Átján ára gömul fegurðardrotting frá Búrma sem var fyrir skemmstu kosin Miss Acia Pacific World, hefur verið svipt titlinum á grundvelli dónaskaps, óheiðarleika og óþekktar samkvæmt mati skipuleggjenda keppninnar sjálfrar, en stúlkan neitaði að undirgangast brjóstastækkun í kjölfar þess að hafa hreppt fyrsta sætið.
Í stað þess að skila kórónunni, sem er tæplega 12 milljóna króna virði, fór stúlkan í felur með höfuðdjásnið eftir að hafa þvertekið fyrir að leggjast undir hnífinn hjá lýtalækni. May Myat Noe, sem er 18 ára gömul, þykir hafa orðið þjóð sinni til skammar með uppátækinu og segir David Kim, talsmaður keppninnar sem haldin var í Suður Kôreu að stúlkan hafi ollið skipuleggjendum vonbrigðum með sjálfstæðri framkomu sinni allt frá fyrsta degi.
Þessu greinir breska blaðið The Guardian frá en stúlkan mun hafa slökkt á farsíma sínum og reyndist blaðamönnum ógerlegt að ná tali af henni sjálfri í kjölfar þeirra atburða sem ollu því að stúlkan var svipt titlinum. Þó greindu búrmönsk dagblöð frá því í sl. viku að stúlkan væri enn á landinu og að hún myndi ávarpa blaðamenn og gefa út sjálfstæða yfirlýsingu bráðlega.
Forsaga málsins mun sú að skipuleggjendur keppninnar höfðu sett niður dagskrá sem innihélt bæði söng og myndbandsupptökur af May Myat en ljóst þótti liggja fyrir að stúlkan þyrfti stærri brjóst. David sagði málið vera hneyksli:
Okkur fannst bara að hún ætti að vera fallegri …. svo að við sendum hana beint á spítalann í brjóstastækkun þegar hún mætti til að syngja. Þetta fellur undir okkar ábyrgðarsvið og það eru styrktaraðilar keppninnar sem borga brúsann, en þetta er ekki í fyrsta sinn sem svona aðgerðir eru framkvæmdar á fegurðardrottningum. Ef stúlkan er til dæmis ekki með fallegt nef, sendum við hana í nefaðgerð. Ef brjóstin á henni slúta niður eða eru ekki löguleg, þá sendum við hana í brjóstastækkun. Svo einfalt er það.
En May var ekki á sama máli og skipuleggjendur. Þannig var móðir hennar með í för til Seúl og þurftu keppnishaldarar að greiða tvöfaldan kostnað fyrir uppihald og fæði í þá þrjá mánuði sem undirbúningur stóð yfir. Í vikunni sem leið var May svo loks tilkynnt að hún hefði verið svipt titlinum sökum óhlýðni og að hún yrði að skila kórónunni. Einnig fékk hún flugmiða í hendur sem átti að koma henni aftur heim á leið, en í stað þess að fara í flugið, hvarf stúlkan með kórónuna, sem er alsett Swarovski kristöllum og valdi að fara aðra leið heim en skipuleggjendur keppninnar kusu henni til handa.
Hún laug að okkur og sýndi keppnisreglum enga virðingu. Hún óvirti forstjórann, framkvæmdarstjórann, fjölmiðla og svo þá aðdáendur hennar sem komu henni í fyrsta sætið. Það vita allir að hún er ekki lengur fegurðardrottning, en hún heldur að á meðan hún hefur enn kórónuna þá sé hún Miss Asia Pacific World. Það er hún ekki. Hún er ekki fegurðardrottning. Hún er bara dóni.
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.