Þetta fattar maður stundum seint á lífsleiðinni og man það svo einstaka sinnum. Þvílík synd að vera ekki meðvitaður alla daga um þá einföldu staðreynd að lífið er núna og það er akkúrat núna sem ég vil lifa því, ekki seinna!
Hversu mörg okkar þekkja það ekki að fresta því að njóta eða gera þangað til eitthvað, börnin vera stór, á meiri pening, þegar ég verð mjó og svo framvegis…..
Fullt, fullt af heimatilbúnum hindrunum.
Því hver veit hvort það verður seinna og hvort það er heilsa seinna eða hvort ástvinir eru seinna. Það veit það engin en samt bíðum við þangað til….. Þangað til hvað?
Núið er þessi eina stund sem við eigum og það er algerlega á ábyrgð hvers og eins hvað hann eða hún gerir við núið sitt.
Ég man eftir sjálfri mér hér áður fyrr þegar ég var upptekin af því hvað gerðist í fortíðinni og /eða hvað framtíðin hefði að geyma.
Það var tímabil þar sem ég gekk á milli spákvenna og miðla til að fá svör um framtíðina, þá átti ég afar litla nútíð og gat þar af leiðandi ekki notið stundarinnar.
Með auknum þroska hefur mér tekist að lifa í núinu flesta daga. Mér finnst oft gott að hugsa um að ég sé eins og dægurflugan að ég eigi bara þennan eina dag. Því það er alls ekkert víst að ég vakni lifandi á morgun!
Gullkorn frá tengdaföður mínum heitnum á vel við þennan pistil:
Tengdapabbi minn var frábær maður og ég var svo lánsöm að hann var mikill vinur minn. Fyrir margt löngu þegar ég er frekar nýleg tengdadóttir þá segir hann við mig í spjalli setningu sem ég hef aldrei gleymt.
“Ekki geyma það að lifa og njóta á meðan þið eruð ung eins og ég og mamma gerðum. Það eru mestu mistök sem ég hef gert í lífinu. Hún var orðin heilsulaus þegar kom að því að njóta og gera allt sem okkur langaði til.”
Þessi setning er eitt af því dýrmætasta sem gamli maðurinn gaf mér, sumt er einfaldlega ekki metið til fjár!
Lífið er núna svo stöldrum við við og íhugum hvað það er sem við viljum gera, hvað við viljum vera.
Tökum svo eftir heimatilbúnu hindrununum og fjarlægjum þær og njótum lífsins til fulls.
Spáið í hvað það væri magnað ef við lifðum öll eins og dægurflugur, einn dag í senn og hefðum hugrekki til að njóta til fulls.
Hvað er það sem þig dreymir um að gera í þessu lífi? Spurning sem vert er að staldra við.
Ást og friður
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!