Mæðrastyrksnefnd Kópavogs fékk nýverið veglegan styrk sem gerir nefndinni kleift að aðstoða fleiri skjólstæðinga en áður. Aðdragandi þessa máls er að fyrir síðustu jól komu forsvarsmenn fyrirtækisins Netgíró að máli við nefndarmenn og vörpuðu fram þeirri hugmynd að leggja Mæðrastyrksnefnd Kópavogs lið með aðstoð viðskiptavina þeirra. Mæðrastyrksnefnd tók þeim fagnandi, enda er það auðvitað gleðiefni þegar fyrirtæki vilja láta gott af sér leiða.
Þeir sem versluðu með Jólareikning Netgíró styrktu um leið gott málefni, en helmingur lántökugjaldsins rann beint í góðgerðasjóð. Nú hefur Netgíró safnað saman 1.047.528 kr. sem munu án efa koma Mæðrastyrksnefnd Kópavogs að góðum notum. Enda hefur nefndin um árabil rétt út hjálparhönd og styrkt þá sem hafa leitað eftir aðstoð.
Það er ljóst að með stuðningi Netgíró getur Mæðrastyrksnefnd Kópavogs aðstoðað fleiri fjölskyldur og einstaklinga sem eiga erfitt með að ná endum ná saman og það er mikið gleðiefni.
Mæðrastyrksnefnd Kópavogs sendir Netgíró og viðskiptavinum þeirra sínar bestu þakkir.