Móðir nokkur í Kaliforníu var handtekin á þriðjudaginn vegna gruns um að hún hafi myrt þrjú ung börn sín, það yngsta aðeins 2 mánaða. Lögreglan var kölluð á vettvang stuttu eftir klukkan 17 á þriðjudaginn þar sem aðrir fjölskyldumeðlimir mættu þeim. Samkvæmt fréttatilkynningu var lögreglumönnum tjáð að móðirin, Carol Coronado, hefði myrt börnin sín.
Lögreglan fann börnin, 3 ára, 2 ára og 2 mánaða látin á heimilinu. Meðal þeirra sem tóku á móti lögreglumönnunum var móðir konunnar, amma stúlknanna. Carol, sem er 30 ára, var handtekin á staðnum og farið var með hana á spítala og þaðan á lögreglustöðina en hún tjáði sig ekkert um málið.
Nágranni fjölskyldunnar sagði Daily Breeze að faðir barnanna hefði verið að vinna í bílnum þeirra, hinum megin við götuna, þegar tengdamóðir hans kom og fann dóttur sína og börnin í blóði sínu á hjónarúminu.
„Ég sá þegar þeir komu með föðurinn út, hann grét og grét og sagði „hún drap dætur mínar““ segir þessi nágranni og segir líka að þegar móðir Carol hafi komið að henni hafi hún verið að reyna að skera sig á púls með eldhúshníf. Konan hafi verið nakin, en vafin inn í teppi þegar hún var flutt út í bíl og var þakin blóði.
Móðir Carol segir að hún hafi hringt í hana fyrr um daginn og þá hafi hún sagt að hún væri við það að missa vitið.
Talið er að konan hafi þjáðst af fæðingarþunglyndi en það hefur ekki verið staðfest.