Þessi dásamlega uppskrift kemur frá facebook síðunni Lifandi líf en á þeirri síðu er að finna margt dásamlegt.
Hulda Dagmar gaf hun.is leyfi til að gleðja lesendur með þessari dásemd.
Það er svolítið mexíkóskt yfirbragð í þessu salati. Baunir og tómatar eru ómissandi blanda í mexikanskri matargerð og að sjálfsögðu má ekki sleppa lárperunum. Þær eru að sjálfsögðu bara dásamlegar en þegar þær blandast saman við grillað korn, þá gerist eitthvað yfirnáttúrulegt. Ferskt kóríander er einnig eitthvað sem ekki má sleppa því það er ekki bara gert til skrauts og fyrir bragðlaukana, heldur er það stútfullt af næringu. Það inniheldur töluvert af trefjum, A, C, E og K vítamínum og einnig kalsíum, járn, potassium og magnesíum.
Sjá meira:Ostasalat sem aldrei klikkar
Uppskrift:
Þessi uppskrift er ca. fyrir fjóra:
1 1/2 bolli af elduðum eða 1 dós af svörtum baunum
3 stk. plómutómatar
1 stk. kornstöngull (eða korn úr dós ef hitt fæst ekki)
1 stk. rauð papríka, skorin í smáa bita
1 stk. lítill rauðlaukur, skorinn í litla bita
2 msk. kóríander, fersk og smátt skorin
1 stk. jalapeno pipar (má sleppa), ör fræ tekin og skorinn smátt
2 msk. rauðvínsedik
Safi úr 1/2 límónu
1/4 tsk. malað cumin
2 stk. lárperur, skornar í litla bita
- Best er að grilla kornstöngulinn og skafa kornið af stönglinum og setja í skál. Það gerir bæði bragðið og áferðina mun betri í salatinu.
- Blandið öllu vel saman í skál, látið bíða í ca. klukkustund í ísskáp og njótið.
Endilega setjið eitt like á síðuna hjá Lifandi líf 🙂
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!