Ljóðlist tengd við myndlist í Listagilinu

Í Listagilinu stendur Geimdósin – gallerí og vinnustofa í umsjón Heklu Bjartar Helgadóttur, myndlistarkonu. Upp á síðkastið hefur Hekla fengist við ljóðaskrif og náð að tengja þau myndlist með því að fá ljóð sín ungu og upprennandi listafólki og grasrótunum til að vinna út frá.

„Það er spennandi og gjöfult að sjá hvað úr verður þegar mismunandi einstaklingar taka textaverk eftir mann sjálfan og vinna það út frá eigin höfði, upplifun og stíl. Á milli mín og listamannsins fer fram samtal og samstarf, svo sýningin sem fylgir í kjölfarið auðgist sem mest í þá átt sem því er ætlað. Það sem einkennir sýningarnar er fjölbreytni og dirfska. Þær eru heiðarlegar og opinskáar og vel þess virði að veita þeim eftirtekt,“ segir Hekla. Hekla tekur nú stefnuna á útgáfu ljóðabókar.
Næsta sýning Geimdósarinnar ber heitið TÍtú TÚtí og er eftir myndlistakonuna Mekkín en hún vann með samnefnt ljóð Heklu. Mekkín gerist því „næsti geimfari Dósarinnar“, eins og Hekla orðar það. Fyrsta erindi ljóðsins hljóðar svo:

Ég fann TÍgrýsdír á TÚngötunni!
Í hversdagslegri hrúgu
úr laufblöðum og ryki
Við TÚngötuna
lá TÍgrísdýrið

Ég setti það í vasann
gekk með það heim
og fann því svo góðan stað
uppi á hillu

Það var til að muna
að tígrarnir leynast víða
jafnvel í hversdagslegum hrúgum
úr laufblöðum og ryki

„Mekkín hefur mest fengist við málverkið í list sinni og hefur töluverða reynslu af leikhúsi og leikmynda- og búninga hönnun. Árið 2006 stofnaði hún leikfélagið Silfurtunglið ásamt fleirum og hefur hannað fjölmargar leikmyndir og búninga fyrir atvinnu- og áhugamannaleikhús. Má þar nefna Hárið sem sýnt var í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri og var einnig fyrsta leiksýning Hörpunnar. Einnig á hún margar sýningar sem settar hafa verið upp hjáLeikfélagi Akureyrar. Hún hefur einnig unnið hjá ítalska leikstjóranum Firenzu Guidi í leikfélaginu ELAN og No Fit State Sircus á Ítalíu sem svokallaður „physical performer“ “, segir Hekla.

„Með þennan bakgrunn og reynslu ákvað Mekkín því að hanna smágerða leikmynd í kringum ljóðið og sviðsetja textann sem þrívíða myndasögu þar sem að hún nýtir sér Heklu sjálfa sem aðal sögupersónu eigin ljóðheima. Í raun er sjón sögu ríkari og býður Dósin alla velkomna annað kvöld á opnunina kl. 20, segir Hekla að lokum”

Heimildir: Akureyrarvikublaðið

SHARE