Nýverið fékk ég bréf frá leigusalanum mínum þar sem mér var tjáð að leigusamningurinn yrði ekki endurnýjaður. Ég hef því nokkra mánuði til að finna nýja íbúð, og það er bara hægara sagt en gert. Sérstaklega þegar börn eru í spilinu og maður vill halda sig innan sama hverfis. Svo þarf íbúðin auðvitað að rúma alla fjölskyldumeðlimi og vera á viðráðanlegu verði.
Staðan á leigumarkaðnum er ekki góð. Eiginlega bara alveg glötuð. Fjöldi manns situr um hverja íbúð, sem einnig eru yfirleitt leigðar út á uppsprengdu verði. Ef maður er svo heppinn að finna hentuga íbúð getur maður líka gleymt því að safna sér fyrir útborgun. Sérstaklega þegar maður lifir á einum launum. Það er bara ekki séns.
Auðvitað dreymir mig um að eignast eigið heimili. Íbúð sem ég get innréttað eftir eigin höfði. Málað, hengt upp myndir og sett upp hillur án þess að þurfa að hafa af því áhyggjur eða fá fyrir því leyfi. En fyrst og fremst langar mig að eignast eigið heimili svo ég eigi ekki á hættu að vera fleygt út á götu fyrirvaralaust. Nógu oft hef ég flutt nú þegar. En það er víst ekki á dagskrá á næstunni og þess vegna er ég á fullu að leita mér að leiguhúsnæði. Og það er bara ótrúlega bugandi.
Ég veit eiginlega ekki til hvers ég er að skrifa þetta. Eitt er þó víst, það eru margir í sömu sporum, og að þegja yfir þessu gerir ekkert gagn.
Svanhildur Sól er ung kona sem býr í austurhluta borgarinnar. Hún hefur gaman að lífinu og skrifar um allt milli heima og geima.