Marengsterta sælkerans

Þessi marengsterta inniheldur Rommý. Ef það er ekki nóg til þess að þú rífir fram svuntuna þá veit ég ekki hvað. Rommý er svo gott. Best eiginlega. Tala nú ekki um þegar búið er að troða því í eitt stykki tertu. Almáttugur minn.  Uppskriftin er fengin af blogginu hennar Tinnu Bjargar sem ég mæli eindregið með að þú kynnir þér betur.

Sjá einnig: Snickers-marengsterta með ástaraldin

IMG_8119

Marengsterta sælkerans

Marengsbotnar

4 eggjahvítur

150 gr púðursykur

150 gr sykur

5 dl Rice Krispies

  • Stífþeytið eggjahvítur, bætið sykri og púðursykri saman við og þeytið þar til blandan verður alveg stíf .
  • Blandið Rice Krispies varlega saman við marengsinn með sleikju.
  • Leggið hringlaga kökuform eða matardisk ofan á tvær bökunarpappírsarkir og teiknið hring eftir forminu/disknum. Skiptið marengsblöndunni á milli arkanna og smyrjið út jafna botna með sleikju eftir teiknuðu hringjunum.
  • Bakið marengsbotnana við 120° í 60 mínútur.

Rjómafylling

500 ml þeyttur rjómi

3/4 mangó

1 askja jarðarber

1 askja bláber

5 stykki Rommý

4 kókosbollur

  • Skerið mangó, helming jarðarberjanna, Rommý og kókosbollur í litla bita og blandið saman við þeyttan rjóma ásamt helmingi bláberjanna.
  • Hvolfið öðrum marengsbotninum ofan á kökudisk og smyrjið helmingi rjómans yfir.
  • Leggið hinn marengsbotninn ofan á og smyrjið afganginum af rjómablöndunni yfir.
  • Skreytið tertuna með afganginum af jarðarberjum og bláberjum.

Sjá einnig: Kornflex marengsterta með karamellukurli – Uppskrift

SHARE