Leitaði út fyrir gráan hversdagsleikann – Vildi hjálpa syni sínum

Linda Mjöll Kemp Magnúsdóttir er alin upp í Reykjavík og vinnur sem heilari í Ljósheimum sem eru í Borgartúni 3. Áður starfaði hún hins vegar í verslun og heildsölu og segist sjálf hafa að mestu verið í barnauppeldi og verslunarstörfum þangað til hún fór að heila. Hún.is spjallaði við þessa áhugaverðu konu nú á dögunum og við byrjuðum á því að spyrja hana um barnæskuna: „Mér leið mjög illa í grunnskóla og hef alltaf verið að leita að einhverju meira á bakvið gráan hversdagsleikann,“ segir Linda Mjöll.  „ Ég leitaði mikið andlega um tvítugt, fór mikið til miðla og þessháttar. Fann svo að það truflaði mig að vera alltaf að reyna að rýna í framtíðina, í stað þess að lifa fyrir líðandi stund.“

Um þrítugt gerði Linda sér grein fyrir því að neysla áfengis var ekki fyrir hana og fór í 12 sporasamtök, þá einstæð móðir tveggja drengja og hefur í dag verið án áfengis í níu ár. Fljótlega kynntist hún svo manninum sínum og þau eignuðust lítinn dreng og þau opnuðu búð fyrir þá sem stunda brettaíþróttir.

„Ég hef alltaf hugsað mikið og langað að hjálpa öðrum. Lengi vel setti ég þessa löngun til að gera gott undir hatt meðvirkni en svo fyrir tæpum tveimur árum ákvað ég að leyfa þessu bara að flæða, eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir til að læra eitthvað sem mér fannst ég eiga að gera en hafði engan áhuga á,“ segir Linda. Hún setti sig í samband við Guðrúnu Óladóttur Reikimeistara og tók hjá henni fyrsta og annað stig í Reiki heilun. Það var móðurástin sem keyrði hana áfram því einn drengjanna hennar flæktist í heim fíkniefna og þráði Linda meira en allt að hjálpa honum: „Ég sendi honum alltaf fjarheilun á hverju kvöldi ásamt fleirum. Síðan tók ég þriðja stigið hjá Sólbjörtu Guðmundsdóttur í Ljósheimum og byrjaði að vinna þar um áramótin.“
Margir hafa heyrt um heilun en vita ekki endilega hvað það er. Við spurðum Lindu útí hvað heilun er nákvæmlega: „Í heiluninni verð ég farvegur fyrir kærleiksorku sem þiggjandi nýtir að vild. Heilunin er mjög slakandi og gerir mjög gott. Ég mæli með því að allir prófi heilun, því takmarkanir hugans eru oft svo miklar að okkur er erfitt að trúa svona nema að reyna það sjálf. Það hefur líka orðið ástríða hjá mér að kynna fíkla í bata fyrir heilbrigðri sæluvímu, uppljómun sem hægt er að öðlast i gegnum heilun og markvissar hugleiðslur .Það er líka gott að losa um gömul sár i heilun því það þarf ekki að endurupplifa. Einnig brotna upp gömul orkuferli og orkustöðvastíflur losna. Ég hef líka lært til Einingarblessunar Oneness Deeksha sem er líka orkuflutningur og geri það með. Síðan nota ég steina og smá ilmolíur. Í heilunartimum hjá mér liggur þiggjandinn í fötum á bekk undir teppi og slakar á við róandi tónlist á meðan ég snerti létt á höfði og færi svo hendurnar á orkustöðvar eftir aðstæðum. Einnig hef ég heilað dýr og þykir það mjög gaman.“
„Eftir að ég fór að feta þessa leið hef ég fengið að upplifa sælu sem ég vissi ekki að væri til, hversu mikið er ég ekki búin að leita að utanaðkomandi fixi og svo býr þetta allt innra með okkur, ég á mér þá ósk heitasta að sem flestir muni finna ríkidæmið innra með sér og að jóga og hugleiðsla verði fastur liður í öllum skólum til að búa börnin okkar betur út  lífið og svo þau læri að leita inn á við í stað þess að leita út á við“ segir Linda að lokum. 

 

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here