Það sem margir klikka á þegar kemur að hollu og næringarríku mataræði er skipulag. Hvers vegna klikkum við á skipulaginu ? Höfum við ekki tíma ? Höfum við frekar tíma til þess að renna við í skyndibita í hádeginu ? Það er staðreynd að oft tekur minni tíma að útbúa hollan hádegisverð heima og setja í nestisbox heldur en að standa í biðröð eftir tilbúnum mat. Það sparar þér líka dágóða summu að koma með heimatilbúið auk þess sem þú veist nákvæmlega hvað er í boxinu. Hér er uppskrift að hollu kjúklingasalati sem tekur aðeins korter að töfra fram. Það má svo að sjálfsögðu líka stækka skammtinn og bera fram fyrir liðið í kvöldmat.
Kjúklingasalat (fyrir einn)
2-4 kjúklingalundir
1 harðsoðið egg
¾ tsk rósmarínkrydd
1 hvítlauskrif, marið
1 tsk ólífuolía
Smá sprauta sítrónusafi
Spínat
Salatblanda
1 tsk balsamikgljái
½ tsk hunang
Graskersfræ
Mangó
Vínber
Aðferð
1. Saxið lundirnar í litla bita og setjið í skál ásamt rósmarín, hvítlauk og olíu. Blandið vel saman.
2.Steikið kjúklinginn á pönnu.
3.Skolið spínat og salat og látið í box. Hrærið hunangi og balsamikgljáa saman og veltið salatinu upp úr því.
4.Leggið kjúklinginn á salatbeðið.
5.Skolið vínber og skerið mangó út í salatið ásamt egginu.
6.Stráið graskersfræjunum yfir.
Kviss bamm búmm og þið eruð með langflottasta nestið í fyrirtækinu.
Birna er tvítug Reykjavíkurmær. Hún er stúdent frá Verzlunarskóla Íslands og hefur mikinn áhuga á mataræði og heilbrigðum lífsstíl. Birna stundar Boot Camp, hlaup og lyftingar af kappi. Hún er dugleg að takast á við krefjandi áskoranir og leika lausum hala utan þægindarammans. Hvort sem það er utanvegahlaup, kraftlyftingar, þrekkeppnir eða annað í þeim dúr. Birna mun deila uppskriftum úr eigin tilraunaeldhúsi með lesendum Hún.is ásamt því að skrifa skemmtilega og upplífgandi pistla er snúa að heilbrigðum lífsstíl og sjálfsrækt.