Naktir „penslar“ taka þátt í listaverki Ingvars Björns annað kvöld

Gamla Bíó í Ingólfsstrætinu mun hýsa heldur óvenjulegan og spennandi listrænan gjörning fimmtudagskvöldið 27. nóvember en þá mun pop art listamaðurinn Ingvar Björn leggja lokahönd á verkið sitt „The Largest Artwork“ og hljómsveitirnar Vök og Blaz Roca spila undir.

Sýningin gengur undir heitinu United Transformation og samtals verða máluð þrettán málverk í stærri kantinum.

Stærsta abstract Social Media listaverk í heimi
Listaverkið var sett á laggirnar árið 2012 í þeim tilgangi að setja heimsmet í fjöldaþátttöku og að fá fólk víðsvegar um heiminn til að sameinast í að búa til eitt stórt sögulegt listaverk.

Að sögn Ingvars Björns tóku yfir 78.000 manns frá 138 löndum þátt í verkinu í gegnum samskiptavefinn Facebook og mynduðust þannig ákveðin mynstur notenda í rafræna verkinu. Ingvar Björn segir að nú sé kominn tími á að færa listaverkið úr rafrænu formi yfir í fast form.

„Þetta er sameining tveggja heima og núna mála ég táknin, þessi svörtu, og módelin gera línurnar á milli táknanna. Manneskjan táknar línuna eins og í stóra verkinu. Það var búið að biðja mig um að mála verkið í heild sinni upphaflega en mig vantaði tenginguna við fólkið sem tók þátt í að skapa verkið. Þetta er táknrænn gjörningur að því leitinu til, svona vildi ég mála verkið.

Mennskir penslar
Ingvar Björn segist hafa fengið innblástur frá listamanninum Yves Klein í því hvernig hann vildi útfæra málverkið en þar eru naktar konur að mála á striga með líkama sínum líkt og með risastórum pensli. Aðspurður hvers vegna hann valdi konur en ekki karlmenn segir Ingvar Björn að honum finnist naktar konur einfaldlega fallegri heldur en naktir karlar.

„Ég vil sjá listaverkið útfært svona, þetta er bara eins og ég sé það fyrir mér. Þær mála sig sjálfar og þrýsta svo litnum á verkið. Þær verða allar í mismunandi litum, ég er orðinn spenntari fyrir því að nota liti í dag heldur en áður. Það er skemmtilegt hvað litir hafa sterk áhrif.“

http://youtu.be/1mJCVM3d7jw

Hér má sjá myndband frá árinu 1960 af listrænum gjörningi Yves Klein sem veitir Ingvari innblástur í sinni sköpun.

Eins og að bjóða fólki heim í vinnustofuna hjá sér
Hljómsveitin Vök og Blaz Roca munu spila framúrstefnulega tónlist sem er ofin saman við verkið á meðan að Ingvar Björn umbreytir samfélagsmiðla-listaverkinu yfir í fast form. Ingvar segist vinna mikið með tónlist og að hún setji stemninguna fyrir það sem hann skapar hverju sinni.

„Vök og Blaz Roca er sitthvor tónlistarstefnan og þú færð sitthvort málverkið út úr þessu. Ég myndi líkja þessu við kvikmyndina Dusk to Dawn, sem er breytist úr glæpamynd yfir í hálfgerða splattermynd. Þannig er það með verkið mitt, þú munt upplifa eitthvað ævintýralegt. Þetta er eins og að bjóða fólki heim í vinnustofuna hjá sér. Dóttir mín gerir stundum grín af mér þegar ég er einn í einhverju stuði að dansa og vinna. Ég er kannski að fíflast og syngja, það fer allt eftir í hvaða skapi maður er í og hvaða stemning er í gangi og það fer mikið eftir tónlistinni.“
.
.
Gjörningurinn mun fara fram í Gamla Bíói annað kvöld og er ráðlagt að tryggja sér miða í forsölu á Miði.is
.
Hún.is ætlar að gefa nokkrum lesendum miða fyrir tvo á sýninguna annað kvöld. Skrifaðu „The Largest Artwork“ í ummæli hér að neðan til þess að taka þátt í leiknum. Við drögum í fyrramálið! 
.
SHARE