Litbrigðamygla er tiltölulega algengur húðsjúkdómur af völdum gersveppsins Pityrosporum ovale. Þessi sveppur er til staðar í húðinni hjá öllu fólki og á að öllum líkindum þátt í myndun flösu og flösuexems. Þetta er oft einkennalaus sýking sem einkennist af litarbreytingum í húð bolsins þ.e. ekki á útlimum.
Hver er orsökin?
Undir ákveðnum kringumstæðum vaknar sveppurinn til lífsins og hann tekur að vaxa hömlulaust.
Ekki er vitað hvað þarf til að vekja sveppinn til lífsins en hann er algengur í hitabeltislöndum og hefur tilhneigingu til að taka sig upp þegar hlýtt er í veðri. Mikil fituframleiðsla og tíður sviti auðvelda sveppnum að komast inn í húðþekjuna. Eins er hann algengastur hjá ungu fólki
Sjá einnig: Neglur og naglaskraut – Fáðu nýjar hugmyndir
Hver eru einkennin?
Sýkingin getur verið hvar sem er á líkamanum en sést þó oftast á bolnum. Á ljósri húð sést sýkingin sem vel afmarkaðir, misstórir blettir. Þeir eru rauðleitir og jafnvel brúnir á lit og valda vægri ertingu eða flagna jafnvel aðeins á yfirborðinu. Blettirnir renna oft saman og mynda stóra flekki sem minna einna helst á landakort. Á sólbrúnni húð byrja blettirnir að flagna og þeir verða hvítir og virðast meira áberandi en áður. Flestir leita fyrst nú til læknis.
Greining og meðferð
Nokkrir aðrir húðsjúkdómar hafa svipuð einkenni en krefjast annarrar meðferðar. Þess vegna er nauðsynlegt að greiningin sé byggð á skoðun hjá lækni.
Ýmis sveppalyf í formi sápu, krema eða til inntöku (töflur) er notuð til að meðhöndla sýkinguna. Sýkingin getur tekið sig upp aftur að meðferð lokninni þar sem sveppurinn er hluti af eðlilegri flóru húðarinnar. Þá getur þurft lengri meðferð.
Heimild: Húðlæknastöðin
Höfundur greinar
- Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingurAllar færslur höfundar
Greinin birtist á Doktor.is og er birt með góðfúslegu leyfi þeirra.