Mánuðum saman hefur Hildur Máney staðið fyrir söfnun og dreifingu á fötum, barnafötum og hreinlætisvörum til athvarfa og meðferðarheimila. Verkefnið kallar hún Kærleikssöfnun 2016 og er heimili hennar miðstöð móttöku þar sem fötin eru þvegin, brotin saman og keyrð út þangað sem neyðin er mest.
„Ég vil fæði og klæði fyrir alla. Það eru sjálfsagður hlutur,“ segir Hildur Máney Örlygsdóttir Tölgyes stofnandi verkefnisins Kærleikssöfnun 2016. Hópurinn hefur séð fjölda kvenna og barna fyrir fötum og skóm, snyrtivörum og hreinlætisvörum eins og sjampói og dömubindum.
Hópurinn hefur helst unnið í samstarfið við Konukot, Krýsuvík og Töfrastaði en Hildur segist þekkja til neyðarinnar sem þar er. „Það er dýrt að kaupa föt á Íslandi og sérstaklega barnaföt sem krakkar eru fljótir að slíta fyrstu árin. Þessi athvörf og meðferðarheimili þekki ég til og vinna gott starf en neyðin er ofboðslega mikil. Í gær fengum við til okkar unga konu í leit að útigalla fyrir son sinn, ég var akkúrat með drengjaföt uppi við og hún gat því valið úr. Ég spurði hvort það væri ekki eitthvað sem við gætum gert fyrir hana. Hún var svolítið feimin en viðurkenndi að hana vantaði föt í vinnunna, þá förum við í það að róta í pokum og fundum til föt handa henni. Við viljum mæta þörfinni þar sem neyðin er mest, milliliðalaust.“
Mikill tími fer í að safna fötunum, sortera þau, þvo og keyra út. En öll starfsemin fer fram í íbúð Hildar. „Ég veit ekki hvað mörg kíló af fötum hafa farið héðan út. Starfsemin er alveg að springa og við erum að íhuga að færa okkur í lítið húsnæði. Í kringum 100 manns er nú orðinn hluti af hópnum, við vinnum með öðrum góðgerðarsamtökum en viljum eindregið fá fleiri fyrirtæki til liðs við okkur. Okkur skortir til dæmis burðarpoka en öll aðstoð er vel þegin.“
Hildur og vinkonur hennar hafa ætíð verið duglegar að skiptast á fötum. Þaðan spratt hugmyndin að Kærleikssöfnuninni. „Það er árlegur liður hjá okkur að endurnýta allt sem við eigum og skiptast á fötum. Ég tók að safna í poka og gefa til Konukots. Pabbi lagði mér lið og skaffaði hreinlætisvörur sem hann sankaði að sér á ferðum sínum erlendis. Ég auglýsti eftir aðstoð á Facebookhópunum Beauty tips og Góða systir þegar pokarnir tæmdust hjá mér. Viðbrögðin voru ótrúleg en ég hafði varla við að svara öllum og sækja dót. Ég ákvað því að stofna sérstakan hóp Kærleikssöfnun 2016 til að einfalda samskiptin.“
Í Facebookhópnum Kærleikssöfnun 2016 er öllum frjálst að leggja sitt af mörkum. „Við tökum við öllum ábendingum um fólk sem þarf á aðstoð að halda og þiggjum alla þá hjálp sem býðst, frá einstaklingum og fyrirtækjum. Neyðin er mikil en kærleikurinn er það líka.“