Meðgangan mín

Þegar kona verður ófrísk í fyrsta sinn er allt svo nýtt og þú ert að upplifa svo mikið í fyrsta sinn á ævinni. Það er engin leið að gera sér grein fyrir því hvernig meðganga er áður en þú prófar að ganga í gegnum hana sjálf. Engin ein meðganga er eins og konur sem eiga nokkrar meðgöngur að baki segja mér að engin ein meðganga sé sambærileg annarri. Mín meðganga hefur verið erfið. Ég var meira og minna veik fyrstu 20 vikurnar, sem betur fer gat ég unnið mikið að heiman svo ég hef alla meðgönguna náð að vera í fullu starfi en ég ætla ekkert að ljúga, það hefur verið erfitt. Við konur erum samt sem áður svo miklir jaxlar að við hörkum af okkur og ég ber ómælda virðingu fyrir mæðrum. Það er að mínu mati stórkostlegt afrek að ganga með börn og ala þau upp. Ég á bæði móðir og ömmur sem voru og eru svo sannarlega hörkukonur og frábærar fyrirmyndir. Stundum horfði ég á mömmu með sín fjögur börn og hugsaði: “Vá, hvernig fer hún að þessu.” Mamma vaknaði klukkan 6 á hverjum degi, gaf okkur morgunmat, kom okkur í skólann og fór svo sjálf í vinnu, vann frameftir degi en hafði alltaf dýrindis holla og góða máltíð tilbúna fyrir okkur á kvöldin, svo var lesið fyrir okkur eða sungið og ég bý enn að því í dag. Hún las fyrir okkur úr hinum ýmsu bókum og spurði okkur ef upp komu orð sem börn hugsanlega skilja ekki, hvort við vissum hvað þau þýddu, ef við vissum það ekki voru þau útskýrð og þannig lærðum við og búum enn að góðum orðaforða. Ég hef góðar fyrirmyndir í mínu lífi og ég vona að ég verði jafn góð móðir og mín eigin móðir. Ég hlakka til að kynna barnið mitt fyrir stóra bróður sínum sem er einstaklega vandaður 8 ára strákur og þeir verða heppnir að eiga hvor annan að. Eins og ég sagði við hann um daginn þá er maður ríkur þegar maður á systkini, það er ákveðið ríkidæmi og því hef ég reynslu af sjálf. Ég er líka ótrúlega ánægð að barnið mitt mun eiga góðan pabba og ég veit það vegna þess að hann er einn besti pabbi sem barn getur hugsað sér, það sé ég vel á sambandi hans og frumburðar hans sem er 8 ára en þeir eru mjög nánir – Hann alveg dýrkar pabba sinn og það er svo sannarlega gagnkvæmt.

Áður en ég varð ólétt hafði ég mínar hugmyndir um hvernig ég myndi gera hlutina á meðgöngu. Ég ætlaði að halda mínu striki í ræktinni og ætlaði sko ekkert að láta neina kúlu framan á mér stoppa mig í því. Það kom á daginn að það var engan veginn í boði fyrir mig fyrstu mánuðina þar sem ég var með sólarhringsógleði, orkuleysi og bara almennt mjög veik. Ég varð því að nota alla mína krafta í vinnu og það var ekki mikið eftir í neitt annað – Enda hefði það ekki verið mjög spennandi að skella sér í ræktina og hlaupa inn á klósett á fimm mínútna fresti. Ég játaði mig því sigraða í bili og sætti mig við breyttar, tímabundnar aðstæður. Þetta var verkefni sem þurfti að klára. Ég hélt að ógleðin myndi minnka eftir 12 viku en þar hafði ég rangt fyrir mér. Ógleðin jókst til muna eftir 12 viku og var til staðar alla fyrstu 5 mánuðina. Eftir að ógleðin minnkaði og ég fékk orkuna mína á ný tóku við viðvarandi bakverkir og millirifjabólga sem var ekkert voðalega spennandi en ég var og er samt sem áður þakklát að vera laus við ógleðina, það er allt annað líf. Þetta sýnir manni það samt bara að það er erfitt að ákveða eitthvað fyrirfram þegar það kemur að meðgöngu, maður verður bara að taka henni eins og hún er, það er ekkert annað í boði.

Ég er með ótrúlega kröftugan lítinn spriklara inn í mér sem lætur vita af sér reglulega. Honum finnst einstaklega spennandi að heyra tónlist og þá fer allt á fullt, ætli hann hafi það ekki frá foreldrum sínum. Mér finnst notalegt þegar litli gaurinn minn lætur vita af sér og nú styttist óðum í að hann komi í heiminn. Við foreldrarnir erum bæði mjög upptekin og höfum undanfarna mánuði sjaldan fengið tíma til að setjast niður og hugsa ekki um neitt annað en komandi kríli. Það er þó æðislegt þegar það gefst tími til þess og fyrsta skiptið sem pabbinn sá og fann spörkin var gæðastund. Honum fannst yndislegt að finna spörkin og þá ríkti mikil gleði. Við gerum þetta saman og maðurinn minn reynir að koma með í allar mæðraskoðanir og hann tekur þátt í öllu sem hann getur. Ég reyni að leyfa spenntum ömmum, langömmu og afa að taka sem mestan þátt í þessu öllu saman með okkur og ákvað að bjóða ömmunum, langömmu og afanum með í 3D sónar – Það er svo gaman að fá að deila gleðinni með öðrum. Þó að meðgangan hafi ekki verið auðveld og ég viðurkenni það fúslega að ég muni eflaust ekki gera þetta aftur á næstunni breytir það ekki því að mér finnst stórkostlegt að fá að búa til einstakling og ég er þakklát fyrir það að fá þann mikla heiður að fá að vera mamma, það er nefninlega ekki sjálfgefið og það er ágætt að hafa það í huga.

Mér finnst ekki síður mikilvægt að hugsa vel um sjálfa mig á meðgöngunni og mér líður vel þegar ég hef mig til, fer í falleg föt, fer í litun og plokkun eða lita á mér hárið (sem ég geri að vísu mjög sjaldan)
Ég ákvað að gera mér glaðan dag um daginn og breyta aðeins til. Ég lita hárið á mér vanalega mjög sjaldan og oft líða margir mánuðir þar sem ég geri það ekki. Ég ákvað að breyta aðeins til og fór til hans Hermanns á Modus í Smáralind og hann litaði lokkana mína rauða!

 

Hér eru nokkrar myndir af “húsi” litla gullmolans míns og það er gaman að hugsa til þess að inn í stækkandi kúlu er stækkandi barn. Ég hef því miður ekki verið eins dugleg og ég ætlaði mér að taka myndir af kúlunni en hér eru þær myndir sem ég hef tekið. Fyrsta myndin er tekin þegar ég var komin 3 mánuði á leið (12 vikur) Og ég tók hana vegna þess að þá var ég farin að sjá að maginn hafði stækkað. Ég setti þessa mynd á Facebook og sumir sögðu að þetta væri nú engin kúla. Þetta er kannski ekki kúla en þetta eru fyrstu breytingarnar sem áttu sér stað á mínum maga. Þeir sem þekkja mig tóku eftir því að þarna hafði maginn minn stækkað – Maður verður alltaf að miða við sjálfa sig, ekki aðra. Við erum öll svo misjöfn og líkaminn okkar er ekki eins.

Hér fyrir neðan var ég svo komin 5 mánuði á leið eða 20 vikur og þarna var bumban byrjuð að taka vaxtarkipp og ég sá og sé enn mun á hverjum degi.

 

 

Hér að neðan er ég svo komin rúma 6 mánuði á leið eða um 25 vikur og þá styttist þetta óðum. Hérna var komin kúla!

 

Á næstu mynd var ég komin 26 vikur sirka

 

Í dag er ég komin 7 mánuði á leið og þetta styttist óðum. Ég hef að vísu ekki tekið bumbumynd í þessari viku en hugsanlega smelli ég í eina. Hér erum ég og maðurinn minn fyrir nokkrum dögum á Gay Pride:

Ég hlakka til að verða mamma eftir tæpar 12 vikur og mig langar að gera mitt besta til að deila minni upplifun með ykkur lesendum. Bæði því góða og slæma – Því þannig er lífið, bæði yndislegt og erfitt á tímum, þannig lærum við og kunnum að meta lífið og allt það góða í lífinu. Ef við upplifðum aldrei erfiða tíma kynnum við ekki að meta þá góðu, þannig hugsa ég þetta. Í hvert skipti sem ég geng í gegnum erfiða tíma eða lendi í erfiðri lífsreynslu hef ég meiri samkennd með öðrum og kann betur að meta það góða í lífinu. Ég er alltaf að læra og á enn langt í land!

SHARE