Þessi gullfallega og hjartnæma stuttmynd, sem byggð er á sannsögulegum atburðum, sýnir með augum barns sem lætur einföld orð falla á þungbúnum rigningardegi hversu mikilvægt okkur öllum er að láta ekki leiðigjörnu smáatriðin í lífinu slá okkur út af laginu.
Stuttmyndin, sem var útgefin á YouTube, sýnir hóp fólks standa undir skjólvegg við stóra byggingu í byljandi regni, þögult og þungbúið, í þeirri von að veðrinu taki að slota brátt. Enginn segir orð þar til litla stúlkan hefur upp raust sína og biður móður sína í einlægni að hlaupa með sér gegnum rigninguna. Môðir hennar, örvingluð og þreytuleg á svip, neitar stúlkunni og segir að þær verði að bíða þar til skúrinn stytti upp.
En takið vel eftir því hvað gerist á 0:39 mínútu þegar stúlkan segir með barnslegri röddu:
En manstu ekki hvað þú sagðir? Þegar þú varst að tala við pabba í morgun um krabbameinið hans, þegar þú sagðir að ef við gætum komist í gegnum þetta, þá gætum við komist í gegnum allt?
Orð litlu stúlkunnar hafa djúp áhrif á móður hennar, sem íhugar orð barnsins í nokkrar mínútur og virðist svo taka inn þá gullfallegu lífslexíu sem barnið er að rétta að henni. Að lokum lítur móðir stúlkunnar niður til barnsins og segir:
Hlaupum í gegnum regnið – og ef við verðum blautar, þá þurftir þú örugglega á smá baði að halda!
Mæðgurnar hlaupa flissandi út í ausandi regnið og hlæjandi hleypur holdvotur skarinn á eftir þeim, rétt eins og orð barnsins hafi snert við öllum þeim sem stóðu undir skólveggnum og biðu þess að upp stytti áður.
Skilaboð litlu stúlkunnar sem sagði orðin svo sakleysislega eru í raun sterk áminning sem á erindi til okkar allra; að við horfumst í augu við og getum yfirstigið stærri hindranir en svo á hverjum degi að nokkuð okkar ætti að leyfa smávægilegum árekstrum í gráum hversdagsleikanum að slá okkur út af laginu. Með smávægilegri lagni ættum við jafnvel að ná þeirri lagni að hafa gaman að litlu árekstrunum, ef við bara höfum húmorinn að leiðarljósi.
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.