég er ansi hræddur um að eitthvað yrði nú sagt við því. En það er svo margt hægt að gera ef maður bara hættir að hugsa um það og gerir það. Ég er með svo mikið að hugmyndum sem mig langar að gera í sambandi við þetta fag sem tengjast íslenskri náttúru og sögu sem ég ætla að hafa út af fyrir mig í bili, en ef þú átt margar milljónir kæri lesandi, máttu hafa samband. Það sem ég get þó gefið upp af mínum hugmyndum er, að strax og ég er búinn í skólanum þá ætla ég að berjast fyrir hærri launum fyrir okkur sem störfum í þessu yndislega fagi,“ segir þessi glæsilega strákur að lokum.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.