Meðgönguþunglyndi – Þunglyndi á meðgöngu

Barnshafandi konur ættu að búast við að andleg líðan geti verið sveiflukennd á meðgöngu. Hins vegar verða um það bil 10% barnshafandi kvenna mjög alvarlega þunglyndar. Við höfum fengið skilaboð frá konum sem segja vöntun á upplýsingum um þunglyndi á meðgöngu. Mikið hefur verið rætt um fæðingarþunglyndi en minna er talað um þunglyndi á meðgöngu sem eflaust er algengara en við höldum. Við leituðum okkur upplýsinga og hér eru nokkur góð atriði sem ágætt er að hafa í huga. Ljósmóðir sem er okkur innan handar hefur farið yfir listann og segir hann gagnlegan fyrir konur og aðstandendur.

Einkenni meðgönguþunglyndis 

Reynsla hverrar konu af því að ganga með barn er sérstök. En eins og við vitum að breytingar verða á líkamanum er líka vitað að það verða ýmsar breytingar á tilfinningaskalanum eftir því sem meðgöngunni vindur fram eins og skapsveiflur, kvíði, mikil löngun í allt mögulegt og spenna. Hvenær ætti kona þá að fara að hafa áhyggjur af að skapsveiflur hennar séu ekki eðlilegar?

Ef kona kannast við eftirfarandi einkenni á meðgöngu gæti hún þjáðst af meðgönguþunglyndi. 

  • Getur ekki einbeitt sér og á erfitt með að muna
  • Á erfitt með að taka ákvarðanir
  • Er kvíðin vegna meðgöngunnar og þess að verða foreldri
  • Finnst hún vera tilfinningalega dofin
  • Ákaflega skapstygg
  • Svefnvandamál sem ekki tengjast meðgöngunni
  • Mjög mikil eða viðvarandi þreyta
  • Löngun í mat á öllum tímum eða alls engin lyst á mat
  • Grennist eða þyngist en tengist ekki meðgöngu
  • Hefur ekki lengur áhuga á kynlífi
  • Hefur ekki ánægju eða gaman af neinu lengur þar með talinni meðgöngunni
  • Finnst hún vera í tapstöðu og hefur sektarkennd vegna þess
  • Er stöðugt döpur
  • Hugsar um að deyja eða um sjálfsvíg

 

Að greina meðgönguþunglyndi 

Það getur verið mjög erfitt fyrir barnshafandi konu að skilja eða tala um hvernig henni líður. Þess vegna skipir svo afar miklu máli að heilbrigðisstarfsmenn sem annast eftirlitið á meðgöngunni, makinn, vinir og fjölskyldan fylgist með henni og styðji hana í að leita sér hjálpar. Fyrsta og mikilvægasta skrefið varðandi það að taka á meðgönguþunglyndi er að greina einkennin rétt og eins snemma og mögulegt er. Svo að það megi takast skiptir miklu að gera sér grein fyrir nokkrum atriðum sem gætu valdið þunglyndinu.

Hormón á meðgöngu geta valdið þunglyndi. Allar barnshafandi konur verða fyrir einhverjum áhrifum af hormónum en sumar meira en aðrar. En ýmislegt annað getur komið meðgönguþunglyndi af stað. Óöryggi getur verið tengt meðgöngunni, ef til vill varð hún ekki á heppilegum tíma, ef til vill þarf að fresta einhverjum markmiðum í starfsframanum eða náminu eða það geta verið fjárhagsáhyggjur. Hún getur líka verið óörugg um hvernig hún höndlar það að verða móðir, óttast meðgönguna og sjálfa fæðinguna.  Ef til vill finnst henni líka skammarlegt að vera svona óhamingjusöm þegar allir búast við að hún sé ánægð og blómstri.

Eftirfarandi eru nokkrir þættir sem gætu ýtt undir meðgönguþunglyndi. 

Þunglyndi í fjölskyldunni eða áður hjá konunni. Ef mikið er um þuglyndi í fjölskyldu konunnar eða ef hún hefur sjálf áður tekist á við þunglyndi eru meiri líkur á að hún geti fengið þunglyndi.

Samskiptaerfiðleikar. Ef konan og maki hennar eða fjölskylda eiga í samskiptaerfiðleikum og hún óttast að fá ekki stuðning og hjálp þegar barnið er fætt getur það haft mjög mikil áhrif á andlega líðan hennar.

Erfiðleikar sem henda. Allar meiri háttar breytingar eins og t.d. þær að flytja í stærra húsnæði áður en barnið kemur, skilnaður, atvinnumissir geta valdið þunglyndi.

Vandamál á meðgöngu.  Vandamál eins og morgunógleði eða áhyggjur af því hvort og hvernig barnið er að þroskast geta tekið sinn toll sérstaklega ef konan þarf að vera mikið undir læknishendi eða halda kyrru fyrir.

Ófrjósemi og fósturlát. Ef konan hefur áður átt í erfiðleikum með að verða barnshafandi eða hefur misst fóstur getur hún haft áhyggjur af meðgöngunni.

Ofbeldi. Meðganga getur vakið upp sárar minningar hjá konum sem hafa áður reynt og lifað af tilfinningalegt, kynferðislegt eða líkamlegt ofbeldi.

Vöntun á félagslegum stuðningi. Við þurfum öll stuðning fólksins sem er í kringum okkur. Það á sérstaklega við um konu sem horfir fram á þær breytingar sem það að eignast barn hafa í för með sér. Þegar kona er félagslega einangruð getur það gert konuna óvarðari fyrir þunglyndi.

Fjárhagserfiðleikar. Fjárhagsefriðleikar geta valdið mjög mikilli og alvarlegri streitu á meðgöngu.

 

Meðhöndlun á meðgönguþunglyndi 

Þegar búið er að greina þunglyndi er mjög mikilvægt fyrir konuna að leita sér hjálpar eins fljótt og unnt er.  Hér er m.a. átt við að hún:

Leyfi vini sem hún treystir eða  fjölskyldu að styðja sig og vera sér innan handar og hún þarf að segja þeim hvernig henni hefur liðið. Ef konan á maka þarf hún að tala við hann um ástand sitt og reyna að fá stuðning hans. Hann getur ekki stutt hana nema hún tali í einlægni við hann. Það skiptir líka máli að hún geti sagt fæðingalækninum og/eða ljósmóðurinni frá líðan sinni. Þegar konur fara að tala um þessa líðan sína kemur það þeim oft á óvart hve margar aðrar konur hafa svipaða reynslu.

Taktu því rólega.  Konunni getur fundist hún verða að útbúa barnaherbergið, gera allt hreint og gera eins margt og mikið og hægt er að hugsa sér áður en blessað barnið fæðist. Það gæti verið miklu betra fyrir hana að ætla sjálfri sér dálítinn tíma, lesa góða bók, fá sér morgunverð upp í rúm eða fara út að ganga. Ef hún á önnur börn gæti fjölskyldan passað þau dagpart og hún átt daginn fyrir sjálfa sig. Það skiptir meginmáli fyrir konur sem ætlar að fara að annast barn að hún hugsi um sjálfa sig.

Spáðu í að fara í meðferð eða fá ráðgjöf. Ef konan hefur baslað ein við að reyna að ná bata en það tekst ekki gæti verið ráð að fá tíma hjá fagmanni.

Konan þarf hjálp án tafar: Ef hún er í sjálfsvígshugleiðingum eða illa áttuð, ræður ekki við hið daglega líf eða fær kvíðaköst.

Það er ekki veikleikamerki að fara í meðferð til geðlæknis heldur merki þess að konan er að vinna í því að ná heilsu fyrir sig og barnið sitt. 

Hvað gerist þegar barnið er fætt? 

Það þýðir ekki að kona fái fæðingarþunglyndi þó að hún hafi haft meðgönguþunglyndi. Hitt er þó staðreynd að um það bil helmingur kvenna sem hefur haft meðgönguþunglyndi fær fæðingarþunglyndi. Meðhöndlum á meðgöngu getur dregið marktækt úr líkum á þvi að konan fái fæðingarþunglyndi. Öflugt stuðningsnet maka, fjölskyldu, vina og fagfólks mun gera tímann eftir fæðinguna mun auðveldari og því skiptir miklu að mynda það fyrir fæðingu.

Það er mikilvægt að vera vakandi og þunglyndi á meðgöngu er ekkert til að skammast sín fyrir. Þetta er eitthvað sem fólk ræður ekki við!

Heimild

SHARE