Leiklistarskóli í Kaupmannahöfn dregur níu íslenska nemendur inn í svindl.

Í lok febrúar fengu nemendur í leiklistarskólanum Holberg í Kaupmannahöfn bréf þess efnis að búið væri að reka listrænu stjórnendur skólans, þau Lars Henning (námsstjóri) og Louise Ohlsen (skólastjóri), sem einnig voru aðalkennarar skólans.  Skyndileg uppsögn þeirra gerist á miðri vorönn, þar sem bæði fyrsta og annað árið voru í miðjum verkefnum með þessum tveimur kennurum.  Þar með var búið að setja allt skólastarfið úr skorðum.  Nemendurnir kröfðust þess að fá kennarana sína aftur, klára námsárið samkvæmt áætlun og fá þá menntun sem þau borguðu fyrir í upphafi árs, en skólagjaldið er rúm milljón (isk) á ári.  Í skólanum voru 9 íslenskir nemendur.  Einn þeirra var á þriðja ári og náði að ljúka náminu og fá leikaragráðu, einn er á öðru ári og sjö á fyrsta ári.  Stjórn skólans neitaði alfarið að ráða skólastjórana aftur vegna langvarandi ágreinings milli stjórn skólans og skólastjórnenda, sem fólst meðal annars í því að listrænu stjórnendurnir vildu að bókhald skólans yrði opnað.  Stjórn skólans rak því næst alla kennara skólans og réð nýjan skólastjóra, Stuart Lyn sem, ásamt stjórn skólans, hótaði því að ekkert yrði úr leiklistarferli nemendanna, ef þeir mættu ekki aftur í skólann.  Nemendurnir sneru ekki aftur í skólann heldur ákváðu að berjast fyrir því að fá að ljúka árinu eins og þeir hófu það.

    ,,Stjórn skólans samanstóð af þremur manneskjum: Carl van Webber (73 ára, formaður), Ole Willer (tengdasonur Carl´s) og Malene Beltoft Olsen (ritara skólans). Þegar við fórum að athuga hvernig við gætum komið þeim úr stjórninni fengum við upplýsingar um að það væri ýmislegt óhreint í bókhaldinu þeirra.  Við ákváðum að kíkja nánar á það og komumst þá að því að formaður stjórnarinnar hafði, ásamt ritaranum og einum endurskoðanda, stofnað félagasamtök (með kennitölur) þar sem hann skráði nemendur skólans sem stjórnarmeðlimi og sótti um styrki til sveitarfélagsins fyrir þessi fölsku félagasamtök.”

 Nemendurnir kærðu alla stjórnarmeðlimi sem brugðust við með því að loka skólanum og reyna að koma allri lagalegri ábyrgð yfir á nemendurna.  Kennarar skólans héldu kennslunni hins vegar áfram í öðrum húsakynnum, t.a.m. í dómkirkjunni og safnaðarheimilum og vinna nú launalaust fyrir nemendurna. Þau hafa opnað nýjan skóla, CISPA(Copenhagen International School of Performing Arts), þar sem allir nemendurnir hafa verið teknir inn.  Nemendurnir geta svo haldið náminu áfram í haust.  Þó eru líkurnar á því að íslensku nemendurnir geti haldið áfram litlar vegna reglna LÍN sem ekki telja sig geta samþykkt lánshæfi skólans.  Skólar verða að vera ECTS samþykktir eða sýna fram á að hann bjóði upp á sambærilegt nám.  Þar sem einkaskólar eiga undir högg að sækja víða á Norðurlöndunum er erfitt að nálgast þau gögn, enda vill danska menntamálaráðuneytið ekkert með einkaskóla hafa

   ,,Við höfum reynt að fá skólann samþykktan á þeim forsendum að í raun sé um sama skóla að ræða, bara með nýrri stjórn, en sá gamli varlánshæfur. Í stjórn skólans mun vera fulltrúi úr nemendafélaginu og algert gegnsæi verður með bókhald nýja skólans.  Við fáum að taka þátt í að skapa umgjörðina um námið okkar, sem er auðvitað það sem allir skólar ættu að gera.  Við vonum bara að við getum sýnt fram á að skólinn sé lánshæfur fyrir haustið, annars þurfum við að finna okkur eitthvað annað að gera. Við verðum samt bara að einbeita okkur að því að klára vorönnina, setja upp leikritið okkar og svo vonum við það besta.”

 segir Daily Snow íslenskur leiklistarnemi.

 

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here