Lögreglan leitar vitna: Grunur á nauðgun í nótt

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar vitna í tengslum við mál sem er til rannsóknar hjá embættinu. Málsatvik eru þau að kl. 5 í morgun kom kona um tvítugt á neyðarmóttöku Landspítalans í Fossvogi, en grunur leikur á að henni hafi verið nauðgað. Fyrr um nóttina var konan á skemmtistöðunum B5 og English Pub í miðborginni, en síðan er ekki vitað um ferðir hennar fyrr en hún bankaði upp á og leitaði aðstoðar í húsi við Langholtsveg í Reykjavík.

Þaðan var konunni ekið á neyðarmóttökuna, eins og áður sagði. Talið er að konan hafi knúið dyra á nokkrum stöðum á Hólsvegi og Langholtsvegi, áður en eftir henni var tekið, en hún kom að Hólsvegi frá Hjallavegi og gekk síðan áfram Langholtsveg. Við rannsókn málsins leitar lögreglan upplýsinga um ferðir konunnar í nótt og annað sem kann að varpa ljósi á málið og biðlar því til almennings. Konan, sem er með dökkt axlarsítt hár og beinan topp, var klædd í dökkar buxur, hvítan jakka, bleik/appelsínugulan topp og var í dökkum skóm með pinnahælum. Hún var með stórt hálsmen (gylltir hlekkir). Konan er í meðallagi há.

Þeir sem geta veitt upplýsingar um málið er vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu. Upplýsingum má koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is eða í síma 444-1000.

SHARE