Loftið sannar enn og aftur af hverju þeir ættu að ráða stílista sem dyravörð

Laugardagskvöld og rútínan er komin í gang: sturta, gallinn, greiðslan og meikupið (ef að þú ert kona): Hittingur með vinunum, skálað, matur, gleði og gaman. Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum: að finna stað að rölta á, setjast niður og halda gleðinni áfram. Oftast ganga laugardagskvöld á djamminu svona fyrir sig framan af kvöldi, nema í tilviki Guðrúnar Hreiðarsdóttur í gærkvöldi sem fékk ekki að fara með vinkonum sínum inn á Loftið (hljómar kunnuglega?). Dresskode hefur lengi viðgengist á skemmtistöðum borgarinnar og er það eðlilegt að einstaklingum með úfið hár í jogginggalla sé ekki hleypt inn þegar aðrir gestir hafa eytt drjúgum tíma í að gera sig til. En að vera pikkuð út úr vinahópi og vera sú eina sem ekki er hleypt inn er fáránlegt í meira lagi.

Hun.is heyrði í Guðrúnu og fékk að heyra hvernig þetta fór fram: Ein vinkona hennar var að útskrifast úr HR í gær þannig að vinkonuhópurinn, konur sem þekkst hafa í yfir 20 ár ákváðu að fara út og halda upp á það. Engin þeirra mikil djammari eða vön að fara út að skemmta sér allar helgar. Þær ákváðu að láta illar sögur um Loftið ekki á sig fá, ekki að hlusta á „hear say“, heldur taka staðinn út sjálfar. Það var röð og þær fegnar að vera vel klæddar, í ullarkápum, pels, vending og Guðrún í Cintamaniúlpu. Þegar kom að þeim í röðinni horfir dyravörðurinn á Guðrúnu: Fyrirgefðu það er dresskode. Guðrún: Hvernig dresscode? Svarið svona eins og vinkonur þínar! Vinkonurnar voru í opnum hælaskóm, ein í palíettubuxum, önnur í svörtum buxum, ein í svartri síðri úlpu sem huldi það sem að hún var í innanundir og svo frv. Allar vel klæddar, bæði tískulega og veðurfarslega séð.
Guðrún var í ein lita kjól frá þekktum hönnuði í 101 Reykjavík, sem kostaði meira en allt dress sumra vinkvenna hennar, svörtum flatbotna skóm sem voru keyptir dýrum dómum í vinsælli fataverslun fyrir nokkrum árum og Cintamaniúlpu utanyfir. Til að kóróna niðurlæginguna og höfnunina sem Guðrún varð fyrir stóð dyravörðurinn líka ofar í tröppunum en hún til að geta talað niður til hennar í bókstaflegri merkingu. Annan dyravörð með gestalistann það kvöldið í hönd bar að sem sagði þeim fyrri að það væri ekkert að fatnaði þeirra, „af hverju hleypirðu þeim ekki inn?“, en sá fyrri stóð fast á sínu. Vinkonurnar ákváðu því að yfirgefa svæðið og héldu yfir á Hressó þar sem að þær voru allar meira en velkomnar inn og skemmtu sér konunglega fram að lokun.

Í facebookstatus hjá einni vinkvennanna leggur hún til að Loftið ráði sér stílista til að starfa í dyrunum, falleg og dýr íslensk hönnun er allavega ekki gjaldgeng þar inni.

Sem miðborgarbarn og ötull djammari á skemmtistöðum borgarinnar til margra ára er ljóst að sumir staðir eru hreinlega of snobbaðir til þess að venjulegar, hressar konur með stíl og sjálfsvirðingu vilji fara inn á þá. Greinarhöfundur íhugaði að ná á eiganda Loftsins til að fá upplýsingar um hvernig dresscode staðarins er, þar sem að þær reglur hanga ekki uppi á skilti fyrir utan. En þar sem að hún sat heima í kósíbuxunum á sunnudagskvöldi þá ákvað hún að sleppa því enda hefði símtalinu sennilega ekki verið svarað.

 

SHARE