Maríanna: Litli bróðir hennar var myrtur daginn fyrir fermingardaginn hennar

Maríanna Sigtryggsdóttir kom í viðtal hjá Tinnu í Sterk Saman og má segja að viðtalið hafi verið sláandi. Hún fæddist árið 1976 og segir frá æskunni sinni en hún segist hafa átt tiltölulega góða æsku svona framan af. Hún flutti svo til Ameríku með mömmu sinni en á fáar minningar frá þeirri dvöl. Hún hafi svo komist að því seinna meir að hún hafi verið misnotuð og þess vegna búin að blokka tímabilið þar.

Maríanna flutti svo heim til Íslands á undan mömmu sinni og bjó tímabundið hjá ömmu sinni og afa. Mamma hennar flutti heim skömmu síðar og þá flutti Maríanna til mömmu sinnar sem fór að eiga í sambandi við ofbeldismann. Hún hafði hent manninum út en hann var með lykla að íbúðinni þeirra og nóttina fyrir fermingu Maríönnu kom hann inn á íbúðina tók litla bróður hennar, sem þá var um 1 og hálfs árs, með sér inn á baðherbergi og myrti hann.

„Hann kom inn í íbúðina, tók litla bróður minn úr rúminu sínu, læsti sig með hann inni á baði og drap hann. Hann sagðist hafa misst hann en það var ekkert heilt í höfuðkúpunni á honum eftir þetta,“ segir Maríanna í viðtalinu. Móðir hennar kom með barnið út um morguninn og öskraði bara að drengurinn, sem hét Ægir, væri látinn. Sjúkraflutningamenn komu og úrskurðuðu drenginn látinn.

Maríanna segir að þarna hafi hennar flótti hafist og hún byrjaði að stelast í lyf móður sinnar, en móðir hennar átti skiljanlega mjög erfitt eftir morðið á drengnum sínum og verið inn og út af geðdeildum.

Þetta er bara fyrri hluti viðtalsins og við hvetjum ykkur eindregið til að hlusta á viðtalið í heild.

SHARE