Blæðingar kvenna, sem öllum heilbrigðum konum á barneignaraldri eru eðlislægar – eru með öllu bannaðar á Instagram.
Þessu komst ljóðskáldið Rupi Kaur að þegar hún deildi ljósmynd af fullklæddri konu sem lá á rúmi og sneri baki í myndavélina, en blóðblett mátti greina í buxum fyrirsætunnar og sömuleiðis í rúmfötunum. Ekki nóg með að Instagram hafi eytt út myndinni einu sinni – heldur var ljósmyndinni eytt út tvisvar – á þeim forsendum að samskiptamiðillinn gæti ekki leyft slíku að viðgangast.
Skýringin var sú að Rupi hefði brotið á reglum Instagram og að myndin félli ekki að almennum siðferðisreglum.
Siðareglur Instagram kveða skýrt á um að nekt, kynlíf og ofbeldi sé eð öllu bannað á miðlinum – en ekkert af fyrrgreindu var að sjá á ljósmynd Rupi – heldur sýndi ljósmyndin konu á mánaðarlegum blæðingum. Reyndar er því svo farið að annar notandi verður fyrst að tilkynna myndina sem ósæmilega og svo verður tæknilið Instagram að fara yfir ljósmyndina áður en henni er endalega eytt út.
Þegar ljósmyndinni var eytt út að öðru sinni endurbirti Rupi ljósmyndina á Facebook, en þar fór myndin á flug og gerði allt vitlaust. Rupi skrifaði við ljósmyndina – Takk Instagram fyrir að bregðast við á þann hátt sem ég ætlaði verki mínu að laða fram hjá áhorfendum.
Rupi heldur sjálf úti vefsíðu sem gerir út á konur í fjölbreytilegum aðstæðum – allt meðan þær eru á mánaðarlegum blæðingum – í krampaköstum, með dömubundi, að skipta um túrtappa og ataðar út í blóði. Tilgangur listakonunnar og ljóðskáldsins er sá að sýna ljósmyndirnar af konunum sem eru að upplifa náttúrulega hluti – og varpa þeim út í samfélagið til að sýna eðlileika blæðinga.
Fólki finnst í lagi að hlutgera og kyngera aðra. Fólki finnst í lagi að sýna konur undir lögaldri. Bindingar. Pyntingar. Niðurlægingu. Jafnvel misnotkun er í lagi þó slíkt valdi mörgum óþægindum. Einmitt sú tilfinning liggur að baki verkum mínum – löngunin til að valda óþægindum – valda öðrum jafn miklum óþægindum og ætti að rísa þegar við sjáum annað fólk misnotað og pyntað.
Þúsundir kvenna hafa deilt ljósmynd listakonunnar á netinu og viðbrögðin hafa verið gífurlega jákvæð. Sérstaklega hefur neikvæð athygli Instagram varpað ljósi á fáránleika málsins og svo fór að lokum að Instagram ákvað að birta myndina aftur.
Talsmaður Instagram hefur nú gefið út opinbera yfirlýsingu vegna málsins – sem vefmiðilinn Mashable birti en þar sagði:
Þegar tækniteymi Instagram fær kvartanir og ábendingar frá öðrum notendum, gerum við öðru hverju mistök. Í þessu tilfelli fjarlægðum við ljósmynd á röngum forsendum og við reyndum að leiðrétta þá villu um leið og við áttuðum okkur á því hvers kyns var. Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem tækniteymi okkar olli.
Lokaorð: Konur fara á blæðingar. Punktur.
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.