Nú eru allir farnir að huga að fermingunum. Margir eru eflaust með kransaköku, þessa gömlu góðu. Núna eru hinsvegar margir farnir að búa til kransaköku úr Rice Krispies og þær eru bæði fallegar og mjög bragðgóðar. Þessi er svakalega flott og er frá Gotterí og gersemar.
Ljós Rice Krispies kransakaka
- 1000 gr Bright White Candy melts
- 2 litlar dósir sýróp (Lyle’s golden syrup 2x 454gr)
- 300 gr smjör
- 540+ gr Rice Kripies
- Setjið allt nema Rice Krispies í stóran pott (ef þið eigið ekki nægilega stóran, skiptið þá uppskriftinni til helminga og útbúið í tvennu lagi) og hitið við miðlungshita. Hrærið vel í blöndunni allan tímann og hækkið örlítið hitann í lokin og leyfið að “bubbla” í nokkrar sekúndur. Slökkvið þá á hellunni og leyfið hitanum að rjúka aðeins út.
- Bætið Rice Krispies út í í nokkrum skömmtum og blandið vel. Það gæti verið að það þurfi aðeins meira af Rice Krispies en varist þó að setja of mikið.
- Leggið plast yfir kransakökuformin og byrjið á því að setja í innsta og ysta hring í öllum formunum þar sem ekki er hægt að setja í öll 3 hólfin í einu (myndu klessast saman).
- Gott er að setja þau jafnóðum í frystinn á meðan þið útbúið næsta og þannig er hægt að losa þau þegar það kemur að miðjuhringnum í hverju formi.
- Best er að vera í einnota gúmmíhönskum og nota PAM matarolíusprey á fingurna til að geta meðhöndlað volga blönduna betur. Þjappið saman og mótið með fingrunum í hvern hring.
- Mótið hringina örlítið hærri en þið ætlið að hafa þá því gott er að leggja bretti/bók á hvern hring eftir mótun á meðan það er enn í forminu til að ná sléttara yfirborði (þannig verður auðveldara að raða þeim án þess að kakan halli).
- Leggið alla hringina á bretti/flatan flöt og geymið í kæli fram að samsetningu (í plasti).
- Hægt að raða hringjunum saman allt að 2-3 dögum áður en veislan fer fram svo lengi sem léttur poki umlykur kökuna og hún er geymd í kæli (líka hægt að láta hana standa við stofuhita en hitt öruggara).
- Setjið 2-3 góðar “doppur” af Candy Melts á milli laga til að hringirnir séu betur fastir þó svo þeir límist nokkuð vel saman án þess að nokkuð súkkulaði sé notað svo ef ekki þarf að flytja kökuna er þetta óþarfi.
- Skreytið að vild með því að dýfa skrauti í súkkulaðihjúp og halda svo við kökuna þar til storknar. Einnig er hægt að stinga lifandi blómum í kökuna hér og þar.
Ég mæli með þið setjið vanillu kökukúlur með Daim í þann búning sem hentar fermingarþemanu hjá ykkur!
Í næsta mánuði kem ég sjálf til með að ferma og eðlilega erum við mæðgur búnar að liggja yfir skrauti, uppskriftum og pælingum og kem ég að sjálfsögðu til með að gefa ykkur þær hugmyndir hér strax í framhaldinu svo endilega fylgist með!
Endilega smellið like-i á Facebook síðu Gotterí og Gersema
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.