Ljúffengur pastaréttur með kjúklingi og sveppum – Uppskrift

Mér finnst pasta gott, mér finnst kjúklingur góður líka og ekki skemmir fyrir að hafa sveppi með í réttinum. Þessi pastaréttur er fljótlegur og góður. Ég skoða mikið af uppskriftum, bæði úr uppskriftarbókum og á veraldarvefnum og oft finn ég ansi góðar uppskriftir og prófa mig áfram með þær. Stundum breyti ég þeim aðeins og annaðhvort tek eitthvað út eða bæti öðrum hráefnum við.

Það tekur ekki nema u.þ.b. 30 mín. að setja saman þennan rétt þegar maður kaupir grillaðan kjúkling, hægt er að fá tilbúiinn kjúkling í Nóatúni, Bk kjúkling og eflaust á fleiri stöðum. Ef þú vilt ekki nota heilan kjúkling er líka allt í lagi að steikja kjúklingabringur sem þú notar í réttinn. Þessi er tilvalinn á laugardegi þar sem maður má nú leyfa sér aðeins á laugardögum!

Efni

  • 250 gr. heilhveiti pasta
  • 1/2 bolli vatn ( af vatninu sem pastað var eldað í)
  • 1/2 grillaður kjúklingur tekinn af beinunum
  • 180 gr. sveppir, sneiddir
  • 2 bollar pasta sósa
  • 2 hvítlauksrif, smátt söxuð
  • 1 tsk. balsamik edik
  • 1 tsk. ólívuolía
  • 4 lúkur af nýju káli (grænmeti)
  • 1/2 bolli mozzarella ostur (til skrauts)

Aðferð

  1. Sjóðið pastað eins og segir til um á pakkanum. Takið frá ½ bolla af suðuvatninu. Hitið ólívuolíuna á stórri pönnu, látið svo sveppina mýkjast á pönnunni í 5 mín. Bætið hvítlauknum  út í og látið þá líka krauma á pönnunni.
  2. Bætið nú pasta sósunni, vatni og ediki út í. Minnkið hitann og látið krauma þar til allt er gegnheitt. Hrærið öðru hverju í. Bætið grænmetinu út í og hrærið.
  3. Loks er kjúklingurinn settur á pönnuna og látið volgna í gegn. Blandið öllu vel saman.
  4. Setjið svolítið af mozzarella osti ofan á réttinn.

 

  • Nýtt grænmeti getur verið  hvað sem er – spínat- rukola salad – baunir ………… Notaðu hugmyndaflugið!
SHARE