Blue Ivy er aðeins þriggja ára gömul og er nýbyrjuð í leikskóla – en er þegar búin að snúa öllu á hvolf. Ástæðan? Jú, einkadóttir sjálfrar Beyoncé og Jay Z mætir í fylgd þriggja fílelfdra lífvarða dag hvern – með fylgdarlið á hælunum sem fyllir tvær bifreiðar.
Foreldrar hinna barnanna eru allt annað en ánægðir með fyrirkomulagið og hafa gert alvarlegar athugasemdir við fylgdarlið Blue litlu, sem lítur án efa út eins og konungborið barn hvern einasta morgun þegar hún stígur fæti inn á fokdýran einkaleikskólann – en fæst börnin, sem eru á deild með Blue litlu, ferðast með svo miklum íburði í leikskólann.
Nafnlaus heimildarmaður sagði þannig í viðtali við In Touch Weekly fyrr í þessari viku að fyrirferðin kringum ferðalög Blue litlu til og frá leikskóla væri slík að hinir foreldrarnir ættu í megnustu erfiðleikum með að afhenda börn sín og sækja þau meðan dóttir Beyoncé væri á ferð og flugi við innganginn með fjölmennt fylgdarlið í eftirdragi.
Fólki finnst þetta orðið fáránlegt umstang, alger sirkús. Beyoncé og Jay Z eru að gera alltof mikið úr málinu. Það eru fleiri börn sem eiga fræga foreldra á leikskólanum – en þau koma í fylgd bílstjóra – ekki þriggja lífvarða!
Heimildarmaðurinn sagði þá einnig að öðrum foreldrum þætti þetta hallærislegt fyrirkomulag – sérstaklega í ljósi þess að Blue Ivy er ekki eina stjörnubarnið sem sækir leikskólann – að enginn annar setti upp slík leikrit hvern einasta dag.
Yngsti sonur Will Ferrell gengur líka í þennan leikskóla, en Will er ekkert að gera neitt veður úr hlutunum – þvert á móti kemur hann yfirleitt með drenginn sjálfur og sækir hann svo aftur steinþegjandi og hljóðalaust.
Jafnvel er þó ekki nema von að öryggisgæslan sé þetta ströng, en stúlkan er dóttir tveggja skærustu stjarna sem prýða tónlistarheiminn í dag og því varla nema von að Bey og Jay leggi allt í sölurnar til að tryggja öryggi Blue litlu sem er elt á röndum af ljósmyndurum. Þannig sleppa foreldrar hennar ekki takinu af litlu stúlkunni í fjölmenni og halda enn á Blue í stað þess að leyfa henni að ganga óáreittri á götu úti, enda getur fjölskyldan varla farið úr húsi án þess að fjöldi ljósmyndara og æstra aðdáenda elti þau á röndum.
Þannig greip amma Blue, sjálf Tina Knowles til óspilltra málana fyrir skemmstu, þegar ljósmyndari sat fyrir Blue, Tinu og Beyoncé sem skruppu út í hádegisverð saman. Tina gerði sér lítið fyrir – gekk út af veitingahúsinu og lét ljósmyndarann hafa það óþvegið.
Hvað ef þitt eigið barn ætti í hlut?
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.