Úr ömmuhorni er nýr liður hjá okkur á Hún.is.
Amma, finnst þér að gamalt fólk megi skilja?
Af hverju skyldi það ekki mega skilja eins og fólk á hvaða aldri sem er? En þessi spurning og viðhorfið að gamalt fólk sem búið er að búa saman langa ævi geti bara ekki verið að skilja er líklega býsna lífseig í samfélaginu okkar og kannski öllum samfélögum. Ég held að það hafi ekki verið rannsakað. Í Dúfnaveislunni, leikriti eftir Halldór Laxness (sem var sýnt í Iðnó 1966) eru öldruð hjón í heldur hrjálegri gamaldags, íslenskri íbúð. Maðurinn vinnur heima hjá sér við að pressa karlmannaföt, er pressari. Þessi stétt manna er alveg horfin, komnar efnalaugar í staðinn! Konan jagast í karlgreyinu allan daginn, dæmigerður tuðari. Mér varð á að hugsa þegar ég horfði á leikritið af hverju maðurinn lét þetta yfir sig ganga alla daga. Hann svaraði því svo sem sjálfur því að eftir eina hrinuna segir hann: Þú ákvaðst snemma að gefa mér líf. Og hann gerði sér þetta að góðu nennti líklega ekki að standa í breytingum því að þarna átti hann þó einhvers konar líf.
Skyldi þetta vera svona víða? Ekki veit ég það en hitt veit ég fyrir mína parta að þegar svo báglega er komið fyrir fólki að það hefur ekki ánægju lengur af samverunni og er einfaldlega ekki lengur gott við hvort annað ættu viðhorf annarra- afkomendanna eða vina ekki að ráða hvort haldið er áfram eða sambandinu slitið.
Við vorum einhverntíma, kær vinkona mín og ég að ræða saman yfir kaffibolla um ýmsar breytingar sem við vorum farnar að finna á líkama okkar. Okkur kom saman um að þetta væri því snúnara að áhuginn á lífinu og málefnum dagsins hefðu í engu dvínað en orkan til allrar þátttöku væri að sönnu ekki jafnmikil og áður. „Við erum nefnilega svo ungar að innan“ sagði þessa góða vinkona mín.
Af gefnu tilefni velti ég því stundum fyrir mér hvenær í samskiptaferlinu það gerist að þeim sem standa nálægt gömlu fólki finnst að kominn sé tími til að það sé ekki að taka einhverjar ákvarðanair sjálft- sem sagt hvenær skuli taka af því ráðin. Það hljómar ekki jafn ábúðarmikið eins og aðgerðin að svipta fólk sjálfræði. Gerist það þegar andlitið er orðið illa hrukkótt? Eða þegar lítið er orðið eftir af heyrninni? Eða þegar liðir eru orðnir svo slitnir- af margra ára notkun- að maður finnur til í hverju spori og göngulagið er því höktandi og brogað? En ég lofa þér því að manneskjan sem svona er komið fyrir getur enn verið þó nokkuð „ung að innan“ – hugur og hjarta getur enn verið vel vakandi og látið sig dreyma.
Ég var einu sinni á ferð með hópi aldraðs fólks. Í hópnum var níræð kona sem alla tíð hafði unnið erfiðisvinnu. Dóttir hennar hafði komið með til að vera móður sinni til halds og trausts. Einn daginn hvarf gamla konan. Eftir þó nokkuð fjaðrafok fréttist í móttöku hótelsins að hún hefði farið eitthvað í leigubíl. Var hægt að rekja að hún hafði beðið bílstjórann að aka sér til nálægs bæjar að stórverslun einni sem þar var. Hún var með auglýsingabækling sem hún sýndi bílstjóranum því að hún talaði ekki mál landsins. Dóttirin var afar óróleg yfir þessu óráði og rugli móðurinnar og vildi helst fá lögregluna í lið með sér að finna gömlu konuna. Þegar nú var verið að þinga um málið kom leigubíll akandi að hótelinu og út sté gamla konan með stóra pinkla og harla glöð. Hún var búin að kaupa sér þrjár dragtir- „mig hefur alla tíð langað til að eiga dragt“ sagði hún og á morgun ætla ég aftur inn í bæ og kaupa mér hatta og veski við þær!
Ekki mæli ég með vinslitum. Það að leysa upp hjónaband hvort sem er af fljótræði eða óásættanlegum aðstæðum sem ekki verður breytt hlýtur að vera sársaukafull aðgerð óháð aldri þeirra sem eru að slíta samvistir. Þeir sem utan við standa ættu að fara varlega í að reyna að ráðskast með tilfinningar og ákvaranir annarra, á hvaða aldri sem þeir eru.
Ég mæli hins vegar sterklega með að fólk – á öllum aldri- vandi sig alla daga, hverja stund dagsins í samskiptum sínum við makann- frá unga aldri allt til enda. Þar duga engin hliðarspor eða undantekningar svo að vel fari.