Fallegt hjartalag, umhyggja og góðvild einkenna landsbyggðarfólk ef marka má dásamlega frétt af hreppsvef Búðardals – budardalur.is – sem birtist á sjálfan þjóðhátíðardag Íslendinga, í gær.
Þá frétt skrifar fréttaritarinn Sigurður Sigurbjörnsson, sem segir að hjónin Brynjólfur Gunnarsson, starfsmaður KM-Þjónstunnar í Búðardal og Fanney Kristjánsdóttir, tækniteiknari hafi brugðist við með snarræði og ótvíræðum mannkærleika þegar bílaleigubíll erlendra hjóna á ferð um landið, hafi oltið á Ódrjúgshálsi við Djúpafjörð sl. föstudagskvöld en á vefnum segir einnig að aðkoman hafi verið einkar ljót, þar sem bifreiðin hafnaði á hvolfi ofan í á en parið skrapp hins vegar með skrámur.
Ekki vildi betur til en svo að farangur ferðalanga kastaðist út úr bifreðinni og hafnaði á víð og dreif ofan í ánni, en Brynjólfur var kallaður út til björgunarstarfa ásamt konu sinni, Fanneyju og unnu þau sleitulaust undir morgun við að bjarga fólkinu og farangri þeirra.
Á vef Búðardals segir af hetjudáð þeirra hjóna, sem létu ekki sitt eftir liggja en þegar fólkinu hafði verið komið í öruggt skjól hófust þau handa við það hættulega verk að veiða hverja flík fyrir sig upp úr vatni og aur – en orðrétt segir í frétt:
“Uppá sitt einsdæmi ákváðu Brynjólfur og Fanney að taka saman allan fatnað og allt dót ferðamannanna og bjarga því frá skemmdum og koma því í samt lag aftur.”
Þau tóku því öll föt ferðafólksins heim til sín og settu það allt í þvottavél og síðan þurrkara og gengu frá í ferðatöskuna. Annar farangur og búnaður var flokkaður þvegin og þurrkaður.”
Segir ennfremur að lemstraðir ferðalangarnir, sem tóku aðra bifreið á leigu að loknum björgunaraðgerðum hafi rekið upp stór augu þegar sunnudagur rann upp og sækja átti það sem kastast hafði út úr bílnum:
Þegar ferðafólkið kom síðan í Búðardal á sunnudag á öðrum bílaleigubíl til þess að sækja farangur sinn urðu þau heldur betur hissa. Allur fatnaður nýþveginn og saman brotin og annar farangur útlítandi eins og ekkert hefði komið uppá.
Ferðalangarnir urðu heldur betur hissa þegar þau sáu farangur sinn og þegar þau voru spurð hvort þau ætluðu að halda ferðalagi sínu áfram um Ísland var svarið…
“Já, við ætlum að gera það og það er ykkur að þakka”.
Enginn vafi leikur á því að landsbyggðarmenn geta verið höfðingjar heim að sækja, að mannkærleikurinn er enn við lýði meðal íslensku þjóðarinnar og að sé einhver í efa, er langbest að koma heim í Búðardal.
Heimild: budardalur.is
[youtube width=”600″ height=”320″ video_id=”vNdXZVZoPjE”]
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.