Margra laga súkkulaði- og jarðaberjaterta

Þessi fallega kaka er frá Gotterí og mun slá í gegn í hvaða veislu sem er.

 

Brownie botn

  • 450 gr smjör
  • 285 gr sykur
  • 210 gr púðursykur
  • 6 egg
  • 600 gr suðusúkkulaði
  • 1 tsk salt
  • 5 msk bökunarkakó
  • 225 gr hveiti
  • 7 msk volgt vatn
  • 4 tsk vanilludropar

  1. Þeytið saman sykur (báðar tegundir) og smjör þar til létt og ljóst.
  2. Bætið eggjunum saman við einu í einu og skafið á milli.
  3. Bræðið súkkulaðið og hrærið í blönduna.
  4. Setjið þurrefnin út í og loks vatnið og vanilludropana.
  5. Klæðið smelluform með bökunarpappír í botninn og spreyið PAM á hliðarnar.
  6. Skiptið deiginu á milli formanna svo allir botnarnir verði svipaðir á þykkt.
  7. Bakið í 175° heitum ofni í um 30-35 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu á endanum (ekki blautu deigi).
  8. Kælið og geymið þar til allt annað er tilbúið.

Svampbotnar

  • 4 egg
  • 380 gr sykur
  • 250 gr hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 200 ml vatn
  • 100 gr smjörlíki

  1. Þeytið saman sykur og egg þar til létt og ljóst.
  2. Hitið saman vatn og smjörlíki og leggið til hliðar.
  3. Blandið hveiti og lyftidufti saman við eggjablönduna og loks vatni og smjöri þegar bráðið.
  4. Skiptið niður í formin 3.
  5. Bakið við 200°C í um 15 mínútur eða þar til botnarnir verða gullinbrúnir.
  6. Kælið og skiptið síðan hverjum botni í tvennt með kökuskera, geymið þar til síðar.

Jarðaberjamús

  • 15 gelatín blöð
  • 230 gr sykur
  • 1 kg jarðaber (maukuð í blandara)
  • 5 msk sítrónusafi
  • 900 ml rjómi (þeyttur)

  1. Leggið gelatínblöðin í bleyti í um 1 líter af köldu vatni.
  2. Hitið saman maukuð berin, sítrónusafann og sykurinn þar til heitt (alls ekki sjóða).
  3. Bætið gelatíni saman við berjablönduna, hafið hana á vægum hita og hrærið vel á milli hvers blaðs.
  4. Hitið þar til vel blandað (um 5 mín) og færið þá yfir í skál og leyfið að ná stofuhita. Því næst má kæla blönduna í um 2 klst.
  5. Blandið að lokum þeytta rjómanum saman við berjablönduna með sleif og smyrjið ofan á brownie botnana (munið að vera búin að setja kökuplastið inn á smelluformin. Kælið og leyfið músinni að taka sig áður en haldið er áfram (amk 1 klst).

Jarðaberjarjómi

  • 800 ml þeyttur rjómi
  • 500 gr fersk jarðaber, skorin í litla bita

  1. Hrærið rjóma og jarðaberjum saman og haldið síðan áfram með samsetninguna.
  2. Fyrri svampbotinn settur ofan á jarðaberjamúsina, því næst jarðaberjarjóminn og loks seinni svampbotninn.
  3. Nú þarf að plasta kökurnar og kæla í að minnsta kosti 4 klukkustundir eða yfir nótt.
  4. Smelluforminnu er þá smeygt af og plastið fjarlægt. Kakan ætti að vera stíf og fín og hér þarf síðan að hjúpa hverja köku með þunnu lagi af hvítu smjörkremi, stafla henni með stoðum og skreyta að vild.
  5. Ég keypti blómin í Hlín blómahúsi í Mosfellsbæ, þar fékk ég einnig birkigreinar og síðan tíndi ég hvítu litlu blómin af reynitrjánum úti í garði.

Botnana er hægt að baka með fyrirvara og frysta til að spara tíma. Einnig er hægt að setja jarðaberjamúsina og rjómann á deginum áður og svo bara stafla kökunni saman og skreyta samdægurs.

Ég fermi í næsta mánuði og þá verður gerð önnur tilraun við „Naked Cake“ og vonandi á hún eftir að koma jafnvel út.

 

Í veislunni var sjávarréttarsúpa og brauð fyrir alla og svo kökuhlaðborð í eftirrétt.

Ásamt útskriftartertunni voru kökupinnar, makkarónur og salthnetur og rúsínur í skálum.

Kökupinnar

Kökupinnarnir voru bæði súkkulaði og vanillu, þeir brúnu og bleiku voru með súkkulaðibragði og þeir hvítu með vanillubragði. Ég notaði Betty Crocker Devils kökumix fyrir báðar uppskriftir eins og svo oft áður og Vanillu frosting til að blanda við kökuna. Dýfði þeim síðan í brúnt, bleikt og  hvítt Candy Melts og skreytti með sykurmassablómum og kökuskrauti.

Það skiptir í raun engu hvernig kökukúlurnar eru að innan, hægt að velja það sem hugurinn girnist og síðan skreyta í stíl við veisluþemað!

Getið fundið hugmyndir af kökupinnauppskriftum hér á síðunni.

Makkarónur

Makkarónurnar keyptum við tilbúnar frosnar að þessu sinni. Þær voru dásamlega góðar og í stíl við veisluborðið.

SHARE