Þar sem ég sit hér ein snemma á laugardagsmorgni með ljúfan kaffibolla og leyfi huganum bara að reika þá fer hugurinn að huga að jólum.
Jólin þessi dásamlegi tími sem hefur breyst svo mikið frá því ég var stelpa. Kanski finn ég þessa breytingu af því það var ekki til mikill peningur á mínu æskuheimili og við vorum sjö systkinin, gæti verið.
Undanfarinn ár hefur mér fundist jólin hafa snúist um neyslu og markaðsetningu. Það þarf að kaupa jólaskraut í réttum lit, flottustu gjafirnar og pakka þeim inn með allskyns glingri á pakkanum, versla þarf ógrynni af sætindum og baka 17 sortir auk þess sem maturinn verður að vera tipp topp og jú allir verða að fá ný föt og svona mætti lengi halda áfram að telja.
Í fréttum kemur svo yfirlit yfir vinsælustu jólagjafirnar sem eru oft dýrir munir eins og tölvur eða einhver snjalltæki, börn gera sér enga grein fyrir verðmætamati og þykir eðlilegt að biðja um nýjustu tölvuna eða síman sem var að koma á markað, ekki það að blessuð börnin séu frek nei þau læra af því sem fyrir þeim er haft.
Svo er líka alveg að verða nauðsynlegt að halda jól í útlöndum fyrir margar milljónir í sólinni og einmitt til að losna við brjálæðið hérna heima þegar kemur að jólum.
Ég veit ég hljóma eins og partýpúber en þetta er samt sem áður staðreynd og ég hef alveg verið með í þessu.
Neysla og aftur neysla og enn meiri neysla……..
Spáið í það ef í stað þessarara endalausu neyslu þá myndum við öll sem getum taka okkur til og styrkja þá sem ekki geta haldið jól vegna fátæktar, já það er fátækt á Íslandi og meira að segja sár fátækt.
Nú þegar talað er um umhverfismál, kolefnisspor og að jörðin sé að deyja hægt undan neyslu mannsins er þá ekki tímabært að íhuga aðeins hvert við stefnum og viljum við halda þessum neyslujólum eða þráum við kanski innst inni kyrrlát jól, þar sem við njótum kærleikans og samverunnar með okkar nánustu, jebb væmin jól.
Síðustu ár höfum við í minni fjölskyldu færst þangað, reyndar hafa jólin alltaf verið slök og kósý og það besta sem við vitum eru náttfatajól, já ég sagðið það upphátt fyrir framan alþjóð náttfatajól.
Góð samvera, góður matur, náttföt og kósínes, vel valdar gjafir ekki þær dýrustu og flottustu heldur þær sem hafa einhverja meiningu, skilja eitthvað eftir eins og upplifun eða annað slíkt.
Aðventan er stresslaus samverutími til að njóta saman fara á tónleika eða bara taka súkkulaðibolla og spjall. Safna minningum í minningabankann.
Greinarhöfundur hvetur alla til að styrkja eitt gott málefni um þessi jól.
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!