Það virðist vera afar algengt vandamál hjá pörum að fara á djammið saman. Ég þekki mörg pör og á kunningja, vini og vinkonur sem hafa mörg einhverntímann átt við þetta vandamál að stríða, ekki endilega pör sem enn eru saman í dag þó. Þá er það þannig að par fer á djammið saman og alltaf virðist það enda í leiðindum, annar fer heim grátandi, stingur af eða þaðan af verra, parið hættir jafnvel saman. Ef þetta er staðan fer fólk jafnvel að kvíða fyrir helginni sem það ætlar að gera sér glaðan dag og kíkja út á lífið. Mér persónulega finnst þetta ekki heilbrigt og ég held að það séu alltaf dýpri ástæður fyrir þessum svokölluðu “djammrifrildum”.
Hverjar geta verið ástæðurnar?
Ég held að oftast sé ástæðan fyrir því að fólk fer að rífast á djamminu og oft undir áhrifum, mun dýpri heldur en bara eitthvað “fyllerísrugl”
Þegar fólk talar ekki út um málin og ræðir vandamálin, byggist upp gremja og spenna. Þegar við svo verðum kærulausari undir áhrifum áfengis getur verið að þessi gremja brjótist út með pirringi og leiðindum. Það er aldrei gott að ræða málin undir áhrifum áfengis heldur er auðvitað best að vera skýr í höfðinu þegar við erum að ræða eitthvað sem snýr að sambandinu okkar, sem okkur þykir vænt um er það ekki?
Það er líka til í dæminu að annar aðilinn í sambandinu sé sjúklega afbrýðissamur og er alltaf á tauginni um að makinn muni halda framhjá. Þá getur brotist út rifrildi ef kærastinn/kærastann talar við aðra manneskju af hinu kyninu.
Ástæðan fyrir svona afbrýðissemi getur verið gömul særindi, jafnvel að maki hafi haldið framhjá áður, eða fyrrverandi maki. Samband byggist á trausti og ef maður hefur það ekki hefur maður ekkert. Það er líklega eitthvað sem maður ætti að hugsa um í þessu samhengi, vill maður vera í sambandi þar sem maður er alltaf á tauginni eða er betra að losa sig út úr því?
Mér finnst alltaf rosalega sorglegt þegar ég sé pör fara á djammið saman.. svo daginn eftir breytist sambandsstatusinn þeirra á Facebook í “single” nokkrum dögum seinna er hann oftast aftur kominn í “engaged” eða “in a relationship” og þá veit maður að eitthvað hefur líklega komið upp á djamminu. Hver nennir þessu? hættir fólk bara saman eins og að drekka vatn?
Ég hef verið í sambandi þar sem ég var alltaf á tauginni fyrir hvert skipti sem við ætluðum út á lífið, því það virtist alltaf vera eitthvað sem reitti þáverandi kærasta til reiði, hvort sem ég sagði eitthvað “vitlaust” eða horfði í vitlausa átt. Það er auðvitað langt frá því að vera heilbrigt og þannig sambönd eru eitruð.
Í dag finnst mér æðislegt að fara út á lífið með manninum mínum og það bara gerist ekki að upp komi rifrildi á djamminu, eða það hefur í það minnsta ekki gerst hingað til. Við skemmtum okkur ótrúlega vel saman þegar við förum út og erum eins og bestu vinir, þannig á það að vera og mér finnst æðislegt að geta bara hlakkað til að fara út á lífið með manninum mínum og vinum okkar, hvort sem við erum bara 2 eða í hópi fólks. Við höfum það líka fyrir reglu að ef eitthvað kemur upp, er bara talað um málið, ekki öskrað heldur eru málin rædd og komist að niðurstöðu. Við vorum bæði í mjög slæmum samböndum áður en við kynntumst og höfum því lært af reynslunni hvað við viljum og hvað ekki. Við berum virðingu fyrir hvoru öðru og okkur þykir vænt um sambandið okkar.
Er ekki betra að eiga maka sem við getum skemmt okkur með án þess að hafa áhyggjur af því að allt fari í háaloft? ég hefði í það minnsta ekki áhuga á öðru.
Höfum gaman saman!