Þessi réttur hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan ég var barn. Ég var í heimsókn hjá foreldrum mínum um daginn þegar ég mundi allt í einu eftir þessum góða rétti sem mamma bjó oft til þegar ég var barn. Það er hugsanlega eitthvað tengt því að ég er ólétt en stundum man ég eftir einhverjum góðum rétt sem ég bara verð að fá og það strax. Mamma bauð mér í mat daginn eftir og eldaði þennan æðislega kjúklingarétt. Hér fyrir neðan er uppskriftin:
Kjúklingur með spergilkáli.
500 gr spergilkál (soðið) Sett neðst í ofnfast fat.
2 steiktir kjúklingar (eða 6 steiktar bringur) sett í bitum ofan á spergilkálið. Gott er að krydda kjúklinginn með kjúklingakryddi frá pottagöldrum þó að þú getir í rauninni notað bara það krydd sem þér finnst best.
Sósa:
1 bolli majónes
1 msk súrmjólk
1 dós Campells kjúklinga- eða sveppasúpa
1/2 tsk kjötkraftur
1 tsk karrý
1 msk sítrónusafi
Þessu er öllu hrært saman og hellt yfir kjúklinginn. Rifnum osti stráð yfir. Bakað við ca. 180 gráður í 30 mínútur. Gott er að hafa hrísgrjón og salat í meðlæti.