Úrval af tómatvörum úr íslenskum tómötum eru nú komnar á markað og hafa viðtökur verið mjög góðar skv. Kristínu Lindu, markaðsstjóra Sölufélags garðyrkjumann, en vörurnar eru nú fáanlegar í öllum helstu matvöruverslunum landsins.
Í fyrsta sinn á Íslandi
“Þetta er í fyrsta sinn sem framleiddar eru tómatvörur úr íslenskum tómötum. Þetta var mjög ánægjulegt og vandasamt” segir Helga Mogenssen í viðtali í Vorblaði Sölufélags garðyrkjumanna. En Helga, sem er brautryðjandi þegar kemur að hollu matarræði, leiddi framleiðslu Sölufélags garðyrkjumanna á þessum nýju vörum; Tómatsósu, tómatgrunni og pastasósu. Á sama tíma komu íslenskar sýrðar gúrkur á markaðinn, en Helga hafði líka yfirumsjón með framleiðsluferlinu á þeim.
Tómatvörurnar eru eru framleiddar skv. ströngustu gæðakröfum og innihalds- og næringargildi samkvæmt nýjustu reglugerðum Matvælastofnunar. Hráefnið sem notað er í framleiðsluna eru tómatar sem annaðhvort eru of litlir eða of stórir og komast því ekki í upprunamerktar neytendaumbúðir. Með þessu ná því garðyrkjubændur að fullnýta uppskeru sína sem hlýtur að teljast til framdráttar.
Bragðið er undir ítölskum áhrifum
Tómatar eru eitt mikilvægasta hráefni í matargerð Miðjarðarhafsins og því hefur ekki verið úr vegi fyrir Helgu og félaga hjá Sölufélaginu að styðjast við ítalskar hefðir þegar kom að því að þróa bragðið, þau fengu líka úrvala lið matgæðinga í lið með sér. Að sögn Helgu eru engin rotvarnarefni né þykkingar- eða bindiefni í vörunum.
Tómatsósan
Hún er eingöngu úr íslenskum tómötum og engu öðru bætt í hana nema auðvitað kryddum. Tóamatarnir eru soðnir niður þangað til sósan nær réttri þykkt en við suðuna gufar hluti af vatninu upp þannig að í 100 g af tómatsósu eru 160 g tómatar. Því næst er sósan sigtuð til að skilja frá bæði hýði og fræ. Hún hefur eilítið grófari áferð en aðrar tómatsósur en góð er hún enda var yngsta kynslóðin höfð í huga við gerð hennar.
Tómat pastasósan
Henni er ætlað að notast með í pastarétti en líka er hægt að nota hana ofan á pizzu, lasanja eða aðra rétti þar sem tómatar eru notaðir. Í sósuna er bætt basiliku og hvítlauk sem eru uppistöðukrydd þegar kemur að pastasósum.
Tómatgrunnurinn
Hann er lagaður úr 100% hreinum tómötum og engu öðru því tilvalinn grunnur í eigin uppskrift þar sem hægt er að velja kryddin út í hann sjálfur.
Sýrðu gúrkurnar
Þessi dýrindis afurð er unnin úr íslenskum gúrkum og henta þær vel með svo til öllum mat. Þær eru kryddaðar m.a. með sinnepsfræum, kóríander, dilli og pipar sem gerir þær einstaklega bragðgóðar.
Gúrku relish
Það er unnið úr íslenskum gúrkum og papriku ásamt kryddum. Relish var fundið upp sem geymsluaðferð á grænmeti og kemur upprunalega frá Indlandi.
Þetta er sannkölluð gleðifrétt fyrir neytendur að eiga nú völ á vandaðri íslenskri tómatvöru af ýmsum toga og ávinningur fyrir íslenska grænmetisbændur.
Heimild:
Vorblað Sölufélags garðyrkjumanna, hægt að nálgast HÉR
Þóra er keramikhönnuður og starfar sem slíkur á vinnustofu sinni í Hafnarfirði ásamt pistlaskrifum og kennslu. Þóra reynir að tileinka sér umhverfisvæna mannasiði á sem flestum sviðum og notar t.d. sem náttúrulegust hráefni í hönnun sína. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og ytra ásamt því að hafa komið að rekstri tengdum heilsu og hönnun.