„Meðvirkni er háalvarleg og alls ekkert grín!“

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is.

Átakanleg meðvirkni. Það er eitthvað sem ég hugsa þegar ég hugsa um fjölskylduna mín. Margir halda að meðvirkni sé, í meginatriðum , að segja já þegar þú vilt segja nei. Því fer svo órafjarri. Ég er úr stórri fjölskyldu alkóhólista og meðvirkra einstaklinga. Það má eiginlega segja að ég hafi ekki átt séns til að verða manneskja sem væri HVORKI meðvirk né eiga við áfengisvanda að stríða. Ég er bæði. Ég hef verið edrú í mörg ár og tekst vel til með það. Meðvirknin, fyrir mig, er miklu dýpri og miklu margþættari en alkóhólisminn. Ekki misskilja mig, alkóhólismi er mjög alvarlegur, ég er bara komin á þann stað að ég á ekkert erfitt með að halda mig frá áfengi, hef breytt lífi mínu og mitt líf snýst ekki lengur um djammið og djúsið og fólkið í kringum mig er lítið í svona löguðu.

Meðvirkni er háalvarleg og alls ekkert grín. Það er frábær grein á Vísindavefnum um meðvirkni og ég notaði hana til hliðsjónar í þessum pistli mínum. Ég ætla að skrifa um einkenni meðvirkni eru og hvernig þau komu út í mínu lífi.

Eftirfarandi eru kjarnaeinkenni meðvirkni og dæmi um hvernig þau hafa komið út í mínu lífi:

1.

Erfiðleikar við að upplifa gott og heilbrigt sjálfsmat. Einstaklingurinn á með öðrum orðum erfitt með að elska sjálfan sig.

Þegar ég var að vaxa úr grasi fannst mér ég ekki merkilegur pappír. Ég upplifði mig sem algjörlega misheppnað eintak og átti bara að vera þakklát fyrir þá sem voru í kringum mig, þá sem umbáru mig. Mér fannst ég ekki eiga skilið að eiga vini og hvað þá einhvern sem elskaði mig. Ég hafði mikið á tilfinningunni, að samband mitt við fólk yrði aldrei langlíft, því „flett yrði ofan af mér“ innan tíðar og þá myndu allir yfirgefa mig

2.

Erfiðleikar við að setja heilbrigð og virk mörk, það er einstaklingurinn á erfitt með að vernda sjálfan sig.

Ég get ekki setja öðrum mörk og þarna kemur að þessu með að „segja já þegar ég vil segja nei“. Ég hef sagt já við vinnu, barnapössun, undirbúningi fyrir veislur, strákum og það mætti endalaust bæta við þetta. Ég hef gengið nærri mér í svo ótalmörg skipti að það er svakalegt. Er búin á því og gröm út í alla þá sem ganga á lagið og biðja mig endalaust um hitt og þetta…. kveiki ekki á því að ÉG var sú sem sagði já við þessu, nei það er bara manneskjan sem er að „misnota góðmennsku mína“.

Sjá einnig: 31 réttur sem þú eldar í einum potti

3.

Erfiðleikar við að eiga og tjá eigin veruleika, það er að segja einstaklingurinn á erfitt með að þekkja sjálfan sig, hugsanir sínar og tilfinningar og deila þeim með öðrum. 

Ég átti engar tilfinningar. Mér leið annað hvort vel eða illa. Það var ekkert til sem hét kvíði, ótti, hamingja, reiði, gremja, spenna, tilhlökkun eða neitt svoleiðis. Hvað þá að ég færi að koma þeim í orð. Mér leið bara VEL eða ILLA.

4.

Erfiðleikar við að gangast við og sinna eigin þörfum og löngunum, það er einstaklingurinn á erfitt með eigin umönnun. 

Já… ég held að ég hafi bara alls ekki haft neinar þarfir eða langanir. Ég var bara eins og síðasti maður vildi hafa mig, í öllum samskiptum.

5.

Erfiðleikar við að upplifa og tjá eigin veruleika af hófsemi, það er einstaklingurinn á erfitt með að koma fram með viðeigandi hætti miðað við aldur og aðstæður.

Ég get verið óskaplega barnaleg í ákveðnum aðstæðum. Ég get orðið alveg brjáluð og tekið dramatískar ákvarðanir sem ég meina ekki og græt yfir eftir á. Ég get farið í langar fýlur og hætt að tala við fólk ef það brýtur gegn mér eða mínum.


Til viðbótar kjarnaeinkennunum eru einnig fimm afleidd einkenni (e. secondary symptoms) sem endurspegla hvernig veikt samband hins meðvirka við eigið sjálf skapar vandamál í samskiptum við aðra.

Kjarnaeinkennin hafa eyðileggjandi áhrif á líf hins meðvirka og segja má að birtingarmynd þess sé í afleiddum einkennum. Kjarnaeinkenni hafa áhrif á innra líf hins meðvirka en afleidd einkenni hafa áhrif á samskipti við aðra. Þau má flokka á eftirfarandi hátt:

1.

Neikvæð stjórnun. Meðvirklar gefa sér leyfi til þess að ákvarða raunveruleika annarra fyrir eigin þægindi. Þeir reyna annars vegar að stjórna öðrum með því að segja þeim hvernig þeir ættu að vera og hins vegar með því að þóknast þeim.

Hvar á ég að byrja? Ég er svo mikið í þessu, alltaf, allsstaðar. Ég stjórna oft í aðstæðum og finnst ég vera að gera fólki greiða með því að taka stjórn. Mér líður líka eins og ég sé að taka á mig allskonar til að þóknast fólkinu mínu. Ég held að ef ég skipa nógu mikið fyrir á heimilinu, og allir hlýði mér, þá muni mér líða eins og allt sé í lagi. Það verður ekki „allt uppí loft“ og ef þau myndu bara einu sinni gera eins og ég sting upp á… myndu þau sjá. Ég þarf svo mikinn „strúktúr“ í kringum mig, til að upplifa ekki að allt sé á öðrum endanum, að ég ráði ekki við neitt. Allt verður svo óviðráðanlegt. Á sama tíma langar mig svo mikið að fá hrós og viðurkenningu, sem ég fæ aldrei nógu mikið af, að ég er til í að gera hvað sem er. Mig langar rosalega oft að „fá medalíu“. Mig langar að fá „medalíu“ fyrir að vera dugleg á kaffistofunni í vinnunni að ganga frá, að vera góð mamma, dóttir, vinkona og eiginkona, fyrir að halda sameigninni hreinni, og ég gæti endalaust bætt við atriðum hér. Mig langar að slá í gegn! Alltaf, allsstaðar. Mig langar að líða eins og ég sé mikilvæg. Að ég sé mikils virði, fyrir einhvern, bara hvern sem er.

Sjá einnig: 7 leiðir til að bæta andlega heilsu þína

2.

Gremja. Meðvirklar nota gremju sem fánýta leið til að reyna að vernda sjálfa sig og öðlast sjálfsvirðingu.

Já… svo fæ ég engar medalíur, er misskilin, hrædd og óörugg og það skín í gegn. Ég verð gröm af því „það er alveg sama hvað ég geri“ það „skilur enginn“ hversu mikið ég legg á mig, ENGINN. Hvers vegna ætti ég líka að fá hrós… það er ekkert í mig spunnið (kjarnaeinkenni nr. 1)

3.

Skert andleg geta, brengluð eða engin andleg viðleitni. Meðvirklar gera annað fólk að sínum æðri mætti í gegnum hatur, ótta eða dýrkun eða þeir gera tilraun til að eignast æðri mátt annarra.

Þetta hefur gerst svo ótal mörgum sinnum hjá mér. Er með bullandi minnimáttarkennd gagnvart þessum eða hinum, sem hafa aldrei gert mér neitt en einhverra hluta vegna þoli ég þá ekki. Einnig hef ég gert það í gegnum tíðina að setja fólk á stalla. Litið þannig á að ég „geti ekki lifað án þeirra“. Það er aldrei góð leið til að eiga samskipti við nokkurn mann.

4.

Flótti frá raunveruleikanum, fíknir eða andlegir og líkamlegir sjúkdómar. Manneskja, sem á ekki í góðu sambandi við sjálfa sig, getur búið við svo mikinn sársauka hið innra að hún leitar lausna í fíknihegðun til þess að deyfa sársauka sinn með skjótvirkum hætti.

Einmitt. Fór þessa leið.

Sjá einnig: 9 merki um að hann sé ekki sá eini rétti

5.

Skert geta til að viðhalda nánd við annað fólk er eitt aðaleinkenni hins meðvirka. Nánd felur í sér að tveir eða fleiri deila veruleika sínum án þess að reyna að breyta honum eða dæma. Meðvirklar, sem eiga erfitt með að greina hverjir þeir eru, geta ekki deilt veruleika sínum á viðeigandi hátt og þar með ekki verið nánir öðrum.

Ég á fáa vini. Hef átt erfitt með að opna mig og vera ég sjálf. Ég hef í gegnum tíðina ekki átt mjög eðlileg samskipti við fólk. Hef verið eins og seinasti ræðumaður vill hafa mig og ekki getað verið eins og ég er. Það er bara á seinustu árum sem ég hef getað verið ég sjálf og tekið afleiðingunum. Ég hef verið kameljón og aðlagað mig að því hvernig vinir og elskhugar hafa viljað hafa mig, það getur aldrei enst!


Ég á samtökum fyrir meðvirka líf mitt að þakka. Ég er ekki að segja að ég væri dáin ef ég hefði ekki fengið aðstoð, en líf mitt væri ekki jafn fallegt og innihaldríkt og það er í dag, ef ekki væri fyrir þau. Ég vona að þessi skrif geti á einhvern hátt hjálpað einhverjum sem tengir við þetta. Ef þið viljið fá meiri upplýsingar megið þið endilega setja athugasemd hér fyrir neðan og ég hef samband.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here