Bandaríski teiknarinn og grafíski hönnuðurinn Mica Angela Hendricks byrjaði ung að teikna og lagði teikniblokkina aldrei frá sér. Hún segir sjálf að hún hafi verið kölluð „stelpan sem teiknar“. Í dag ferðast hún um allan heim með eiginmanni sínum sem er hermaður og fjögurra ára dóttur þeirra.
Á bloggsíðu Micu má lesa um tilurð þessara skemmtilegu mynda sem eru sameiginleg listaverk hennar og dóttur hennar. Dag einn var dóttirin upptekin að lita í litabókinni sinni og Mica hélt að hún gæti nýtt tækifærið og teiknað í nýju teikniblokkina sína, fyrsta andlitsmyndin var ekki fyrr komin á blað en dóttirin var komin í fangið á henni, dásamaði teikninguna og langaði líka að teikna í blokkina. Mica reyndi að malda í móinn en dóttirin notaði tækni móðurinnar og sagði: Ef að þú vilt ekki leyfa öðrum að leika með dótið þitt, þá máttu ekki leika með það! Mica gaf eftir og fyrsta listaverkið varð að veruleika: risaeðlukona. Mica var svo hrifin af því sem dóttirin teiknaði að hún leyfði henni að teikna líkama á næstu andlitsteikningu og svo koll af kolli.
Á hverjum morgni spurði dóttir hennar áttu andlit fyrir mig? Þannig að Mica fór að teikna andlit á kvöldin sem dóttir hennar gat teiknað líkama á daginn eftir. Síðan bætti Mica við litum og skyggingum. Þessi samvinna móður og dóttur hefur skapað myndir sem að mínu mati eru einfaldlega frábærar og það væri gaman að sjá þær verða að barnabók (eins og Mica leiðir sjálf hugann að).
Blogg Micu má lesa hér.
Ragna er miðborgarbarn sem elti ástina til útgerðarparadísarinnar Grindavík. Þó að ástin hafi yfirgefið hana hefur hún enn óbilandi trú og áhuga á fólki, ástinni og lífinu og tilverunni.