Louboutin: Pönkarinn sem hóf ferilinn á frönskum kabarettbar

Louboutin er franskur. Fæddur árið 1963 og hefur skissað skó frá unga aldri og svo hugfanginn varð hann af hönnun pinnahæla að hann féll á flestum skólaprófum í gagnfræðaskóla.

Svo gagntekinn var hann af hönnun, hugmyndavinnu og þróunarstarfi því sem seinna meir átti eftir að skila honum heimsfrægð. Skór Louboutin eru löngu orðnir heimsfrægir, en aðalsmerki þeirra er lakkrísrauður sólinn sem einkennir alla skóhönnun Louboutin.

 

 

Færri vita að Louboutin fór gegnum tímaskeið sem ungur maður þar sem hann tilbað pönkið. Hann hefur líka leikið í kvikmyndum á borð við The Homosexual Century, en  fyrsta launaða starf Louboutin fól í sér að vera önnum köfnum kabarettstjörnum á sjúskuðum skemmtistað í París innan handar.

 

 

Louboutin hefur dansað við hlið Jagger og var góðvinur Warhol. Þekktur í frönsku skemmtanalífi og ávallt með glasið á lofti. Merkilegt nokk, en Louboutin hefur litla akademíska þjálfun hlotið aðra en grunnmenntun í myndlist við listaskóla í París sem hann flosnaði þó fljótlega upp úr.

 

 

Sjálfur segir Louboutin að árátta hans fyrir svimandi háum hælum hafi fæðst á frönsku listasafni er hann bar afrískt skilti augum sem var ætlað að meina konum að ganga inn í byggingar, íklæddar hvössum pinnahælum – af þeirri einföldu ástæðu að pinnahælarnir gætu eyðilagt gólffjalirnar.

 

 

Minningin ein af heimsókn Louboutin á listasafnið og svo skiltið sem meinaði konum að klæðast pinnahælum, sat fast í huga unga mannsins sem seinna meir átti eftir að sigra heiminn með ögrandi glæsiskóm sem flestar konur dreymir um að eignast en fæstar hafa ráð á.

Mig greip óstjórnleg löngun til að sigrast á banninu sem ég las um forðum daga. Mig langaði að skapa eitthvað sem bryti allar reglur og sveipaði konur sjálfstrausti og innri styrk.

Og þar liggur hundurinn grafinn; kjarninn í allri hönnun Louboutin. Sem speglast svo aftur í formi, litavali og framsetningu einnar guðdómlegustu skólínu sem til er á markaðinum í dag.

Louboutin er á Instagram og það sem meira er; hann framleiðir naglalakk líka: @loutoutin

 

SHARE