“We are having a baby!”
Það var árið 2011 þegar ég átta mig á því hversu heppin ég er að vera með þann ofurkraft að geta eignast barn, þá átti ég eitt. Ég hugsaði “hvað gerði ég til þess að verðskulda þennan mátt?” Vá hvað ég er heppin.
Þá fyrst fer ég að vafra um veraldarvefinn, get ég gefið egg? Er það möguleiki? Get ég nýtt þennan mátt minn í að aðstoða einhvern annan við að eignast svona kraftaverk. Mér þótti þá Ísland vera eitthvað svo lítið að ég varð að leita út fyrir. Þetta var mér ofviða, ofsalega margir möguleikar, hverjum gat ég treyst? Á svipuðum tíma sé ég viðtal við unga stúlku hérna á Íslandi sem hafði gefið egg í Indlandi, í gegnum fyrirtæki sem hét Global Egg Donors. Ég þekkti aðeins til hennar og tók þessu sem merki, ok þarna er það hugsaði ég, “ég ætla að treysta þessu fyrirtæki.”
Krafturinn í mér er svo mikill að ég var nýbyrjuð að fylla út hina heilögu umsókn þegar ég kemst að því að ég á sjálf von á litlu kraftaverki. “Okei, söltum þetta aðeins Þóranna mín.” Ég eignast annað barnið mitt árið 2012 og ekki leið á löngu þar til það þriðja var komið árið 2014!
2015, orðin þrítug þriggja barna móðir. Má ég ennþá gefa egg? Er ég orðin of gömul?
Ég er ekki þekkt fyrir að gefast mjög auðveldlega upp, í lok árs 2015 klára ég umsóknina mína til að gefa egg og þar með hófst biðin! Ég beið extra lengi, enda orðin “gömul” og ekkert sérlega menntuð, fyrir utan doktorsgráðuna mína í lífi, en það er víst ekki til prófskírteini fyrir það.
- Ég er orðin úrelt hugsaði ég og var hálfpartinn búin að gefa þetta uppá bátinn.
Febrúar 2017 fæ ég hin óvæntu skilaboð. Það voru hjón í Bretlandi sem óskuðu eftir að fá mína aðstoð til þess að eignast fjölskyldu. Í örskot stund hugsaði ég “á ég bara að gefa hverjum sem er þessa gjöf? Get ég það?” og á sömu stundu fæ ég eitt hjartnæmasta bréf sem ég hef nokkurntíman lesið. Frá ungum hjónum sem dreymdi um að eignast fjölskyldu en því miður yrðu þau að óska eftir aðstoð. Það eitt og sér er þungt skref að taka. Bréfið las ég sirka 15 sinnum og felldi tár í hvert einasta skipti. Hversu ósanngjarnt er þetta?
Það má hljóma furðulega en það varð einhver ótrúleg tenging í gegnum þetta bréf. Ég skal gera allt sem ég get til þess að aðstoða þessi hjón til þess að láta draum þeirra rætast, auðvitað. Upp frá því hófst mjög fallegt samband okkar á milli.
Eggheimtan átti að eiga sér stað í júlí í Kýpur, ferðalög, rannsóknir, lækniskoðanir og allt tilheyrandi klárt, þetta var heljarinnar bras svona í hreinskilni sagt. En ég var “healthy as a horse!”
Ég er ein af þessum sem kleip sjálfa mig á meðan verið var að taka blóðprufu eða þegar ég fékk sprautur! Þannig tilhugsunin um að þurfa síðan að sprauta sjálfa mig var rosalega stór. En þetta hafði ég tekið að mér og gera skildi vel. Sprauturnar komu loksins í pósti og ítarlegar leiðbeiningar með þeim. Ég þræddi öll video og öll blöð út og inn! Átti að sprauta mig með tvennskonar sprautum í 4 vikur fyrir eggheimtuna sjálfa.
Löngu fyrir þetta ævintýri hafði ég verið búin að kaupa mér miða á tónleika í London í lok júni, þannig þegar það kom að þeim þurfti ég að taka allt heila klabbið með mér út og passa mig að sprauta mig á réttum tíma og svona. Nema hvað, að eftir að hafa verið úti í sólahring eða svo rennur upp fyrir mér að ég hafði verið að ofsprauta mig í nokkrar vikur! Það var lán í óláni að ég var stödd í London þar sem að læknirinn minn frá Kýpur gat sent mig til gamals skólafélaga síns í London sem gerði honum þann greiða að athuga hvort það væri allt í lagi með allt hjá mér! Blessunarlega er ég svo hraust að það var nú í lagi með allt. En ferlinu þyrfti að fresta og byrja uppá nýtt.
Í fangi vinkonu minnar grét ég úr mér augun á miðju kaffihúsi í London, mér þótt svo leitt að hafa klúðrar þessu. Hjónin sýndu mér hinsvegar fullan skilning, konan sagðist hafa farið svo oft í gegnum þetta sjálf að henni þótti alls ekki skrýtið að ég skyldi hafa misskilið leiðbeiningarnar. “Við höfum beðið svo lengi eftir þessu tækifæri að okkur munar ekkert um nokkra mánuði í viðbót.”
Eftir nokkrar auka skoðanir og bið var hægt að hefja nýtt ferli í ágúst. Lyfin höfðu hingað til farið vel í mig og því var ég lítið stressuð fyrir því. Enn ég passaði mig að gera þetta rétt í þetta skipti. Ég vaknaði á hverjum morgni kl 7 og sprautaði mig. Barn skyldu þau eignast.
Þann 9. september hófst svo ævintýrið til Kýpur í eggheimtuna sjálfa. Ferðin var reyndar ekki alveg eins og á hefði verið kosið þar sem mér er sagt upp í þáverandi starfi daginn fyrir ferðalagið. Þannig ég var frekar leið þessa 8 daga á meðan ég var úti. En eggin skyldi ég gefa. Ljósmóðir úti tók vel á móti mér og hélt utan um mig á meðan ég var þarna. Morguninn 13.september er síðan heimtan sjálf. Allt gekk eins og í sögu og ég var komin á ról þegar leið á daginn. Þau voru svo hugulsöm að það beið mín pakki með gullfallegu armbandi þegar ég vaknaði úr svæfingunni og handskrifað þakkarkort. Með gullfallegt armband, smá þrútin og með smá verki var Kýpur skoðuð, mikið labbað, mikið borðað, mikið hugsað og mikið svitnað, ofsalega var heitt.
Þegar heim var komið fékk ég fréttir af því hversu mörg egg hefðu skilað sér og hvenær hjónin mín færu í uppsetningu.
Ég hef fengið að fylgjast með öllu ferlinu þeirra, því miður gekk fyrsta uppsetningin ekki, oh hvað það var erfitt að taka það ekki inná sig.
En svo kom það, þau langþráðu skilaboð, máttur minn hefði virkað.
“We are going to have a baby” með tilheyrandi þökkum og gleðitárum. Þvílik blessun.
Það er erfitt að lýsa hamingjunni og þakklætinu sem fylgir því að geta eignast börn, og hvað þá að vera svo vel stæður að geta aðstoðað aðra til þess sama.
Ég hef verið spurð “finnst þér þetta ekkert skrýtið?”
Vissulega er tilhugsunin furðuleg á einhvern hátt, en á svo góðan hátt. Þetta er einungis mitt DNA sem ég er að leggja fram til að aðstoða þessi ungu hjón í að láta draum sinn rætast. Ég gæti ekki hugsað mér lífið án barnanna minna, fá að upplifa meðgönguna og fæðinguna og öllu þessu ferli, Þvílíkt kraftaverk. Ef ég get aðstoðað svo gott fólk í að gera slíkt hið sama þá finnst mér það bara ekki spurning.
Það hlakkar í mér að fá að fylgjast með þessari fjölskyldu blómstra.
Þetta var langt og strangt ævintýri, en svo mikið þess virði.
Þóranna er sjálfstæð þriggjabarnamóðir og hefur mikla þörf til þess að tjá sig um pælingar alls og ekkerts, Mikilvægt og ómerkilegt. afhverju ekki að nýta þá tækifæri netheimisins til þess, fyrir áhugasama. Í þeirri von að einhver nýti góðs af.