Mamma er best.

Mæðradagurinn var í gær, en fyrir mér er mæðradagurinn alla daga. Af hverju? vegna þess að mæður eru alltaf mæður og þær hætta aldrei í sinni fullu vinnu sem er að vera mamma, allan sólarhringinn. Þegar við erum börn kunnum við ekki alltaf að meta hlutina sem mamma gerir fyrir okkur en eftir að við verðum fullorðnar manneskjur förum við oft að sjá hlutina betur.

Mamma mín er ein duglegasta kona sem ég þekki. Hún var í Háskólanámi þar til ég var líklega um 9 ára gömul. Hún var ekki svona lengi í námi vegna þess að hún kláraði ekki námið á tilsettum tíma, nei það gerði hún alltaf, heldur var hún alltaf að bæta við sig gráðum. Hún var alltaf í fullri vinnu með náminu en hafði samt alltaf tíma til að hugsa um okkur og gera allskonar hluti fyrir og með okkur. Ég held að hún hljóti að vera ofurkona, eins og svo margar konur sem ég þekki.

Mamma vaknaði með okkur og kom okkur af stað í skólann. Mamma gaf mér og öllum þeim vinum sem ég tók með heim úr skólanum alltaf gott kaffi seinnipartinn. Mamma las alltaf fyrir okkur á kvöldin. Mamma hafði alltaf heitan mat á borðum fyrir okkur á kvöldin. Mamma fór með okkur í allskyns ferðir, við fórum oft að skoða eyðibýli, hún tók mig og vini mína í ferðir á jeppanum sem við áttum og við kölluðum það torfæruferðir. Mamma huggaði okkur þegar þess þurfti og stóð með okkur, alltaf. Við fórum í lautarferðir, fjallgöngur, göngutúra, á leikvelli, í bíó, á leikrit og svo mætti lengi telja. Mamma tók alltaf öll föstudagskvöld frá og þá voru alltaf bíómyndakvöld og pizzukvöld. Við fengum að baka pizzu sjálfar með tilheyrandi subbi og skemmtilegheitum, það var gaman. Ég man ekki eftir því að mamma hafi gert mikið fyrir sjálfa sig.

Mömmur okkar gengu með okkur í 9 mánuði, þær fæddu okkur, þær vöknuðu með okkur allar þær svefnlausu nætur sem við grétum og vildum mömmu, þær gáfu okkur brjóst eða pela, þær fórnuðu ýmsu fyrir okkur, þær eru mikilvægur partur af lífi okkar.

Mig langaði að skrifa þennan pistil til að minna allar mæður á að börnin ykkar muna eftir öllum hlutunum sem þið gerðuð fyrir þau. Þau kannski segja það ekkert oft en þau muna samt. Mér finnst til dæmis aðdáunarvert að mamma hafi ávallt nennt, eftir langan vinnudag að elda góðan heimagerðan mat, þrátt fyrir að fá oft á tíðum ekkert nema OJ í staðinn. Þó ég hafi ekki kunnað að meta það þá kann ég að meta það núna, ég hefði líklega verið sátt við pizzu og hamborgara í öll mál en þá hefði líkamanum mínum ekki liðið vel og það veit ég vel í dag.

Það er ekkert foreldri fullkomið en þegar upp er staðið munum við eftir og kunnum að meta góðu hlutina sem þið gerðuð fyrir okkur, bæði mamma og pabbi en þessi pistill er skrifaður í tilefni mæðradagsins sem var í gær.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here