Sykurmagn í morgunkorni og einstaka mjólkurafurð getur jafngilt sykurmagni í kexi og jafnvel sælgæti. DV tók saman hve mikinn sykur morgunkorn og mjólkurafurðir innihalda, en vörurnar eru algengar á morgunverðarborðum landsmanna.
Setjir þú pakka af Lucky Charms eða Coca Puffs á morgunverðarborð barna þinna ertu að bjóða þeim sætasta morgunverð sem völ er á. Sykurinnihald í þeim er yfir 40 prósent að því er Neytendablaðið greinir frá. Þar segir að fjölþjóðleg rannsókn sýni að flestar gerðir af morgunkorni, sem ætlaðar eru börnum, innihaldi alltof mikinn sykur sem er oft meira en í kexi eða kökum. Á meðal þess morgunkorns sem mestan sykur inniheldur má nefna Guldkorn, Coca Puffs og Honey Nut Cherrios en þessar tegundir innihalda 34 til 35 grömm af sykri af hverjum 100 grömmum.
Sykurmagn ekki gefið upp
Sú mjólkurvara sem efst skipar sér á lista yfir sykurinnihald er hrísmjólk. Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Mjólkursamsölunnar reiknast sykurinnihaldið í hrísmjólk með kanilsósu 23,3 grömm. Á heimasíðunni er ekki hægt að sjá hversu mikinn sykur mjólkurafurðir fyrirtækisins innihalda. Í samtali við Björn Gunnarsson, vöruþróunarstjóra MS, er þumalputtareglan sú að sykurinnihald í mjólkurvörum megi finna út með því að draga 4 grömm (eða 4 prósent) af 100 grömmum af uppgefnu magni af kolvetnum í vörunni. Kolvetni í 100 grömmum af hrísmjólk eru 27,3 grömm. Náttúrulegur mjólkursykur er í öllum mjólkurafurðum um 4 prósent. Ef hann er dreginn frá kolvetnamagninu fæst sykurinnihaldið út, 23,3 grömm. Það jafngildir tæplega venjulegum 12 sykurmolum, sem hver er 2 grömm á þyngd.
Hreint Krakkaskyr er sykurlaust
Fleiri mjólkurafurðir innihalda mikið magn sykurs. Nægir þar að nefna engjaþykkni en í 100 grömmum er 13,9 grömm af sykri. Í skyr.is með perum eru um 11,6 grömm af sykri í hverjum 100 og í léttjógúrti með vanillu er sykur 10,7 prósent.
Þær mjólkurvörur sem lítinn eða engan sykur innihalda eru súrmjólk, hrein ab mjólk, hreint Krakkaskyr ásamt dagmáli með hindberja og vanillubragði svo dæmi séu tekin. Af sykurlitlu morgunkorni má nefna Cherrios og Weetabix en hvor tegund um sig inniheldur á milli 4 og 5 prósent af sykri. Kornflex inniheldur 8 prósent sykur en Solgryn haframjöl aðeins 1 gramm í hverjum 100.
Einstaklingsbundnar þarfir
Ólafur Gunnar Sæmundsson er næringarfræðingur og höfundur bókarinnar Lífsþróttur, næringarfræði fróðleiksfúsra. Hann segir að orkuþörf fólks sé afar mismunandi og ráðist af því hvað fólk aðhafist yfir daginn. Þeir sem séu of þungir og hreyfi sig lítið eigi vitaskuld að neyta sykur- og fitusnauðra matvæla. „En fyrir unglingspilt í mikilli hreyfingu eða átökum er ekkert óeðlilegt við það að hann neyti orkuríkra, jafnvel sykurmikilla afurða. Það sem skiptir máli er hvernig dagurinn kemur út, ekki endilega einstök máltíð. Það getur vel verið að sá sem borðar feitt bjúga í hádegismat hafi borðað mjög skynsamlega þegar dagurinn er á enda runninn,“ segir Ólafur og bendir á að orka fáist meðal annars úr sykri og fitu.
Getur ýtt undir átröskun
Ólafur segir að Mjólkursamsalan hafi verið dugleg að framleiða og koma með á markað sykursnauðar mjólkurafurðir. Hann varar við því að matvæli séu ýmist flokkuð sem holl eða óholl. „Umræðan hefur að miklu leyti snúist um megrun. Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að sífellt tal um hollan eða óhollan mat ýti undir átröskunartilhneigingu, bæði hjá börnum og unglingum. Börnum sem fylgja þessum skilaboðum hættir til að borða of lítið,“ segir hann. Ólafur á þrjú börn sjálfur. Hann segir að honum detti ekki til hugar að eltast við orkusnauðar afurðir handa börnum sínum. „En fólk sem á í vandræðum með holdafarið á að sjálfsögðu að gæta hófs í orkumiklum matvælum,“ segir hann.
Jafn mikill sykur og í nammi
Sumir hafa haldið því fram að neysla á sykurríku morgunkorni jafngildi því að borða hreinlega nammi. Ólafur segir aðspurður að mjög sykruð morgunkorn og mjólkurvörur geti flokkast til sælgætis. Hann bendir þó á að meira að segja í Cocoa Puffs sé að finna mikilvæg prótein og vítamín. Og þó að engjaþykkni innihaldi mikinn sykur þá sé afurðin sneysafullt af kalki og próteinum. „Öll fæða gefur eitthvað sem við þurfum á að halda. Smjör er ekki flokkað sem hollustuvara en gefur okkur þó orku í formi fitu og bæði a og b vítamín.
Ólafur telur að mataræði ungmenna sé mun betra nú en það var fyrir tíu, tuttugu og jafnvel þrjátíu árum. „Þegar ég var ungur var manni gefið mjög sykrað skyr. Þegar maður þurfi nesti með sér þá innihélt það jafnvel djúpsteiktar kótilettur. Neysla grænmetis og ávaxta í dag er mun meiri en áður hefur verið, að því er ég best þekki,“ segir hann.
Sykurmagni leynt?
Sykurmagn mjólkurafurða er sjaldnast gefið upp á umbúðunum. Björn segir ástæðuna þá að lög kveði ekki á um slíkt. Ef þær upplýsingar væru gefnar þyrfti einnig að birta nánari sundurliðun á næringarinnihaldi en sjaldnast væri pláss fyrir slíkt á litlum umbúðum. Sykurmagn er heldur ekki gefið upp á heimasíðu MS, nema í einstökum tilvikum. Björn segir að þetta hafi verið rætt í fyrirtækinu en að framtaksleysi sé ástæða þess að því hafi ekki verið hrint í framkvæmd. Ólafur segir aðspurður að hann vilji sjá bragarbót á þessu. Upplýsingar um sykurmagn ættu að hans viti að liggja fyrir.
Sykurmagn í 100 grömmum:
Lucky Charms er 40,7
Cocoa Puffs 40,5
Guldkorn 35,0
Coco Pops 34,0
Honey Nut Cherrios 33,9
Weetos 23,5
Hrísmjólk m. kanillsósu 23,3
Special K 17,0
All-Bran 17,0
Engjaþykkni
jarðarb. 13,9
Weetaflakes 12,5
Skyr.is m. perum 11,6
Léttjógúrt m. vanillu 10,7
KEA skyr m. bananasp. 10,2
Rice Krispies 10,0
Húsavíkur jógúrt bláb. 9,6
SMS smáskyr 8,4
Þykkmjólk jarðarb. 8,2
Corn Flakes 8,0
Skólajógúrt m. bananab. 7,5
Óska jógúrt blönd.áv. 7,4
Skyr.is jarðarb. 6,8
MS skyr bláb. 6,2
KS súrmjólk m. karam. 6
Krakkaskyr banana 4,5
Cherrios 4,5
Weetabix 4,4
Solgryn 1,0
Krakkaskyr hreint 0
Dagmál m. hindb. og van. 0
Kea skyr hrært 0
Súrmjólk 0
ab mjólk hrein 0
Heimild:
Upprunaleg frétt á DV
Birt með góðfúslegu leyfi heilsufrelsi.is
Þóra er keramikhönnuður og starfar sem slíkur á vinnustofu sinni í Hafnarfirði ásamt pistlaskrifum og kennslu. Þóra reynir að tileinka sér umhverfisvæna mannasiði á sem flestum sviðum og notar t.d. sem náttúrulegust hráefni í hönnun sína. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og ytra ásamt því að hafa komið að rekstri tengdum heilsu og hönnun.