Mottumars er genginn í garð með pompi og prakt, brúskuðum yfirvaraskeggjum og fögrum áheitum sem öll stuðla að aukinni fræðslu um krabbamein karla, en á ári hverju greinast um 750 íslenskir karlar með krabbamein.
Skjáskot: mottumars.is
Algengustu krabbamein karla eru í blöðruhálskirtli, ristli og lungum
Samkvæmt upplýsingum úr krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins eru 5600 karlar á lífi í dag, sem hafa fengið krabbamein, en algengustu krabbamein karla eru í blöðruhálskirtli, lungum, ristli og endaþarmi.
Skjáskot: mottumars.is
Lífslíkur hafa stóraukist undanfarin fjörtíu ár
Tæpur helmingur þeirra karla sem greinast með krabbamein eru á aldrinum 40 til 69 ára en meðalaldur við greiningu sjúkdómsins er um 67 ár. Lífshorfur hafa batnað mikið, en um 26% karla sem greindust með krabbamein fyrir fjörtíu árum, lifðu í fimm ár eða lengur en nú geta 66% karla sem greinast með krabbamein vænst þess að lifa svo lengi.
Skjáskot: mottumars.is
Því fyrr sem sjúkdómurinn greinist – því meiri líkur á lækningu
Þriði hver karl getur búist við að fá krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni, en talið er að um tíunda hvert krabbamein skýrist af arfgengum þáttum. Hver og einn getur gert ýmislegt til að draga úr líkum þess að fá krabbamein, t.d. með því að reykja ekki, hreyfa sig reglulega, borða góðan og fjölbreyttan mat, takmarka neyslu áfengis og varast óhófleg sólböð. Því fyrr sem sjúkdómurinn greinist – því meiri líkur eru á lækningu.
Skjáskot: mottumars.is
Keppni hófst þann 1 mars og opið er fyrir skŕaningar á mottumars.is
Opnað hefur verið fyrir skŕaningu fyrir keppendur sem ætla að safna mottu á vefsíðunni mottumars.is og hafa fjölmargir þáttakendur þegar skráð sig til leiks, en megimarkmið átaksins „Karlmenn og krabbamein / Mottumars 2015“ er líkt og fyrri ár, að hvetja karlmenn til að þekkja einkenni krabbameina og stuðla að jákvæðum breytingum á lífsháttum til að koma í veg fyrir krabbamein.
Glæstir vinningar í boði fyrir Fegurstu Mottuna, öflugasta liðið og einstaklinginn
Átak Mottumars er tvíþætt; bæði sem árveknis- og fjáröflunarátak. Þeir fjármunir sem safnast í átakinu eru notaðir í forvarnir, fræðslu, ráðgjöf og rannsóknir. Hægt er að kynna sér allar reglur á vefsíðu Mottumars en hér er skráningarsíðan sjálf. Til mikils er að vinna fyrir þá sem safna fegurstu mottunni og ekki einungis heiðurinn sjálfur, því keppt verður til veglegra verðlauna í einstaklings- og liðakeppni samhliða því sem Fegursta Mottan verður sérstaklega valin.
Við verðum að sjálfsögðu með puttann á púlsinum, enda fátt glæsilegra en frísklegir karlmenn með fögur yfirvaraskegg – en hér má lesa meira um Mottumars 2015 og leikreglur sem gilda.
Áfram strákar og lengi lifi mottan!
Tengdar greinar:
Hannar mottumen til styrktar mottumars – Frábært fyrir konur
Þjóðþekktir Íslendingar gefa merkilega hluti til Mottumars
Heklaðir barnaskór til styrktar Mottumars
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.