Mömmupakki fyrir nýbakaða móður á flótta

Eliza Reid, forsetafrú Íslands og  Eva María Jónsdóttir, verndari UN Women á Íslandi heimsóttu nýverið griðastaði UN Women í Zaatari flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Á griðastöðunum eru konur öruggar, fá atvinnutækifæri, menntun og daggæslu fyrir börn sín.

Konur og stúlkur í Zaatari flóttamannabúðunum búa við grimman veruleika. Flestar konur í búðunum eru margra barna mæður sem sárlega þurfa vernd, öryggi og stuðning til að koma undir sig fótunum á ný.

Vissir þú að?

•             1 af hverjum 3 konum í Zaatari búðunum hefur verið gift á barnsaldri

•             Konur og stúlkur í Zaatari eru berskjaldaðar fyrir ofbeldi

•             Fimmta hver kona í Zaatari búðunum er fyrirvinna fjölskyldunnar

•             Atvinnutækifæri fyrir konur í Zaatari eru sárafá

Um 80 þúsund Sýrlendingar dvelja í Zaatari eftir að hafa flúið stríðsátök og ofbeldi í heimalandi sínu. Búðirnar eru þær næststærstu í heiminum og jafnframt eru þær fjórða fjölmennasta borg Jórdaníu.

Konur og börn eru um 80% íbúa í Zaatari og eiga erfitt uppdráttar í búðunum. Það er staðreynd að konur og stúlkur á flótta eiga í meiri hættu á að verða fyrir kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi. Flestar konur í Zaatari hafa orðið fyrir skelfilegum áföllum; misst börn sín, maka og ástvini og glíma við áfallastreituröskun, þunglyndi og einangrun. Margar þeirra eru ekkjur og einstæðar mæður.

Til að sporna við ofbeldinu, aukningu barnahjónabanda og fátækt í flóttamannabúðunum starfrækir UN Women þrjá griðastaði fyrir konur og stúlkur. Þar eru konur og stúlkur óhultar fyrir ofbeldi, fá atvinnutækifæri, menntun og börnin daggæslu, þar fá konur einnig sálrænan stuðning eftir áföll og ofbeldi. Þökk sé griðastöðum UN Women geta konur lifað með reisn og virðingu í erfiðum aðstæðum.

Jólagjöf UN Women er mömmupakki fyrir nýbakaða móður í Zaatari flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Um 80 þúsund manns búa nú í Zaatari eftir að hafa flúið stríðsátök og ofbeldi í Sýrlandi. Yfir 64.000 íbúanna eru konur og börn þeirra og á bilinu 60-80 börn fæðast í búðunum á viku.Á griðastöðum UN Women hafa konur á flótta tækifæri til að afla sér tekna með því að t.d. sauma ungbarnaföt og burðarrúm fyrir alla nýbura sem fæðast í búðunum. Nú er ískalt í búðunum og lífsskilyrði erfið. Gjöfin yljar nýbökuðum mæðrum og börnum þeirra. Mömmupakkinn samanstendur af burðarrúmi, ungabarnafötum og prjónuðu sjali fyrir mömmuna prjónað úr íslenskri ull sem UN Women á Íslandi færði konunum síðastliðinn september þegar íslenska teymið heimsótti Zaatari.

 

Mömmupakkinn fæst á unwomen.is.

 

SHARE