„Með kærleikann að vopni eru manni allir vegir færir“

Gyða Þórdís Þórarinsdóttir sem er almennt kölluð Gyða Dís er jógakennari, Thai yoga Bodywork nuddari og áhugamanneskja um allt sem við kemur heilsu og breyttum lífsstíl. Hún segir, í spjalli við Hún.is að starfið hennar sé áhugamál hennar númer 1, 2 og 3.

„Ég er búin að stunda jóga í meira eða minna í 10 ár.  Árið 2012 útskrifaðist ég sem jógakennari frá Jóga- og blómadropaskóla Kristbjargar og það er besta og stærsta gjöf sem ég hef gefið sjálfri mér,“ segir Gyða en hún hefur alla tíð verið íþróttamanneskja og var lengi vel í langhlaupi. „Það fór að halla undan fæti hjá mér þegar ég varð fyrir meiðslum í hnjám og þá fór ég hægt og rólega að snúa mér að jóga.“

 

Fór úr langhlaupi
í jóga

 

Gyða segist hafa heillast algjörlega af jóga og hún hafi fengið allt sem hún þurfti í jóganu, bæði líkamlega og andlega: „Flestir í kringum mig tóku eftir breytingu á mér og það virðist hafa smitast út frá sér á jákvæðan hátt.  Ég er enn að læra og verð alla ævi að því ef þannig má að orði komast. Eins og stendur er ég í framhaldsnámi, 580 tíma jógakennaranámi hjá Kristbjörgu og Swami Sri Ashutosh Muni. Ég hef mjög mikinn áhuga á öllu sem viðkemur heilsu og heilsusamlegu líferni og lífsstíl.“

Í nútímaþjóðfélagi er mikill hraði og áreiti og þá getur verið mjög gott að læra að núlstilla þig eða kjarna þig. Gyða segir að jóga sé fyrir alla og allir geti lagt stund á jóga, hvort sem það eru börn, unglingar, fullorðnir, veikir og heilbrigðir.  „Jóga er eining eða “union” sem samþættir huga, líkama og sál.  Í Jóga getur þú öðlast hugarró, lært að temja hugan og beisla.  Hugurinn er eitt öflugasta starfstækið okkar og við eigum að reyna nýta það okkur á jákvæðan hátt.  Með öndunaræfingum og hugleiðslu, kyrja eða “japa” fara með möntrur þá getur þú platað hugann. Hætta láta hugann segja okkur fyrir verkum og hvernig við erum og hvað við eigum að gera og hvernig við bregðumst við þessu áreitinu eða hinu.  Ef þú nærð að beisla hugann þá ertu blessuð eða blessaður,“ segir Gyða. Þessi flotta kona segir að þú finnir ekki bara fyrir mun á þér andlega, heldur líka líkamlega. Þú fáir fallegan og mjúkan líkama. Liðleikin vex og þú styrkir allt stoðkerfi þitt og innkirtlakerfið. „Þegar gerðar eru öndunaræfingar eins og er svo algengt í jóga, þá færir þú súrefni út í ystu kima lungnasvæðis. Með því afeitrar þú líkamann og hjálpar  nýrunum og nýrnahettunum að vinna betur sitt verk.“

Þú beislar
hugann í jóga

 

Orðið Jóga er upprunið úr sanskrítorðinu Yuj sem merkir eining eða samruni. Jóga þýðir þannig samruni einingar við heildina eða einstaklingsins við hið æðra. Jóga er aldagamalt æfingakerfi sem eru upprunnið í Indlandi til forna og er ætlað til að þjálfa og sameina líkama og huga. Hægt er að finna um 3000 ára gamlar heimildir um jógaiðkun og sumir segja að það megi finna enn eldri heimildir. Margir hindúar nota jóga og hugleiðslu í leit sinni að frelsuninni. Jóga er oft samsett úr mjög flóknum líkamlegum og andlegum æfingum sem hjálpa iðkendum að ná valdi yfir líkama sínum og sál og krefst því oft mikils sjálfsaga og einbeitingar. Jóga æfingar eru í formi mismunandi líkamlegra stellinga sem kallast jógastöður eða asanas og hafa hver sinn tilgang.

Hefðbundið jóga er stundum kallað Raja jóga eða hið konunglega jóga og það er það sem Gyða kennir meðal annars:  „Jóga leiðir heim í hjarta okkar.  Jóga er svo miklu meira en að gera jógastöður og sveigja líkamann í flottar jógastellingar. Öndunaræfingar, hugleiðsla og slökun spila stóran þátt í því að gefa okkur tækifæri til að stíga út úr huganum og hverfa aðeins inn á við í hjarta okkar og takast á við það sem einstaklingurinn þarf dagsdaglega í lífi sínu.“

 

Jóga er miklu meira
en bara teygjur

 

Indverjinn Patanjali bjó til kerfi á 2.öld eftir Krist sem flestar tegundir jóga byggja á í dag. Í dag er þetta útbreidd heilsurækt fyrir sívaxandi fjölda manna.  Þetta kerfi kallast “the eight limps” eða átta lima kerfið sem ennþá, meira eða minna leiti stuðst við í dag:

 

Yama –   Sjálfsskoðun og aðhald; það sem forðast skal að gera

Niyama – Innri agi; það sem leitat skal við að gera

Asana –   Líkamsstöður til að viðhalda góðri líkamlegri heilsu

Pranayama – Öndunaræfingar til að stjórna lífskraftinum / prana

Pratyahara – Samstilling skynfæra og huga

Dharana – Einbeiting allrar vitundar í einn punkt

Dhyana –  Hugleiðsla

Samadhi – Djúp innri vakning

 

Vaknar alltaf fyrir
klukkan 6 á morgnana

 

Gyða segist stunda jóga daglega en misjafnt hverskonar jóga hún gerir frá degi til dags. „Ég leitast við að finna miðjuna, tengjast mínum æðri mætti og finna mig í sætinu eina í öndunaræfingum / Pranayama og hugleiðslu.  Ég geri mismunandi jógastöður / asanas, það fer allt eftir því hvernig dagurinn er skipulagður.  Ef ég er til að mynda að kenna marga tíma og nudda þá fer ég í endurhlöðunar jógastöður sem eru í raun mjög rólegar stöður og endurnærandi fyrir komandi dag,“ segir Gyða en hún vaknar fyrir klukkan 6 á morgnana alla daga. „Það er minn tími og langsamlega best að ástunda og gera jóga á fastandi maga.  Ég hef einnig mjög gaman að krefjandi jógastöðum og geri þær bæði í minni ástundun og býð uppá þær í jógatímum.  Nú nýverið kláraði ég handstöðuáskorun sem tók 365 daga og vakti gríðarlega athygli og margir sem hófu sína leið í sinni áskorun hvort sem var handstaða eða eitthvað annað.  Það er gott og kærleiksríkt að geta gefið af sér og fundið að maður hreyfir við fólki.  Ég gef mér 1-2 tíma í ástundun á morgnana en seinnipartinn eða á kvöldin þá er það styttri tími.“

A75A4072-765x415

 

Nú er að fara af stað nýtt námskeið Hreyfingu heilsulind, sem heitir Jóga og hugleiðsla. „Það er dásamlegt að vera í Hreyfingu og finna hvað jóga vakningin er gríðarleg og vil ég endilega færa jógaandann inní þá fallegu heislulind og tel það eiga vel saman.  Allar upplýsingar um námskeiðið er hægt að finna á síðu Hreyfingar .

Gyða segir jóga hafa hjálpað henni í gegnum allskyns hindranir og til að horfast í augu við það sem hún óttaðist hvað mest í lífinu. „Það sem skiptir raunverulega máli er það að vera sáttur við sjálfan sig og finna hver maður er í raun og veru og standa með sjálfum sér.  Heiðarleiki gagnvart sjálfum sér og láta ekki annarra manna ójafnvægi trufla þig.  Með kærleikann að vopni eru manni allir vegir færir,“ segir Gyða Dís að lokum. 

mynd í lótus á brú

 

 

SHARE