Ljótur heimur leyndarmála – Lesandi segir frá ofbeldissambandi

Jæja þá er komið að endastöðinni, þrátt fyrir margar endastöðvar síðastliðin sex ár. Þetta eru búin að vera löng og flókin sex ár, tilfinningarússibani og stórar ákvarðanir og vangaveltur um það hvort að ég sé að gera rétt, eða hvor leiðin sé rétt.

Hef ótal sinnum stoppað og andað nokkrum sinnum til þess eins að ég sé ekki að missa sjónar á bardaganum sem ég er að berjast, til að týnast ekki á leiðinni og velja svo ranga braut.

Fyrir sjö árum varð ég fyrir því áfalli að missa sjónar á mér, týndi mér í heimi þunglyndis og óvissu, óvissunni hvort ég gæti gengið út í daginn með bros á vör, hvort það sæist á mér ljóta leyndarmálið mitt sem enginn vissi um.
Ég held mér hafi ágætlega tekist að leyna því, en leyndarmál eiga þann furðulega eiginleika til að læðast upp að manni til þess eins að pota í öxlina og minna okkur á að það sé eitthvað sem við erum að leyna öðrum.

Ég, persónulega valdi ranga braut, þá braut að segja engum frá og halda þessu fyrir mig, leyfa því að krauma inn í mér og brjótast út á ljótan hátt ég bæði kom illa fram við vini og fjölskylduna mína, einmitt þau sem helst staðið við bakið á mér og stutt mig í gegnum allt sem átti eftir að koma í kjölfari.

Öll þessi sjálfsfyrirlitning, öll þessi orka sem fór í að reyna brosa í gegnum tárin og ekki takast á við það sem var raunverulega að gerast.

Fyrsta hugsun: Er þetta virkilega að koma fyrir mig, er þetta alvörunni að gerast! Eða bíddu hvað er að gerast?! Þegar ég náði loksins tak á raunveruleikanum og umhverfinu í kringum mig skellti það á mig með svo mikilli lömun að ég þóttist ekki vera vakandi, hélt ég gæti læðst í burtu, laumað mér frá á stað þar sem ég ein kemst á. En svo reyndist ekki, raunveruleikinn hélt fast um mig og lét mig alveg gera mér grein fyrir því hvað var að gerast!

Maðurinn sem mér þótti svo vænt um hélt mér fastri, haldandi það að ég væri sofandi og nýddist á mér eins og ekkert væri sjálfsagðara, ég reyndi að rúlla, velta, umla en allt kom fyrir ekki þessi maður sem dáði mig og virti, maðurinn sem sá ekki sólina fyrir mér og lét mér líða eins og mikilvægasta manneskjan á jarðkringlunni, þétti takið hélt mér fastri og hvíslaði í eyrað á mér ýmsum orðum sem ég ætla ekki að hafa eftir.
Þessum orðum, sem laumast ennþá að mér og hvísla í eyrað á mér og geta látið mér eins og lítið barn og ég brest í grát og get ekki hrist þessi hvísl frá mér. Enn þann daginn í dag á ég mjög erfitt með að vera ein, því þá er einmitt þetta tækifæri fyrir hvíslið að læðast upp að mér og setur mig á myrkan stað, á stað sem ég vil ekki vera á.
Á stað þar sem ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því að leyndarmálið mitt poti í öxlina á mér né hvíslið að hvísla í eyrað á mér.

Og til að gera málið ennþá erfiðara, þá gerðist þetta oftar en einu sinni og ég gat ekkert gert í því, gat ekki sloppið. Ég konan/stelpan sem myndi aldrei leyfa neinum að fara svona illa með mig, andlega né líkamlega, mikið getur maður verið blindur og fordómafullur.
Því þegar og ef það kemur fyrir að það er verið að níðast þannig á manni að allt lífið hverfur fyrir augum þínum og það virðist engin útgönguleið, eða manni fer að líða þannig að þó svo gegn betri vitund, hugsaði ég hvort að ég átti þetta bara hreinlega skilið.

Til að gera málin ennþá verri varð úr þessu barn en ég tók stærstu ákvörðun lífs míns með því að eiga þetta barn. Nú þegar ég lít til baka, horfandi á þungunarprófið með blendnum tilfinningum um hvað ég ætti að gera og í hálfgerðri hræðslu við manninn sem eitt sinn þótti svo vænt um mig, hugsaði um mig, að þurfa segja honum frá eru kannski mistökin sem ég gerði en ekki að þora neinu öðru og ákvörðunin var tekin þetta barn myndi koma í heiminn. Ég var með vonleysið á bakinu og myrkrið umvafið í kringum mig en ég reyndi að finna gleðina í þessum aðstæðum, þessa litlu gleði sem hvergi virtist að finna. Nú sat ég ennþá fastari með þessum manni eða þessu skrímsli sem ég var farin að sjá hann sem og engin útgönguleið.

En á meðgöngunni sá ég alltaf minna og minna af honum. Hann var, sjáðu til, of upptekinn af því að lifa lífinu og njóta þess áður en barnið kæmi í heiminn, svo birtist hann alltaf aftur einhverstaðar og einhvern tímann þegar honum hentaði, burt séð frá því hverjir mínir hentugleikar voru. Auðvitað með því að horfa til baka sé ég að hann var með algjöra stjórn á mér og nýddist á mér andlega, minnti mig reglulega hvað ég væri nú að fitna mikið og allskonar í þessa átt, en var alltaf jafn fljótur að drífa sig í burtu að njóta lífsins og var ekkert feimin við að deila því með mér hversu mikið hann væri sko að njóta lífsins.
Njóta lífsins og afbrotunum fjölgaði og atvinnuleysið elti hann.

Svo kom útgönguleiðin, leiðin úr myrkrinu og valdaníðinu og andlegu ofbeldi! Bróðir hans sagði mér frá því að hann væri alveg að halda framhjá mér og honum findist það ekki rétt gagnvart mér. Fyrir mér var þetta ekkert spurning um rétt eða rangt ég sá bara útgönguleið, leið úr myrkrinu, og endaði þetta brenglaða samband og labbaði út með tárin í augunum, ekki sorgartárum, heldur gleðitárum, frelsistárum.

Ég átti langa leið í land að verða að einhverju öðru en skugga af sjálfri mér en fyrsta skrefið var að geta brosað óþvingað, og losna við hræðsluna við hvert fótmál um að ég væri að gera eitthvað rangt. Að fara út með vinunum og skemmta mér af öllum sálarkröftum.
En til að byrja með byrjaði ég að leyfa mér að elska þetta ófædda barn sem bað aldrei um að fá að koma í heiminn og alveg pottþétt ekki undir þessum kringumstæðum.

Þar með er sagan ekki öll sögð. Það leið vika áður en hann var farinn að grenja í mér að hann vildi fá mig aftur og hann myndi breytast og vera meira til staðar. Vitandi af mömmu í næsta herbergi gaf mér þann styrk að neita honum og afþakkaði pent boð hans og bað hann um að láta mig í friði.

Eftir það heyrði ég sáralítið í honum sem hjálpaði mér að fá að blómstra og njóta þess að vera ólétt, þrátt fyrir grindagliðnun og krúttlegheit sem fylgja meðgöngu, naut ég mín, gat tekið á móti hrósum um hvað ég leit vel út, með bros á vör gat ég þakkað fyrir mig.

En hann greyið hafði alltaf eitthvað hald á mér og samþykkti ég það að hann yrði viðstaddur fæðingu barnsins, sem og hann var, eða svona hér um bil, hann svaf í stól hliðina á rúminu þennan sólarhring sem ég barðist við hríðar og þreytu, en svona á milli okkar, fékk ég mér svo á endanum mænudeyfingu sem ég var alveg viss um væri gjöf frá einhverjum heilagari en við. Hann rankaði nú við sér þegar ljósmóðirin bað mig svo um að byrja rembast og fylgdist svo með gangi mála.

Svo kom hún þessi fullkomna vera með pínu skakkt nef eftir kúr við legvegginn. Þessi litla vera sem ég hef elskað og dáð allt frá því að ég fékk hana í fangið. Á þeim tíma vissi ég að ég myndi berjast með kjafti og klóm fyrir þessa litlu saklausu veru sem engan ætlaði að skaða og kom algjörlega óumbeðin í þennan heim. Mikið elskaði ég hana, fann mig breytast úr skugga af sjálfri mér í móðir þessara fullkomnu veru.

Til að byrja með birti til fyrir framtíðina, þrátt fyrir að þessi afmynd af manni hékk yfir okkur fyrstu fimm daga verunnar, en svo lét hann sig algjörlega hverfa. Ábyggilega að njóta lífsins einhverstaðar, fyrst leyfði ég þessu að fara eitthvað í mig en til hvers, ég var laus við hann!

Það vildi bara svo til að næstu sex árin yrðu ekki þannig, alltaf þessi taugatrekt um að hann myndi ná klóm sínum í veruna mína, litlu veruna sem treysti á mig.

Nei, síðastliðin sex ár hafa verið lituð af heimsóknum til sýslumanns, þá seigi ég heimsóknUM, prufuðum líka barnavernd og munnlega samninga en allt kom fyrir ekki, hann gat ekki staðist það að lifa lífinu og sleppti algjörlega þessum pabba leik.
Oft hef ég leyft mér að hugsa um það að hann sé hreinlega að reyna stjórna mér, hræra eitthvað tilfinningalega í mér, láta mig vita að hann ræður, ég er bara eitthvað peð í hans leik.
Í leik sem hann klikkar svo að láta sjá sig í, aftur og aftur.

Á þessum sex árum hef ég þroskast og vaxið í þá manneskju sem ég er í dag, sjálfsálitið í top tíu og trúnni á sjálfa mig sleppi ég aldrei aftur. Ég er svolitið trúðurinn í hópnum en þar sem er hlátur er gleði og í gleðinni líður mér best, einnig hefur veran vaxið og þroskast í ungan hvatvísan prakkara. Lífið er fullt af möguleikum og við þurfum endilega prufa alla möguleikana á sama klukkutímanum og verunni minni dettur það í hug. Hún er æði, fullkomnun, hamingjusöm og veitir mér hamingju, ég dáist af þessari veru sem ætlar að vaxa og verða Slökkviliðs-og/eða lögregluvera.

Ég hef leyft henni að vaxa í þá átt sem hún vill, bendi henni reglulega að heimurinn er endalaus einnig möguleikarnir, og veran horfir setur upp hugsunarsvipin: og áður en ég veit af rokin í enn eitt prakkarastrikið þar sem drullupollarnir eru sem mestir.

En nú virðist vera komið að því endagöngin, enn einn samningurinn virðist ætla renna í gegn hjá sýlslumanninum, greyið maðurinn sem réttir mér tissjú og biðst afsökunar á lögunum.

Endagöngin eða allavegana enn ein endagöngin, þetta er búið að vera mikill tilfinninga rússibani umvafinn svartholum og óvissunni.
Stórar ákvarðanir og vangaveltur um það hvort að ég sé að gera rétt, eða hvor leiðin sé rétt.
Vangaveltur um það hvort ég sé að gleyma mér í minni baráttu eða hvort ég sé að vernda veruna mína.

SHARE