Meira af bláberjabombum frá Café Sigrún

Haustið er komið og tími uppskeru og umbreytinga genginn í garð. Þrátt fyrir derring í náttúruöflunum þá draga lífskraftar náttúrunnar sig saman og laufin falla og frysta tekur á ný. Uppskera sumarsins er komin í hús og því ekkert til fyrirstöðu annað en að hefjast handa og mæta myrkrinu sem framundan er með ljós í hjarta. 



Um daginn deildum við með ykkur nokkrum bláberjauppskriftum frá henni Sigrúnu, hjá Cafesigrun og fékk með góðfúslegu leyfi hennar að birta hér nokkrar í viðbót af hennar marglofuðu uppskriftum.

Varla þarf að tíunda næringargildi bláberja sem flokkuð eru sem súperfæða enda stúfull af vítamínum og andoxunarefnum en þau síðarnefndu eru talin styrkja ónæmiskerfið, minnka hættu á hjarta- og æðasjúkdómum og vinna á móti hrörnun líkamans. Heilsuspekúlantar tala um að bláber styrki líka sjónina og séu góð gegn bjúgmyndun, blöðrubólgu og tíðaverkjum svo nokkuð sé nefnt.

berja-_og_tofudrykkur

Berja- og tofudrykkur

Fyrir 2-3

Innihald
•    100 g hindber, frosin (eða fersk)
•    60 g bláber, frosin (eða fersk)
•    1 vel þroskaður banani
•    50 ml hreinn appelsínusafi
•    100-200 ml sojamjólk (eða önnur mjólk)
•    50 g tofu, mjúkt (eða hreint skyr)
•    3 msk agavesíróp eða hreint hlynsíróp (enska: maple syrup)

Aðferð
1.    Setjið bláber, hindber og banana í blandarann ásamt appelsínusafanum. Blandið í um 5 sekúndur.
2.    Bætið sojamjólk, tofui og agavesírópi út í og blandið í 10 sekúndur þangað til silkimjúkt.
3.    Berið fram strax.

Gott að hafa í huga
•    Til að hafa drykkinn þykkari skal bæta meira tofu við og til að fá þynnri má nota sojamjólk.
•    Hægt að nota acacia hunang í staðinn fyrir agave- eða hlynsíróp.
•    Tofu er mjög próteinríkt og gerir drykkin þykkari. Ef þið treytið ykkur ekki til að nota tofu þá er líka hægt að nota hreint skyr í staðin.
•    Hægt er að nota hreint skyr í staðinn.
•    Gott er að nota frosin ber svo drykkurinn verði sem kaldastur en einnig má nota ísmola ef berin eru ekki frosin.

blaberja-_og_sukkuladiis

Bláberja- og súkkulaðiís

gerir um 8-10 stykki af litlum ístertum (um 400 g í heildina)


Innihald
•    125 g cashewhnetur
•    2,5 msk kókosolía
•    1 banani
•    100 g bláber
•    125 ml sojamjólk eða önnur mjólk
•    75 ml agavesíróp
•    30 g kakó

Aðferð
1.    Setjið cashewhnetur í matvinnsluvél og malið í um 1 mínútu á fullum krafti.
2.    Bætið 1 msk af kókosolíu út í og látið vélina vinna þangað til hneturnar eru orðnar kekkjóttar og olíukenndar.
3.    Bætið agavesírópinu, sojamjólkinni og banananum út í matvinnsluvélina og maukið vel.
4.    Bætið afgangnum af kókosolíunni út í og látið vélina vinna í nokkrar sekúndur. Maukið í a.m.k. 30 sekúndur.
5.    Skiptið blöndunni í tvo hluta og setjið annan helminginn í skál og hinn aftur í matvinnsluvélina.
6.    Setjið bláberin út í afganginn af blöndunni sem er í matvinnsluvélinni og blandið mjög vel eða í um 30 sekúndur. Setjið bláberjablönduna svo í skál.
7.    Setjið hinn helminginn af cashewblöndunni í matvinnsluvélina ásamt kakóinu, blandið mjög vel eða í um 30 sekúndur.
8.    Notið lítil form úr siliconi eða einhver önnur form (og klæðið þá með plastfilmu). Fjöldi formanna fer eftir stærð þeirra. Ég notaði t.d. 10 form sem voru breiðari en muffinsform en lægri.
9.    Hellið súkkulaðiblöndunni í botninn á formunum, dreifið vel yfir botninn.
10.    Frystið eða kælið í 30 mínútur.
11.    Hellið bláberjablöndunni út í eða notið sprautupoka til að sprauta fyllingunni ofan á súkkulaðibotninn.
12.    Setjið í frysti í nokkrar klukkustundir og berið fram frosið.

Gott að hafa í huga
•    Einnig má setja blönduna alla í eitt form þ.e. súkkulaði á botninn og bláberjablönduna ofan á.
•    Nota má önnur ber en bláber.
•    Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
•    Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
•    Auðvelt er að gera þessa uppskrift að hráfæðisuppskrift með því að nota heimatilbúna hnetu- eða möndlumjólk.

Blaberjaostakaka

Bláberjaostakaka
kaka fyrir 10-12

Innihald
•    200 g gróft hafrakex eða speltkex
•    50 g muesli (eða annað gott musli með rúsínum og hnetum án viðbætts sykurs)
•    2,5 msk kókosolía
•    5 msk hreinn appelsínusafi (eða meira eftir þörfum)
•    500 g curd cheese (hleypiostur/ystingur) eða Philadelphia Light (smurostur).
•    250 g quark (kvarg) eða hreint skyr
•    3 stór egg
•    3 mtsk agavesíróp
•    2 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
•    100 g fersk (ekki frosin) bláber eða 3 msk bláberjasulta, án viðbætts sykurs
•    200 g grísk jógúrt með 0% fitu
•    200 ml bláberjasulta án viðbætts sykurs

Aðferð
1.    Fyrst skuluð þið byrja á því að búa til botninn:
2.    Setjið kexið og muesliið í matvinnsluvél og malið alveg þangað til það er orðið að dufti. Einnig má setja kexið í poka og fara með kökukefli yfir. Setjið mulninginn í skál.
3.    Dreypið kókosolíunni og appelsínusafanum yfir með teskeið. Hrærið vel.
4.    Gætið þess að mulningurinn sé „rakur” þ.e. að hægt sé að klípa mulninginn saman án þess að vera blautur eða grautarkenndur. Bætið meiri appelsínusafa við ef þið teljið þurfa.
5.    Klæðið 26 sm bökunarform (með lausum botni) með bökunarpappír (þannig að hann fari upp á brún).
6.    Setjið mulninginn í botninn og þrýstið honum vel niður með fingrunum. Gott er að leggja plastfilmu ofan á svo að mulningurinn festist ekki á höndunum.
7.    Bakið við 150°C í 20 mínútur.
8.    Á meðan botninn er að bakast skuluð þið undirbúa fyllinguna:
9.    Setjið í hrærivélaskál (einnig má nota handhrærivél) curd ostinn (eða Philadelphia Light), quark (eða skyrið), egg, agavesíróp og vanilludropa. Hrærið í 10 sekúndur eða þangað til fyllingin er flaueliskennd og mjúk.
10.    Bætið bláberjunum varlega saman við og hrærið þangað til berin hafa dreifst vel en ekki þannig að kakan verði fjólublá. Ef þið notið 3 msk af sultu, hrærið þá á minnsta hraða með handhrærivél (eða hrærivél) í um 2 sekúndur og gætið þess sérstaklega að hræra ekki of mikið.
11.    Takið botninn úr ofninum, kælið í um 10 mínútur og hellið fyllingunni svo út í.
12.    Bakið við 150°C í 40-45 mínútur. Það getur verið að þurfi að baka hana skemur (fer eftir ofnnumi). Potið varlega í miðju kökunnar, ef hún virkar ekki þétt, þá þarf að baka hana lengur. Hún ætti að vera svolítið mjúk í miðjunni en ekki hlaupkennd. Ef hún er hlaupkennd, bakið hana þá í 10 mínútur í viðbót. Kakan stífnar svo þegar hún kólnar. Ef þið þurfið að baka hana lengur en 55 mínútur eða ef hún er farin að dökkna um of eftir 40 mínútur), setjið þá álpappír yfir kökuna. Athugið að kakan getur verið dyntótt með tíma því ég þurfti einu sinni að baka hana í 1,5 tíma en yfirleitt nægja 50 mínútur.
13.    Slökkvið á ofninum og leyfið ostakökunni að kólna alveg inn í honum (gjarnan yfir nótt).
14.    Þegar ostakakan er orðin köld, dreifið þá jógúrtinni yfir og leyfið kökunni að standa í ísskáp eins lengi og þið getið, allt að 2 tíma ef það er mögulegt.
15.    Því næst skal setja afganginn af bláberjasultunni ofan á. Smyrjið varlega svo að jógúrt og sulta blandist ekki saman. (Ástæðan fyrir því að gott er að láta jógúrtina stífna ofan á kökunni í dálítinn tíma).

Gott að hafa í huga
•    Það er fínt að gera þessa köku daginn áður en á að nota hana því hún verður bara betri ef maður geymir hana í einn dag.
•    Kakan geymist í um 3 daga í ísskáp
•    Einnig er hægt að nota alls kyns önnur ber/sultur en bláber/bláberjasultu t.d. rifsber, hindber, blönduð ber o.fl.
•    Ef þið búið ekki til ykkar eigið hafrakex, kaupið þá úr heilsubúð. Venjuleg hafrakex eru yfirleitt mjög óholl þó nafnið gefi annað til kynna.
•    Ef þið búið ekki til ykkar eigið muesli, kaupið þá úr heilsubúð eða kaupið muesli án viðbætts sykurs.
•    Ef þið fáið ekki fitulitla gríska jógúrt, má sía hreina jógúrt í gegnum grisju eða hreint viskustykki í nokkrar klukkustundir. Gott er að setja viskustykki yfir skál og festa með teygju. Hellið jógúrtinni út í og látið bíða þangað til undanrennan hefur skilið sig frá (hún lekur ofan í skálina).
•    Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
•    Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.
•    Athugið einnig að þið þurfið lausbotna 26 sm kökuform fyrir uppskriftina.

SHARE