Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að hér sé um að ræða besta lasagne í heimi. Já, ég fullyrði. Það er auðvitað allt gott sem inniheldur beikon. Um það verður ekki deilt.
Lasagne með beikoni og sólþurrkuðum tómötum
500 gr hakk
200 gr beikon (svona sirka)
lítil krukka af sólþurrkuðum tómötum
1 lítil dós tómatpúrra
1 dós niðursoðnir tómatar
1 dl vatn
lasagneplötur
1 stór dós kotasæla
ostur
svartur pipar
salt
oregano
chillikrydd
paprikukrydd
tacokrydd (þetta í rauðu pokunum)
cayenne pipar
1/2 nautateningur
- Steikið hakkið á pönnu við vægan hita. Kryddið með salti, pipar, papriku, oregano og tacokryddi (sirka hálfum poka). Setjið örlítið af cayanne pipar og chillikrydd eftir smekk. Saxið beikonið og steikið létt á annarri pönnu. Blandið því svo saman við hakkið þegar það hefur tekið lit. Látið beikonfituna gossa af pönnunni líka. Mmm.
- Sigtið olíuna af sólþurrkuðu tómötunum og saxið þá smátt. Það er líka hægt að kaupa þá saxaða – mun hentugra. Bætið þeim við hakkið og beikonið. Hellið niðursoðnu tómötunum og tómatpúrrunni á pönnuna. Setjið desilíter af vatni saman við og hálfan tening af nautakrafti. Leyfið þessu að malla í góða stund.
- Ég treysti á að þið kunnið framhaldið. Hakkblanda, lasagneplötur, kotasæla. Endurtaka. Ostur yfir. Inn í ofn á 180° í sirka 30 mínútur.
Algjört hnossgæti – það er loforð!
Tengdar greinar:
Ofnbakað pasta með nautahakki – Uppskrift
Dásamlegar pönnukökur með hakki – Uppskrift
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.