Name it biður foreldra velvirðingar á mistökum – Fengu bréf sent heim með nafni barnsins og annars foreldrisins en þriðja nafnið kannast enginn við

Barnafatabúðin Name It á Íslandi biðst velvirðingar á mistökum sem urðu í póstsendingu til foreldra ungra barna með gjafabréfi fyrir ungbarna-samfellur. Ekki er vitað nákvæmlega hversu margir urðu fyrir mistökunum en lukkulega var ekki búið að póstleggja nema hluta gjafabréfanna.

Name It barnafatabúðin sendi nýverið foreldrum barna sem fæddust árið 2012 gjafabréf fyrir samfellu að eigin vali úr búðinni. Svo virðist sem að í einhverjum tilvikum hafi ruglingur orðið á nöfnum foreldranna í póstlistanum. Ábendingar hafa borist um að nafn barns og annars foreldris sé rétt en þriðja nafnið kannist enginn við á heimilinu.

Ruglingurinn komst upp þegar foreldrarnir hófu að spyrjast fyrir um málið á Facebook-síðu Name It Iceland. Sagðist ein kona hafa heyrt af því að gjafabréf hefði borist pari nokkru en í stað nafns móðurinnar var nafn hennar gefið upp með nafni föðurins. Hún sagðist í gamansömum tóni þakka versluninni fyrir þessa tilraun til að koma sér saman við manninn en hún væri sátt við þann sem hún ætti í dag og þyrfti ekki annan. Önnur kona greindi frá því að gjafabréf hefði borist á heimili hennar sem var stílað á mann hennar, son og óþekktan mann og hefði það kallað fram mikinn hlátur á meðal heimilisfólksins.

 

Name It biðst innilegrar velvirðingar á mistökunum og þakkar fyrir þann góða skilning sem að viðtakendur bréfanna hafa sýnt. Verið er að kanna rót mistakanna en svo virðist sem að þau liggi hjá þjónustuaðilanum sem annaðist gerð póstlistans. Það er jafnframt von aðstandenda verslunarinnar að þessi leiði ruglingur leiði ekki til alvarlegs misskilnings á milli nýbakaðra forelda.

SHARE